Margir sem hitta mig spyrja mig feimnislega: Hvað ertu að gera núna? Mér vefst tunga um tönn.
Árið er að ganga sitt skeið þannig að ég verð líka að spyrja sjálfan mig: Í hvað fór nú þetta ár?
1. Ferðalög
Við hjón fundum okkar ferðum á fjöldamargar þjóðir.
- Í janúar komumst við til Úganda, sem var frábær upplifun. Við vorum varla lent þegar við sáum að þarna væri fólkið, náttúran og dýrin það sem myndi gleðja okkur. Við vorum svo heppin að hafa fylgd og leiðsögn staðkunnugs, en ég mæli hiklaust með þessu fallega landi. Það er svolítið skrítið að ferðast til lands þar sem sagan nær ekki nema 150 ár aftur í tímann. Þegar ég kom heim las ég aftur bók sem ég drakk í mig sem strákur, Hvíta Níl, saga landkönnuða á þessu svæði.
- Í mars flugum við til Ísraels og Jórdaníu. Þar er sagan við hvert fótmál og nær þúsundir ára aftur í tímann. Ég mæli með ferð á þessar slóðir, en við vorum full stutt. Vikan sem við vorum á staðnum var skipulögð frá því eldsnemma að morgni fram á kvöld. Ég mæli með 10 dögum eða hálfum mánuði. Þegar ég var á heimleið las ég Júdas, bók eftir Amos Oz, sem dó nú um jólin. Frábær rithöfundur.
- Í byrjun júní héldum við svo í mikla Evrópureisu. Byrjuðum í Berlín þar sem ég sótti heimsþing tryggingastærðfræðinga. Svo fórum við með lestinni til Varsjár, sem er miklu fallegri borg en ég hafði áttað mig á í fyrri heimsóknum mínum. Áfram til Hvíta-Rússlands þar sem Minsk er eins og lifandi safn um kommúnismann. Sé ekki eftir að hafa farið þangað og kíkt á frábæran ballet. Þá var það Moskva og leikurinn við Argentínu – vítið frá Messi. Skemmtilegir dagar. Fórum svo til Kænugarðs þar sem við röltum um borgina í þrjá daga. Síðasti leggurinn var gönguferð í Ölpunum með Önnu frænku. Við komumst upp í hlíðar Matterhorns sem blasti við á hverjum morgni út um svefnherbergisgluggann. Góður endir á stórkostlegri ferð.
- Um Dresden vissi ég lítið nema að Churchill vildi að hún yrði lögð í rúst í lok heimstyrjaldarinnar. Nú er búið að reisa hana úr rústum á ný og þar var gaman að verja nokkrum dögum með félögunum úr körfuboltahópnum Skundum á Þingvöll.
- Sex dagar í París í lok november voru ágætur toppur á þessari miklu ferðatertu. Þar skemmti aldni bítillinn, Paul McCartney okkur í heila þrjá tíma, en annars ráfuðum við um rómantísk strætin og stoppuðum stundum og fengum okkur glas af léttu víni og ostasneiðar. Fórum meira að segja í messu í Notre Dame, en hringjarinn var upptekinn þegar við fórum, enda klukkan einmitt tólf.
Það eru næstum tuttugu ár síðan við vorum síðast svona lengi að heiman.
2. Vinna fyrir Viðreisn
- Ég er oft spurður að því hvort ég sé hættur í pólitík. Líklega er það eins og spyrja alkóhólista hvort hann sé hættur að drekka maður má aldrei segja já. (ekki að pólitíkusar drekki sér til óbóta, ég veit ekki hvaðan þessi hugrenningatengsl komu). En ég er ágætlega virkur í Viðreisn og ber hag hennar mála mjög fyrir brjósti.
- Ég sit í stjórn og framkvæmdastjórn Viðreisnar. Við vorum með landsþing í mars og mér þótti ósköp vænt um að ég fékk flest atkvæði í stjórn. Báðar stjórnir hittast mánaðarlega, ef ekki oftar.
