Þó að margt sé framandi á ferðalagi til Afríku er óhætt að segja að hjörtunum og mannfólkinu svipi að mörgu leyti saman í Súdan og Grímsnesinu. Dýralífið er aftur á móti gjörólíkt og þess vegna eru skoðunarferðir í þjóðgarða mikið og einstakt ævintýri. Við stefndum á garð sem kenndur er við Murchison fossa í ánni Níl. Stuðið byrjaði áður en við komumst inn í garðinn sem er um fjögra tíma akstur norður af Kampala, höfuðborg Úgöndu.
Þegar við vorum á leiðinni að hliðinu komumst við ekki inn í garðinn vegna þess að það voru tveir fílar á veginum. Fílar eru engar smáskepnur og annar þeirra stóð upp við tré. Kannski var hann að klóra sér á því, eða kannski vildi hann bara standa í skugganum. Að minnsta kosti var engin leið að komast framhjá honum á bílnum okkar. Bílstjórinn beið fyrst í fimm mínútur til þess að athuga hvort fíllinn færi ekki, en þegar hann stóð alltaf kyrr, þá urðum við að færa okkur yfir á næsta veg.
Fílarnir voru skemmtileg byrjun. Oftast hita menn upp með því að antílópur, gíraffar og villisvín þvælist um svæðið. Strax fyrsta daginn ókum við um garðinn endilangan, meðal annars að gömlum rústum. Ég hélt það væri eldgamall kastali, en það var víst hótel sem byrjað var á fyrir fimmtíu árum, en aldrei var klárað. Þar eru stundum hlébarðar og hýenur, en í dag vorum við ein á staðnum. En á bakaleiðinni komst adrenalínið í gang.
Það var eldur í grasinu í skóginum og þegar við komum keyrandi eftir veginum kom hópur af antílópum og ýmiss konar dádýrum sem flúði eldinn á móti okkur. Okkur var um og ó, því að eldurinn kom nálægt bílnum, en við keyrðum svo áfram. Eldurinn náði alveg að veginum þar sem við fórum, en við komumst samt framhjá. Í ljós kom að þetta var hliðstætt við sinubruna á Íslandi, kveikt í dauðu, þurru grasi til þess að nýtt og ferskt æti komi fyrir grasbítana.
Hinum megin við eldinn var allt grasið brunnið og sums staðar voru enn logandi tré. En líklega hafa mörg smádýr dáið í eldinum, því að það voru þúsund fuglar fyrir ofan brunnið grasið.
Daginn eftir vöknuðum við klukkan hálf sex og bíllinn kom um sexleytið. Í þetta sinn höfðum við vopnaðan landvörð með. Mér fannst það svolítið óhugnanlegt að vera með hlaðinn riffil við lappirnar á mér. Fórum mikinn þvottabrettisveg framhjá flugvellinum og sáum lítið nema ég sá einn héra og bílstjórinn sagðist sjá kónguló.
Stoppuðum svo fyrir sólarupprás, en sáum ekkert nema bjarma á himninum og héldum af stað því Stefán hélt að við sæjum ekkert gegnum mistrið. Hann hélt því reyndar fram að það þýddi ekkert að bíða eftir sólinni, en vildi ekki leggja neitt undir. Svo kom sólin upp og hún var aldeilis glæsileg.
Við vorum varla komin inn í bílinn aftur þegar við sáum ljónynju og nokkra ljónsunga. Svo kom pabbinn í ljós og það var mikið stuð. Ég reyndi að mynda ungana og fylgdist ekki með fullorðnu dýrunum, en þau hafa líklega farið að tefla því að allt í einu kallaði leiðsögumaðurinn: „They are mating“, en þegar ég leit á þau var skákin greinilega búin.
