„Heldurðu að þú hittir Idi Amin?“
Þetta voru algeng viðbrögð þegar ég sagði frá því að við Vigdís værum á leið til Úganda (eða Úgöndu).
Ég taldi það ólíklegt vegna þess að hann hefði hrökklast úr landi árið 1979. Svo væri hann líka dáinn fyrir 15 árum.
Jú, menn vissu það, en eiginlega var einræðisherrann Amin það eina sem menn þekktu frá Úganda, þannig að fæstir höfðu meira til málanna að leggja.
Það eru meira en tvö ár síðan við ákváðum að leggja land undir fót og ferðast til þessa ríkis í austurhluta Afríku við miðbaug. Ekki vegna þess að Úganda væri sérstakt áhugamál, ég vissi litlu meira en hinir fáfróðu félagar mínir, heldur vegna þess að Stefán vinur minn var fluttur þangað. Síðsumars pöntuðu þær Vigdís og Ingibjörg svo flug alla leið til Kampala fyrir 87 þúsund krónur á mann (báðar leiðir). Mér fannst það góð kaup.
Flugið Keflavík-London-Doha-Kampala er drjúgur spotti, yfir 11 þúsund kílómetrar, sem er um það bil fjórðungur af leiðinni umhverfis jörðina. Ferðin tók rúman sólarhring með tiltölulega stuttum stoppum á öllum flugvöllum. Doha er einkennileg borg í Katar, landi sem virðist vera ein eyðimörk, en hefur náð að byggjast upp á jarðgas auði. Ég hef aldrei séð glæsilegri flugstöð, þó að stoppið væri stutt og dimmt úti.
Við lentum reyndar ekki í Kampala, heldur á flugvellinum í Entebbe, sem öðlaðist heimsfrægð þegar Ísraelsmenn björguðu gíslum úr flugráni þaðan árið 1976. Hann er við Viktoríuvatnið, líklega um 40 kílómetra sunnan við höfuðborgina, Kampala.
Ég held að nú sé komin ný flugstöð og við þurftum að sýna að við værum rækilega bólusett þegar þangað kom. Vegabréfsáritunin var líka í lagi, þó að þeir sendu mér ekki tölvupóst því til staðfestingar fyrr en viku seinna.
Taskan hans Smára vinar okkar kom ekki fram, en hann fékk skjal því til staðfestingar að hún kæmi daginn eftir. Hann hafði geymt myndavélina sína í töskunni sem mér fannst ekki góður felustaður. Aðrar töskur skiluðu sér.
Í tré utan við flugstöðina bauð fallegur fugl okkur velkomin.
Á leiðinni til borgarinnar sáum við litlar búðir á báðar hendur. Þetta er algengt einkenni á bæjum í Úganda. Allir virðast hafa eitthvað að selja og flestir selja símkort því að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar á farsíma, þó að landið sé tiltölulega fátækt og marga skorti rafmagn, hita og rennandi vatn heima hjá sér.
Þegar ég horfði út um gluggann hugsaði ég með mér: „Svona getur hversdagslíf eins orðið ævintýri annars.“ Og það var sannarlega ævintýralegt að horfa á fólk í litskrúðugum klæðum ganga meðfram götunni eða við afgreiðsluborð að kaupa mat eða fyrirferðarmikla hægindastóla, sem víða voru boðnir til kaups. Einn bauð sjónvarpsskjái með 100 rásum og í hrörlegu skýli var fasteignasala, Silent Property Agents. Ég er ekki viss um að ég hefði treyst þeim, þó þöglir væru. Flestir eru snjallir að láta miklar byrðar hvíla á höfðinu á sér án þess að styðja við þær. Ég veit ekki hvernig það fer með hálsliðina.
Gulur, rauður, grænn og blár blöstu allir við í fötum vegfarenda. Nær allir voru í síðum buxum eða sumar konurnar í pilsum eða kjólum. Oft velti ég því fyrir mér hve margar konur voru í glæsilegum kjólum úti að spássera, án þess að maður sæi sérstakt tilefni til þess.
Loks komum við til Kampala. Nafnið er sagt dregið af því að þarna voru dádýr, impala, á ensku. Akasozi ke’Empala eða Hæðir Impala dýranna varð að Kampala. Það fór ekki á milli mála að nú vorum við komin til alvöru borgar með ringulreið í umferðinni, bílar, mótórhjól (þeir kalla þau boda boda), sendibílar (rúgbrauð) sem taka talsvert fleiri farþega en komast fyrir í þeim með góðu móti, gangandi fólk æða um án sérstaks skipulags að séð verður, nema að flestir aka á vinstri vegarhelmingi, sem mun vera algengt í Afríku, en þó ekki algilt.
