Þegar orðin nema staðar – Minningar um Hjalta Þór Ísleifsson stærðfræðing

Framundan er margt.

Margt framundan sem bíður!

         (Hannes Pétursson)

Ævinni hefur verið líkt við kerti. Flest eru venjuleg, brenna hægt og dauft, litlaus og skera sig ekki úr fjöldanum. Önnur eru litrík og glæsileg, gnæfa yfir hin, lýsa skært. Við væntum þess að þau varpi birtu á allt um kring um langa hríð. Samt slökkna sum þeirra við eina vindkviðu, andvara sem fær logana á hinum kertunum ekki einu sinni til þess að flökta.

Hjalti Þór Ísleifsson var óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós. Mín fyrstu kynni af honum voru að hann skrifaði athugasemd við eitthvað sem ég hafði skrifað á FB. Hann var ekki mjög hrifinn af boðskapnum og spurði beittra spurninga. Þá var hann frjálshyggjumaður sem taldi nauðsynlegt að rétta kúrsinn hjá þessum miðaldra manni sem var greinilega á villigötum, allt of langt til vinstri!

Athugasemdir Hjalta voru ólíkar því sem nöldurseggir setja fram á netinu, niðurrif án nokkurra raka. Þvert á móti skynsamleg og skiljanleg gagnrýni. Þess vegna svaraði ég honum og reyndi að færa rök fyrir mínu máli. Kannaði svo hver hann væri, þessi hvassi gagnrýnandi. Þetta var þá ungur piltur, 17 eða 18 ára gamall. Annað vissi ég ekki um hann að sinni, en hugsaði maður ætti eftir að heyra meira af honum þessum.

Svo rak ég augun í nafnið hans í fremstu röð í stærðfræðikeppni framhaldsskólanna. Þetta var greinilega skarpur náungi.

Nokkru síðar var ég staddur með fleira fólki úti að borða á veitingastað þegar síminn hringdi. Númerið þekkti ég ekki, en sá sem hringdi kynnti sem keppanda í ólympíuliði Íslands í stærðfræði, Hjalta Þór. Ég botnaði þá: Hjalti Þór Ísleifsson. Þó honum kæmi á óvart að ég þekkti hann, sló það hann ekki út af laginu. Erindið var að ólympíufarana fýsti að fara í æfingabúðir í Danmörku eins og aðrar Norðurlandaþjóðir höfðu gert í allmörg ár. Til þess vantaði einhverja fjárhæð. Málið fékk skjótan og farsælan endi, liðið komst í þjálfunarbúðir og stóð sig með sóma í keppninni.

Nú urðu samskiptin meiri við Hjalta. Hann sendi mér ábendingar um góðan árangur MR-inga í Norðurlandakeppninni í stærðfræði til þess að miðla fréttinni áfram á vef Hollvinafélags Menntaskólans. Hann var líka orðinn jákvæðari í athugasemdum við FB-færslurnar mínar, en samt var það með hálfum huga að ég sendi honum línu um það hvort hann kæmi ekki á undirbúningsfund undir stofnun Viðreisnar. Svarið kom um hæl: „Jú ég hafði hugsað mér það.“ Þetta gladdi mig mikið. Einmitt svona fólk þurftum við í hópinn. Rökvisst og gagnrýnið. Hjalti Þór tók þátt í starfi flokksins næstu árin, en var auðvitað á sama tíma í krefjandi námi í stærðfræði við Háskóla Íslands. Mér þótti vænt um það að hann studdi mig ætíð til góðra verka. Hann var gegnheill í því sem öðru.

Úr stærðfræðideild Háskólans bárust fréttir af ofurnemanda sem tók tíu í hverju faginu á fætur öðru. Eina sönnun þess að hann væri ekki vélmenni var að hann fékk bara 9,98 í aðaleinkunn og tók þó miklu fleiri námskeið en hann þurfti!

Hjalti Þór fór til Sviss til þess að ljúka doktorsnámi. Enginn efaðist um að það verkefni myndi hann leysa með sóma. Mér fannst gaman að sjá færslur hans á FB þar sem hann virtist njóta þess að vera í paradís útivistarfólks. Við skiptumst á póstum um eitthvað smálegt.

Það styttist í heimkomu Hjalta Þórs Ísleifssonar og ég var viss um að hann myndi vinna margvísleg afrek. Ekki bara innan stærðfræðinnar heldur myndi hann líka leggja gott til samfélagsins, með framlögum til vitrænnar umræðu og sem foringi á því sviði sem hann legði fyrir sig.

Hann minntist Sigurðar Helgasonar á FB nú í byrjun desember, þess stærðfræðings sem borið hefur hróður Íslands víðast. Í fyllingu tímans tel ég að Hjalti Þór hefði getað komist í sömu deild og Sigurður, hefði hann kosið þá braut.

Í morgun sastu hér

undir meiði sólarinnar

og hlustaðir á fuglana

hátt uppí geislunum

minn gamli vinur

en veizt nú, í kvöld

hvernig vegirnir enda

hvernig orðin nema staðar

og stjörnurnar slökkna.

         (Hannes Pétursson)

Um miðjan desember ákvað Hjalti að nú ætti hans vegur að enda, orðin að nema staðar, stjörnurnar að slokkna. Jafnvel hinn ofurgreindi og rökvísi öðlingur fylltist ranghugmyndum um eigið fánýti. Svartnætti þunglyndis helltist yfir hann og endaði með skelfingu. Sá vágestur spyr ekki um greindarvísitölu eða glæstar vonir.

Nú er ekkert framundan

nema firnindi þagnarinnar.

        (Hannes Pétursson)


Móðir Hjalta Þórs Ísleifssonar hefur ákveðið að stofna minningarsjóð í nafni hans til stuðnings efnaminni stærðfræðinemum. Búið er að stofna reikning sem verður stofnframlag sjóðsins: 0123-15-140959, kt. 141173-4809.

Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

Boðið er upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir 18 ára og eldri. Samtökin opnuðu þjónustu sína vorið 2018 og eru með starfsemina að Amtmannsstíg 5a í Reykjavík. Píetasíminn 552 2218 er opinn allan sólarhringinn. Þau benda einnig á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.