Þegar fundum okkar Jóns I. Bjarnasonar bar fyrst saman, er ég ekki viss um að okkur hafi litizt nema í meðallagi vel hvorum á annan. Ég var stráksláni með hár niður á herðar, en hann miðaldra maður, ákaflega svipmikill, með miklar augabrúnir og dökkt, úfið hár, sem byrjað var að grána. En eftir því sem ég kynntist Jóni tengdaföður mínum betur, jókst álit mitt og virðing fyrir honum. Sjálfur átti Jón stærstan þátt í að efla þau kynni og vináttu. Mér þótti ákaflega vænt um þegar hann hélt ræðu fyrir minni okkar Vigdísar í brúðkaupi okkar og er því við hæfi, að ég minnist hans nú lítillega.
Jón var mikill ferðamaður og mér er minnisstætt úr Þórsmerkurför með honum, hve fróður hann var um alla staðhætti og óþreytandi að segja frá sögu og náttúru landsins. Reyndar naut hann sín sjaldan betur en þegar hann var að segja frá eða skrifa um landið, og muna margir blaðagreinar Jóns og þætti í útvarpi og sjónvarpi.
Allt frá því að ferðafélagið Útivist var stofnað árið 1975 var Jón ein helzta driffjöður í starfi félagsins. Flestar helgar var hann í ferðum, oftast sem fararstjóri, en kvöldin fóru í margvíslegt undirbúningsstarf. Jón var öðrum óreyndari fararstjórum einnig innan handar, leiðbeinandi þeim um gönguleiðir, hvar væri bezt að tjalda og annað sem huga þurfti að. Allur glannaskapur í ferðum var honum fjarri skapi og kom jafnvel fyrir að menn skrifuðu í blöð til þess að þakka honum farsæla fararstjórn.
En Jón tók ekki þótt í ferðamálum til þess að hljóta hrós, þótt auðvitað þætti honum lofið gott eins og öðrum, heldur af brennandi áhuga. Ekki er að efa að stofnun og starf Útivistar hefur orðið til þess að efla mjög félagslíf innlendra ferðafélaga almennt. Árið 1981 stóð félagið hins vegar mjög illa fjárhagslega, en með nýju átaki Jóns og fleira góðs fólks tókst að rétta úr kútnum þannig að félagið er nú blómlegra en nokkru sinni fyrr. Jón sá ásamt öðrum um útgáfu ársrits félagsins frá upphafi. Átti hann mestan vanda af ársriti 1981 sem er nýútkomið, afar vandað að venju.
Hér verður ekki fjallað um önnur störf Jóns enda þekkti ég þau miklu minna, en ferðamálin voru honum slíkt áhugamál að hans verður ekki minnst án þess að fjalla um þau. Í síðasta sinn sem ég sá Jón, var hann að leggja á ráðin um ferð með einum félaga sínum úr Útivist.
Þegar ég kom fyrst á heimili þeirra Jóns og Lilju bjuggu þar heima sex börn þeirra hjóna og Jóna móðir Jóns. Eins og nærri má geta var oft handagangur í öskjunni, en Lilja var alltaf einstaklega lagin að hvetja börnin þegar eitthvað bjátaði á og leika við þau og spjalla þegar fjörið var sem mest. Og Jóna amma lét ekki sitt eftir liggja í uppeldinu, spilaði, sagði sögur og söng Gilsbakkaþulu.
Það var mér alltaf mikil ánægja að koma inn á heimilið á Langholtsvegi á þessum árum og hygg ég að leitun sé á lífsglaðari förunaut og móður en Lilju. Jón var sjálfur ekki sérstök barnagæla, en það kom oft fram hve vænt honum þótti um konu sína, börnin og barnabörnin og hann var hreykinn af velgengni þeirra. Börnin eru nú öll komin á legg og bera góðu upplagi fagurt vitni. Á kynni mín af heimilisfólkinu á Langholtsvegi 131 hefur enginn skuggi fallið og tel ég það vera mikið happ mitt að hafa tengzt þeim Jóni og Lilju fjölskylduböndum.