Borgin er byggð á sjö hæðum að sagt er. Ríka fólkið reynir að búa sem hæst svo að flugurnar og flóðin komist þangað sem síst. Þar sér maður alls kyns bústaði. Glæsivillur með sundlaugum og hreysi sem fljóta burt á regntímabilunum. Frárennsli er víða ekki merkilegt og alls ekki kerfi til þess að taka á móti því steypiregni sem þá hellist yfir á skömmum tíma. Við losnuðum alveg við það, það kom ekki deigur dropi úr lofti meðan á dvöl okkar stóð. Umferðaröngþveiti er daglegt brauð. Sumir vakna klukkan fimm til þess að fara til vinnu og hætta að vinna fyrir þrjú, allt til þess að forðast teppu og dugir ekki alltaf til.
Víða eru snyrtilegir veitingastaðir og við fengum góðan mat af ýmsum uppruna. Enska er sameiginlega málið en margir tala líka svahílí. Það breytir ekki miklu hvort málið menn tala nema í enskunni skilur maður orð og orð. Þeir skildu líka orð og orð í enskunni okkar.
Þjónustufólkið á hótelum og veitingastöðum var glaðlegt og kurteist, en ekki alltaf vel með á nótunum. Ef matur átti að vera kominn á borðið klukkan tvö samkvæmt samkomulagi var maður heppinn ef kokkurinn fór að laga hann kortér yfir. Á vínseðlinum var yfirleitt ekki mikið úrval, en samt kom það oftar en ekki fyrir að vínið sem við pöntuðum var ekki til. Það stoppaði þó þjóninn ekki í því að koma með eitthvað allt annað vín, án þess að spyrja okkur um álit. Yfirleitt leystust þó málin í þriðju umferð.
Tvisvar gáfu aðrir gestir okkur köku af sínum veitingum. Stelpa sem var að fermast kom til okkar og bauð okkur sneið og síðasta daginn fengum við bita af súkkulaðiköku frá konu sem átti afmæli og sat á næsta borði með fjölskyldunni. Kannski tókum við undir í afmælissöngnum, ég man það ekki.
Við komumst í ágætar verslunarmiðstöðvar og mér tókst að finna þær snúrur sem mig vantaði í rafmagnstækin. Mér sýndist bókabúð sem ég fór í líka vera ágæt, en hafði vit á að kaupa ekki neitt.
Stefán var ákveðinn í því að við yrðum að fara í boda boda ferð. Hann hafði fundið Walter, náunga sem rekur fyrirtæki sem býður upp á slíkar ferðir. Á skilti í verslunarmiðstöðinni sá ég skilti sem skilgreinir boda boda sem „hraðan en áhættusaman ferðamáta. Hraðvirkasta aðferðin til þess að komast milli A og B, ef þú kemst alla leið.“
Walter hafði upprunalega byrjað að bjóða upp á svona ferðir vegna þess að hann hafði áhuga á því að sofa hjá feitum, ljóshærðum, sænskum stelpum. Aðferðin virkaði fullkomlega, en W. fékk ekki bara þennan draum uppfylltan heldur fann hann að hann var fljótlega kominn með fullar hendur fjár. Áhugamálið var sem sagt að ábatasamri viðskiptahugmynd.
Þessi áhugi á feitum konum er alls ekki einsdæmi meðal innfæddra. Fyrstu ensku landkönnuðirnir sem komust til Úganda kynntust því að einn kóngurinn hafði sérstakt kvennabúr fyrir konur sem voru svo feitar að þær gátu ekki gengið heldur urðu að skríða um gólfið eins og selir. Þær nærðust eingöngu á mjólk sem þær drukku í gegnum rör. Landkönnuðurinn Speke, sem uppgötvaði að upptök Nílar má meðal annars finna í Viktoríuvatni, mældi ummál einnar slíkrar af vísindalegri nákvæmni. Hún var 88 sentimetrar um lærið og brjóstmálið 132 sentimetrar. Ég veit ekki hvort sænsku stúlkurnar voru svona myndarlegar.
Þetta var eini hluti ferðarinnar sem ég kveið. Við höfðum séð hvernig mótórhjólin smugu milli bíla og það var eins og hulinn verndarkraftur ylli því að við höfðum ekki orðið vitni að óhappi. Stefán sagði okkur að tveir misstu lífið á dag í boda boda slysum, en það sagði hann okkur ekki fyrr en eftir túrinn. Sú vitneskja hefði valdið andvökunótt.
