BENEDIKT Jóhannesson varði 20. nóvember sl. doktorsritgerð við ríkisháskólann í Florida, þar sem hann stundaði framhaldsnám í tölfræði og stærðfræði 1978-81. Nefnist doktorsritgerðin „Lausnir á bestunardæmum í samfelldum tíma“ (Solutions to Continuous Time Programming Problems).
Benedikt er sonur Guðrúnar Benediktsdóttur og Jóhannesar Zoega, fæddur 1955, stúdent 1975 frá stærðfræðideild Menntaskólans í Reykjavík. Lauk haustið 1977 BS-gráðu frá háskólanum í Wisconsin með stærðfræði sem aðalgrein og hagfræði sem aukagrein. Hann er kvæntur Vigdísi Jónsdóttur, MA í sögu og skjalafræði, og eiga þau tvö börn, Steinunni og Jóhannes.
Doktorsritgerð Benedikts fjallar um ákveðna tegund dæma, sem meðal annars koma fyrir í hagfræði, verkfræði og víðar, þar sem gera þarf áætlanir til langs eða skamms tíma. Markmiðið með þessum líkönum er að fá sem mesta hagsæld, hagkvæmasta orkuvinnslu og svo framvegis, eftir því við hvað er fengizt. Gengið er útfrá því, að hráefnisbirgðir geti breytzt stöðugt, til dæmis árstíðabundið. Einnig er gert ráð fyrir því að framleiðsla í framtíð- inni byggist á því hve mikið hefur verið framleitt áður.
Í ritgerðinni er fyrst fjallað um ýmsa fræðilega eiginleika línulegra dæma. Meðal annars er í fyrsta sinn fundin fræðileg lausn slíkra dæma. Næst er kynnt ný aðferð til þess að finna slíkar lausnir og fjallað um ýmsa eiginleika þessarar aðferðar. Jafnframt eru nokkur dæmi leyst með því að beita aðferðinni með aðstoð tölva. Loks er fjallað um ólínuleg dæmi og sýnt fram á að svonefnd refsifallsaðferð (penalty function method) leiði til réttrar lausnar.
Birtist í Morgunblaðinu 19.12. 1981 undir heitinu Doktorsritgerð um fræðilega lausn línudæma. Blaðamaðurinn hafði samband við mig meðan við vorum heima í jólafríi og skrifaði frétt upp úr því samtali. Ég fékk uppkast að fréttinni og skrifaði hana alla upp aftur. Las hana svo ekki fyrr en löngu seinna og sá að fyrirsögnin var brengluð. Framhaldsnámið í Mogganum var líka bara sagt vera árið 1979, en þá kláraði ég masterspróf. Annars var þetta bara nokkuð rétt.