- Svo var ég á lista Viðreisnar í borgarstjórnarkosningunum í vor og gat í fyrsta sinn kosið sjálfan mig. Sem betur fer komst Pawel að, en ég var 44 sætum frá því að ná kjöri. Margir skamma Viðreisn fyrir allt sem aflaga hefur farið í stjórn borgarinnar, en það hef ég lært á stuttum ferli í stjórnmálum að það er ekki gott að leggja strax árar í bát, þótt stundum blási á móti.
- Fimmtudagsfundir Viðreisnar eru oftast fróðlegur vettvangur fyrir félaga og þá sem vilja kynnast flokknum. Ég hafði sótt þá nánast alla frá því að við Geir Finnsson sátum tveir í Ármúlanum sumarið 2016 á fyrsta fundi, vonsviknir yfir hve fámennt væri (en vissulega góðmennt). Þá hafði útidyrunum óvart verið læst og þegar við lukum upp margfaldaðist fjöldi fundarmanna. Nú í haust ákvað ég að sækja námskeið í frönsku hjá Alliance Francais og gætti þess vandlega að skrá mig ekki á fimmtudegi. Svo var námskeiðið fært – auðvitað yfir á fimmtudaga, þannig að ég hef ekki komist á fundir nú í haust. Tala samt ekki fumlausa frönsku.
- Loks skrifa ég um það bil vikulega pistla í Moggann, en fæ sjaldnast mikil viðbrögð við þeim. Einhverjir lesa blaðið samt enn, það finn ég.
3. Ég skrifa talsvert
Reyndar tekur það sjaldnast langan tíma, ég er hraðskrifandi, sem kom sér vel um daginn þegar aðstoðarritstjórinn náði í mig klukkan hálf níu að kvöldi og minnti mig á að ég ætti pistil morguninn eftir, en ekki daginn þar á eftir eins og mig minnti. Pistillinn var kominn inn í kerfið tæplega klukkutíma síðar. Alls voru greinar sem ég skrifaði á árinu að minnsta kosti 110, kannski fleiri.
Ég stofnaði fjölmiðilinn bjz.is og setti greinar sem ég skrifaði þangað. Mest lesnu greinar ársins eftir mig voru:
- Krónan: Íslenska rúllettan
- Kaupthinking: Fagurt skal mæla, en flátt hyggja
- Fegursta ástarljóð á íslensku?
- Hvaða þingmenn fá mest?
- Einfeldningur í sviðsljósinu
- Myndir á skírteinum
- Vanþekking er velsæld
- Ég hef aldrei verið sammála sjálfum mér
- Sterkari Reykjavík með Pawel
- Maðurinn sem setti Ísland á hausinn
Margar þessar greinar eru pólitískar, þó ekki allar. Ég skrifa um hitt og þetta. Stundum það sem ég er að gera þá stundina, eða annað sem mér dettur í hug.
Mér fannst það ekki endilega skemmtilegustu eða bestu greinarnar sem voru mest lesnar, þó að ég hafi verið ánægður með margar þeirra líka. Af greinum sem ekki komust á lista yfir þær mest lesnu get ég nefnt nokkrar greinar sem ég skrifaði um nána ættingja. Ég skrifaði um ömmur mínar báðar, Steinunni Símonardóttir, föðurömmu mína á Norðfirði, Guðrúnu Pétursdóttur, ömmu mína, sem bjó hjá okkur í Laugarásnum. Svo skrifaði ég um langömmu – Kristjönu Sigurðardóttur, ljósmóður og veitingakonu. Ég vissi ekki margt um hana, en þó að hún hafði verið ljósmóðir og þær voru mikið í umræðunni síðastliðið vor. Á 100 ára fullveldisins rifjaði ég upp að Benedikt afi minn hafði barist hatrammlega á móti sambandslagasáttmálanum árið 1918 vegna þess að hann taldi hann ekki ganga nógu langt. Loks skrifaði ég um frænkur mínar, dætur Ólafar móðursystur minnar, skömmu eftir að haldið var upp á að Ragnhildur dóttir hennar hefði orðið sjötug, hefði hún ekki fallið frá allt of ung.
Þrjár greinar skrifaði ég eftir jarðarfarir, eina um ljóð Lárusar Blöndals sem mér finnst eitt fallegasta ljóð á íslensku, minningar um Jón Hafstein Jónsson, stærðfræðing frá Akureyri og hugleiðingar um Sigurð Svavarsson bókaútgefanda.
Ég var hætt staddur á sundi í Rauðahafinu, eiginlega upp úr þurru, skrifaði um furðulega áráttu hluta til þess að hverfa og birtast svo aftur á líklegustu stöðum og minningar frá árinu 1968, árinu sem breytti heiminum og líklega mér líka.
Loksins veit heimurinn hvaða lög Bítlanna eru best eftir að ég valdi þau 80 bestu og hélt svo upp á listann með því að við Vigdís fórum á tónleika með Paul McCartney. Vala Hafstað gaf út frábæra ljóðabók sem ég hafði gaman að.
Þrjár greinar skrifaði ég frá Afríku. Það var ógleymanlegt ferð.
Loks var ég nokkuð ánægður með þrjár greinar sem voru innblásnar af pólitískum viðburðum: Braggablús vorra tíma, sem ekki þarf að skýra. Grein um orðfæri forsætisráðherra: Eigum við kannski að hætta að smætta? og loks innblástur af Klausturferðinni frægu og eftirmálum hennar: Úr dagbók lögreglunnar?
4. Göngur og körfubolti
Mér hefur líklega tekist að fara milli 30 og 40 alvöru göngur á árinu, en alvöru ganga er að minnsta kosti klukkutími á fjalli eða 2-3 tímar á jafnsléttu. Tvö ný fjöll fór ég á: Kerlingu í Eyjafirði og Mælifellshnjúk í Skagafirði, bæði alvörufjöll. Svo fór ég líka í langa göngu í Austurdal í Skagafirði með félögum mínum í Merkigilshópnum.
Leikfimihópurinn Skundum á Þingvöll hefur starfað í tæplega 30 ár. Leikfimiæfingum er að mestu hætt, en spilaður körfubolti. Við höfum þá reglu að það lið sem skorar körfu frá miðju vinnur, óháð því hvernig staðan er. Mér tókst að skora átta slíkar körfur á árinu, meðal annars síðustu körfu ársins.
5. Vinna? Ja, það er nú eitthvað minna
Ég hef ekki verið í fastri vinnu, en mæti flesta daga á skrifstofuna hjá Talnakönnun. Hef tekið að mér nokkur verkefni og hlaupið í skarðið ef með þarf. Segist sjálfur vera aðstoðarmaður í eldhúsi. Hef lært talsvert í Excel og í bókhaldi og hef reynt að koma ýmsu í röð og reglu sem ég gerði ekki nógu á löngum ferli mínum meðan ég átti fyrirtækið. Velti ýmsum nýjungum fyrir mér. Sjáum hvað 2019 ber í skauti sér.
6. Skemmtilegast á árinu
Toppurinn er örugglega þegar Jón minn og Tóta kona hans eignuðust stelpu, Jónínu Maríu, Nínu, í maí. Hún verður fallegri og skemmtilegri með hverjum deginum sem líður.
Svo er líka alltaf gaman að tala við hinar dótturdætur mínar um heima og geima. Nú er ég kominn með heilan áttavita af stelpum sem þær mynda Vigdís, Anna Lilja, Steinunn María og Nína. Það verður ekki flottara.
Í heildina tekið er árið 2018 ágætt ár, ekki áfallalaust en þannig er lífið, en fínt, eins og reyndar flest ár. Hlakka til þess næsta.