Þó að margbúið væri að árétta að við þyrftum fjögur hjól mætti bara einn á staðinn. Hann var þó með grænan aukahjálm sem á stóð: „I‘m a real man, I don‘t beat my wife.“ Þetta er auðvitað frábær lífsskoðun og eflaust afburða pikköpp-lína. Eftir hringingar komu fljótlega þrír aðrir, eins útbúnir.
Við héldum af stað og ég sá að ferðafélagar mínir héldu krampakenndu taki í álboga aftast á hjólinu. Ég þreifaði aftur á bak og fann mér til skelfingar að engan boga var að finna á mínu hjóli. Þess vegna átti ég einskis annars úrkosti en að grípa utan um ökumanninn miðjan. Hann lét sér það vel líka.
Fljótlega var hjólið með Ingibjörgu horfið og ökumaður minn sagði eitthvað. Ég náði ekki nákvæmum orðaskilum, en eitthvað á þá leið að vonandi saknaði ég ekki vina minna.
„Í hverju er ég nú lentur?“ hugsaði ég. Nú voru góð ráð dýr. Ég byrjaði að segja frá því hve merkilegt fólk við værum. Við værum nánir vinir íslenska sendiherrans, sjálfur væri ég fjármálaráðherra (að vísu ósatt, en þetta var spurning um að bjarga sér úr mannráni) og ferðafélagarnir allir virtir sérfræðingar, hver á sínu sviði. Hvað sem hann kann að hafa meint, þá kom Ingibjörg fljótlega aftur í leitirnar og eftir þetta héldum við hópinn.
Við fórum á nokkra merkilega staði af ýmsu tagi. Á einni hæðinni var hof Baháa og þeirri næstu var Gadafi moskan, sem hinn geðþekki, líbíski einræðisherra hafði gefið, nokkrum árum áður en hann dó. Þar voru Vigdís og Ingibjörg vafðar í dúka til þess að hvorki sæist í handlegg, fótlegg eða hár. Við Smári máttum aftur á móti skarta okkar fögru lokkum í moskunni. Hún tekur 35 þúsund manns, en meðan við vorum þar var lengst af enginn nema við og leiðsögukonan. Hún taldi að guð gæti alveg tekið upp á því að við félagarnir yrðum æðstu prestar. „Hvað veit maður um vilja guðs?“
Svo skýrði hún hvers vegna konur mættu ekki að biðjast fyrir með körlunum. Það væri nú ekki gott ef kona í mínipilsi væri á hnjánum fyrir framan einhverja karla. Þeir gætu tekið upp á því að biðja hana um símanúmerið hennar. Ekkert okkar benti á að mínipils væru bönnuð í moskunni – við erum svo kurteis.
Höll Idis Amins var lokuð, en pyntingarklefarnir opnir. Þar voru þúsundir andstæðinga hans pyntaðir og drepnir. Búrin yfirfyllt, en framan við þau var vatn á ganginum sem þeir þurftu að vaða. Þegar menn voru komnir út í var rafstraumi hleypt á. Þeir sem komu inn á Hótel Idi Amin fóru aldrei lifandi út aftur. Vörubílar hirtu líkin og hentu þeim út í Níl að sagt er.
Geymslan minnti mig á KGB-söfn sem ég hef séð í nokkrum löndum. Á myndum vekur Amin hugrenningatengsl við tvo stjórnmálamenn sem gjarnt er að mikla afrek sín. Ég læt lesendum eftir að giska á hverjir þeir eru. Þeir eru ekki fjöldamorðingjar.
Smám saman óx mér ásmegin á hjólinu og ég var farinn að taka myndir á símann minn með annarri hendi. Að vísu voru margar myndirnar af hjálmi og hálsi ökumannsins, þannig að ég varð að sleppa báðum höndum til þess að stýra myndatökunni betur. Vigdís sagði að henni hefði ekkert litist á, en satt að segja held ég að henni hafi þótt ég mjög töff á hjólinu, að minnsta kosti mun flottari en þegar ég greip skelfingu lostinn utan um ökumanninn.
Ferðin endaði á fiskmarkaðinum við Viktoríuvatnið. Þar var boðið upp á Rolex, ekki úrin heldur vefju með grænmetisfyllingu ágætan mat, og tilapíu, fisk sem veiðist í vatninu. Við kvöddum ökuþórana og borguðum það sem upp var sett að viðbættu þjórfé.
Þar enduðu viðskipti okkar við þá. Ég andaði léttar.