Ljón eru sannarlega engin lömb að leika sér við. Livingston, landkönnuðurinn frægi, varð fyrir árás ljóns og lýsir því hvernig ró hafi færst yfir hann meðan ljónið var að narta í öxlina á honum. Ég hef lesið það hvernig menn róast þegar þeir halda að sitt skapadægur sé upprunnið. Hann lifði reyndar 20 ár eftir þetta og í fyllingu tímans var staðfest að líkið sem flutt var til Englands var af honum vegna þess að örin á öxlinni leyndu sér ekki.
Ekki leið á löngu áður en annað ljón var að ganga meðfram bílnum og enn annað lá í vegkantinum. Þessi ljón voru bókstaflega 3 til 5 metra frá okkur. Ég náði mörgum frábærum myndum af þeim.
Svo hélt stuðið áfram. Við sáum buffalóa, gíraffa, vörtusvín, nasirnar á flóðhestum og loks stjarnan í ferðinni. Við komum að Albertsvatni, sem Níl fellur í, þar sem veiðimenn köstuðu neti sínu.
Hlébarða uppi í tré. Ég sá reyndar ekkert nema dökka þúst, en á myndunum kom í ljós þessi glæsilegi hlébarði. Þeir liggja víst á trjágreinum þegar þeir hvíla sig.
Seinni partinn fórum við á bát út á Níl og siglum upp að Murchison fossunum. Það var skemmtileg sigling. Flóðhestar eru líka kallaðir Nílhestar og eru sagðir einhver mannskæðustu spendýr Afríku, líklega vegna þess hve erfitt getur verið að sjá þá þar sem aðeins sést í spikið á bakinu á þeim upp úr vatninu. Ég hélt að við myndum ekkert sjá meira, en á þessari siglingu voru þeir margir spígsporandi um.
Við sáum líka litríka fugla, letilega krókódíla sem biðu okkar opinmynntir og fíla í sefinu á eyjum á fljótinu.
Á endanum sáum við fossinn fræga spýtast fram af miklu afli, en þar sem farvegurinn er þrengstur er hann um sjö metrar, en ofar og neðar er áin hundruð metra á breidd. Allt í allt tók siglingin rúmlega þrjá klukkutíma.
Daginn eftir vöknuðum aftur fyrir allar aldir. Vegurinn var lakari ef eitthvað var og leiðsögumaðurinn ákvað að fara með okkur á frekar „leiðinlegar slóðir“. Nú voru engin ljón á veginum, en eftir tíðindalítinn morgunn vildi hann allt í einu að við stoppuðum. Ég sá ekkert en þjóðgarðsvörðurinn sá hlébarða í tré og frekar tvo en einn.
Öðrum sá ég móta fyrir, en hinn sá ég alls ekki. Minnugur reynslunnar daginn áður ákvað ég þó að taka myndir í gríð og erg. Loks tókst mér að grilla í hinn hlébarðann þar sem hann lá í krika á trénu, rétt fyrir neðan þann sem reisti höfuðið. Eftir um tíu mínútur vildi leiðsögumaðurinn að við héldum áfram, en eitthvað hik var á okkur sem betur fer, því að allt í einu fór annað dýrið á stjá. Það er ótrúlegt að sjá þessi stóru dýr klifra í trjánum og hve lipurlega þó fóta sig. Þegar hlébarðinn kom neðar skein sólin þannig á hann að okkur gekk betur að sjá þetta tigulega dýr.
Svo sáum við vörtusvín og villta vísunda. Það er athyglisvert að mörgum dýrum fylgja fuglar sem hirða af þeim flær og önnur sníkjudýr.
Dýralífið var ekki eins fjölbreytilegt og spennandi og í daginn áður, en býsna skemmtilegt samt. Við flugvöllinn sáum við svo hýenu í fjarska. Að skilnaði spurði vörðurinn hvort ekki væru þjóðgarðar á Íslandi. Svo þurfti hann endilega að spyrja hvaða dýr væru þar. Einhvern veginn voru hreindýr og refir ekki sérstaklega tilkomumikið svar.
