Um Benedikt

Á þessum síðum eru greinar, þankar, pistlar, sögur, frásagnir og annað sem ég hef skrifað í gegnum tíðina. Sumt af því sem ég skrifaði áður er ekki það sem ég myndi skrifa núna. Stundum er mér fúlasta alvara, stundum er ég kaldhæðinn, stundum dómharður. Vel þó þá leið að ritskoða mig ekki, þó að ég sé ósammála sjálfum mér núna. Þannig skrifaði ég þá. Leiðrétti óhikað stafsetningarvillur, ambögur og rangfærslur en annað ekki.


Það er hægt að segja sitthvað um mig og stundum hugsa ég um það þegar Reynir frændi minn sagði frá því að hann hafði lagað eitthvað fyrir kunningja sinn á Norðfirði. Mig minnir það hafi verið presturinn, en það er ekki víst. Hver sem maðurinn nú var hefur hann orð á því að viðgerðin hafi tekist vel. Reynir segir þá: Já, ég er oft laghentur. Presturinn svarar þá um hæl: Einmitt. Hrósaðu þér sjálfur vinur, það er ekki víst að það verði aðrir til þess.

Í baráttunni síðastliðið haust (2017) tókst mér samt að fá kosningastjórann til þess að pína nokkra til þess að setja nokkur orð á blað um mig.

Stundum held ég að Siggi bróðir hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði að ég væri ósanngjarn í garð starfsfólk, vegna þess að ég gerði sömu kröfur til þeírra og sjálfs mín.


Hér er stubbur sem ég setti saman fyrir Alþingi. Þau sögðu að ég mætti ráða hversu langt það væri. Ég hafði það stutt.

Fæddur í Reykjavík 4. maí 1955. Foreldrar: Jóhannes Zoëga (fæddur 14. ágúst 1917, dáinn 21. september 2004) hitaveitustjóri í Reykjavík og Guðrún Benediktsdóttir (fædd 10. október 1919, dáin 15. desember 1996) húsfreyja, dóttir Benedikts Sveinssonar alþingismanns. Maki: Vigdís Jónsdóttir (fædd 11. mars 1955) aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis. Foreldrar: Jón I. Bjarnason (fæddur 8. júní 1921, dáinn 10. febrúar 1983) ritstjóri og Guðbjörg Lilja Maríusdóttir (fædd 19. febrúar 1929) ritari. Börn: Steinunn (1978), Jóhannes (1980), Jón (1988).

Stúdentspróf MR 1975. B.Sc.-próf í stærðfræði með hagfræði sem aukagrein frá University of Wisconsin 1977. MS-próf í tölfræði frá Florida State University 1979. Doktorspróf í tölfræði sem aðalgrein og stærðfræði sem aukagrein frá Florida State University 1981.

Kennsla við Verslunarskóla Íslands 1982–1986. Stundakennari við Háskóla Íslands 1982-88 og Háskólann á Akureyri 1991-3.

Stofnaði árið 1984 ráðgjafarfyrirtækið Talnakönnun og stýrði því til 2016. Framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Heims 2000–2016. Ritstjóri Skýja 2005–2016 og Vísbendingar 2006–2016. Hefur setið í og gegnt formennsku í allmörgum stjórnum fyrirtækja, nefndum og ráðum. Fjármála- og efnahagsráðherra 11. janúar til 30. nóvember 2017.

Formaður Viðreisnar frá stofnun vorið 2016 til hausts 2017.

Alþingismaður Norðausturkjördæmis 2016–2017 (Viðreisn).

Fjármála- og efnahagsráðherra 2017.

Efnahags- og viðskiptanefnd 2016–2017 (formaður).


Félagsstarf

Hefur starfað að ýmsu félagsstarfi í stærðfræði og kennslu, m.a. sem formaður félags raungreinakennara 1983-1985 og setu í stjórnum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga, Íslenska stærðfræðafélagsins og Aðgerðarannsóknarfélagi Íslands. Störf við landskeppni og alþjóðlega keppni í stærðfræði, bæði Ólympíuleika og Eystrasaltskeppni. Formaður Íslenska stærðfræðafélagsins 1999-2001. Formaður Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga 2002-2005. Í stjórn Verslunarráðs 2002-2006.

Deildarstjóri tjónadeildar Sjóvá-Almennra frá stofnun árið 1989 til nóv. 1990

Í Tryggingaráði 1991-2003, varaformaður 1995-2003, formaður stjórnar Tryggingastofnunar 2007-8 og Sjúkratrygginga Íslands 2008-2010,  formaður stjórnar Skipaútgerðar ríkisins 1991 til loka fyrirtækisins 1992, í stjórn Framkvæmdasjóðs frá 1991 til loka sjóðsins 1992, í stjórn Nýherja frá 1995, formaður frá 1996-2016, í stjórn Skeljungs frá 1998-2004, formaður 1999-2003, í stjórn Myllunnar 1996-2004, formaður 1997-2004, í stjórn ÚA 1997-2003, í stjórn Eimskips 2000-2003, formaður 2003, í stjórn Burðaráss 2002-2003, formaður 2003, formaður Hans Petersen 2000-2003, í stjórn Sjóvá-Almennra trygginga 2004-2007, formaður stjórnar VÍS 2012-2013, í stjórn Íslensku óperunnar 2006- 2015, formaður 2015. Formaður Hollvinafélags Menntaskólans í Reykjavík 2013-2017.