Það var gott að hvíla sig við laugina á hótelinu. Barþjónarnir spiluðu háværa gospel músik með endalausum lögum um King of the Kings og Lord of the Lords. Tónlistin í Úgöndu var yfirleitt ekki skemmtileg, en aðalgallinn er að lögin eru mörg um fimm mínútna löng, svo stefin eru notuð endalaust.
Upp úr þrjú fórum við svo að ferjustaðnum. Þar var hljómsveit sem spilaði mjög langt afrískt lag. Ferjan tók bæði fólk og bíla og var um fimm mínútur að sigla yfir Níl. Svo ókum við upp að Murchison fossunum og sáum þá ofan frá. Það var líka gaman.
Dagurinn endaði svo á Ecolodge, sveitahóteli þar skammt fyrir austan (eða sunnan) og við gistum í heldur frumstæðum skála í skóginum. Ég var í efri koju, en um miðja nótt vaknaði ég með andfælum og varð að fara niður, sem ég gerði náttúrlega með látum, því að ég missti símann á gólfið. Fékk Vigdísi til þess að skipta um rúm við mig, en ég var lengi að hrista af mér þennan óhug. Las bók um Kongó í um tvo tíma. Sofnaði loks um hálf sex, klukkutíma áður en við fórum á fætur. Veit ekki hvað olli. Kannski hvítvín með matnum.
Enn vöknuðum við snemma. Ég var bærilegur þrátt fyrir flókna nótt. Fólkið á næsta borði var hresst og kátt og fullorðinn maður gaf sig á tal við mig, predikari frá vesturhluta Kanada. Hann var almennilegur og hvatti mig eindregið til þess að fara í Klettafjöll og vildi fá mig í heimsókn í söfnuðinn, sem ég man ekki annað af en hann byrjaði á C.
Svo fórum við í gönguferð um skóginn í leit að simpönsum með ungri konu sem stoppaði reglulega og hlustaði eftir hljóðum, en uppskeran var rýr. Þó sáum við nokkra staka, mjög hátt uppi í tré. Loks fundum við hóp, suma á jörðu niðri og þar er ekki endilega auðveldara að sjá þá, en þó fleiri í trjánum. Það var gaman að sjá þá. Leiðsögukonan sagði að simpansar lifðu stóðlífi, þannig að kvenapinn gæti verið með öllum kallöpum. Stefán sagði þá að þetta væri eins og í Úganda. Konan þóttist ekki heyra þetta.
Þetta var heilmikill göngutúr, rúmlega níu kílómetra samkvæmt mæli Vigdísar. Vorum um þrjá tíma á rölti.
Loks fórum við að tillögu bílstjórans okkar í nasnshyrningagarð. Nashyrningum var útrýmt í landinu á tímum Idi Amins og þeir þurftu að byrja upp á nýtt fyrir um 15 árum. Þar er 21 nashyrningur og einn til viðbótar væntanlegur á hverju augnabliki. Þau höfðu byrjað með sex árið 2003, fjögur frá Keníu og tvö frá Bandaríkjunum. Fyrsti karlhyrningurinn sem á föður frá Keníu og móður frá Bandaríkjunum er nefndur Obama. Þegar fjöldinn verður kominn upp í 35 ætla þau að flytja þá í almenna garða.
Þetta var svolítið skemmtilegt, þó að það væri fremur auðvelt að finna dýrin. Við sáum samtals sjö nashyrninga eða þriðjung íbúanna. Ætli við höfum ekki verið um 50 til 100 metra frá þeim. Mesta spennan var þegar Ronald, nashyrningavörður sagði okkur að við ættum að fela okkur bakvið runna (eða bakvið Ronald) ef nashyrningarnir ætluðu að ráðast á okkur, en í raun eru þeir mjög nærsýnir og augun virka ekki saman, þannig að þeir eru ólíklegir til þess að velja sér fórnarlömb.
Dagur að kvöldi kominn. Þrír ævintýradagar höfðu liðið hjá eins og auga væri deplað. Úganda er einstakur staður á jarðríki. Churchill kallaði landið ekki Perlu Afríku að ástæðulausu.
Fyrri hluti ferðasögunnar: