Fyndni, öl, dramm og drykkjuskapur

Siggi Baldurs var sérstæður fír, náfrændi mömmu, mikill kommi og allt of oft við skál. Hann var mér sannarlega ekki í huga á jóladagsmorgni, en svo fór að ég eyddi hálfum deginum í félagsskap hans.

Stundum fæ ég bækur sem ég vissi ekki að væru til. Líklega les ég þær sjaldnast, kíki varla á titilsíðuna og þær fara í stafla á náttborðinu, svo í gluggakistuna og loks reyni ég að koma þeim fyrir í einhverjum bókaskápnum, í hillu sem er varla sýnileg. Svo fara þær út í bílskúr og enda í bláu tunnunni ef ég einhvern tíma tek til. Aldrei skoða ég þær frekar og finnst þær vondar, rétt eins og egg og ostur, sem mér fannst versti matur þangað til ég smakkaði þetta lostæti.

Hefði ég séð bók sem héti Livet är härligt í bókabúð hefði hún nánast örugglega farið fram hjá mér. Ekki síst ef á forsíðunni væri lítil ljósmynd úr fjölskylduboði, mynd af einhverju fólki sem ég kannaðist ekki við. Þegar ég fékk svo einmitt þessa bók í umslagi með jólakortunum vaknaði hjá mér forvitni. Á titilsíðu var meira að segja áritun: „Bensa frænda með góðum jólakveðjum. Gísli og Baldur.“

Mér þykir alltaf vænt um góðar kveðjur og skoðaði gripinn betur. Á forsíðu stóð nafn höfundarins: Gísli Sigurðsson. Svo Livet är härligt. Undirtitill SiggiBald 101. Myndin sem ég áttaði mig ekkert á reyndist vera vangamynd af Sigga Baldurs í einhverju samkvæmi að sýna ungri konu handalistir sem hann lék oft. Ég kem öðru fólki á myndinni ekki fyrir mig. Neðst stendur svo: Reykjavík 2024 – Forlag hússins.

Mér finnst gaman að lesa bækur áður en þær koma út, las til dæmis ævisögu Sveins Ben, móðurbróður míns, í handriti í haust. En þessi litla bók var ekki í handriti, hefur líklega fæðst fyrir tímann. Mig grunar samt að upplag sé ekki mjög stórt. Ég fór strax að lesa.

Sigurður Baldursson var sonur Baldurs Sveinssonar ritstjóra Vísis, afabróður míns, og Marenar Ragnheiðar Friðrikku Pétursdóttur, ömmusystur minnar. Baldur dó árið 1932, 49 ára gamall, frá þremur börnum. Tvær stúlkur höfðu þau Maren misst, sem hefur auðvitað sett á þau mark. Marenu man ég vel eftir, hún kom oft heim og einu sinni heimsótti ég hana í Karfavoginn, einn og sér. Hún var alltaf ósköp vinaleg, en ég man ekki eftir því að hún væri sérstaklega glaðleg, sem Ólafía systir hennar var oft, þó að hún ætti margar hliðar. Á ljósmyndinni sem ég man eftir af Baldri er hann svolítið dapurlegur á svipinn.

Börnin þeirra þrjú sem lifðu kunnu aftur á móti öll að skemmta sér. Baldur var blaðamaður á Morgunblaðinu og hann mun hafa fundið gælunafnið Mogginn, sem mér fannst skemmtilegt að segja þeim afkomendum hans sem hneigðust til vinstri.

Heima hjá mér var alltaf talað um Sigga Baldurs og systkini hans Rönku Baldurs og Kristin Baldurs. Aðrir kölluðu hann víst Sigga Bald. Sigurður Baldursson var lögfræðingur, en annað setti svip sinn á hans líf, þótt lögmennskan kæmi vissulega við sögu, en nánast í aukahlutverki.

Sigurður kom oft heim í Laugarásinn þegar ég var strákur. Alltaf við skál. Ég veit ekki hvaða siður það var, en þeir komu stundum, þrír frændur mömmu, hver í sínu lagi: Siggi, Jóhann Friðriksson og Barði bróðir hans. Alltaf fullir. Aldrei sá ég vín á mömmu, en hún tók þessum frændum sínum vel og fann einhverja lögg handa þeim. Mig minnir að þeir hafi yfirleitt komið frekar snemma, um fjögurleytið eða svo, svo pabbi var ekki kominn heim, en hann hefur eflaust sest með þeim þegar hann kom. Þeir fóru líka fyrir kvöldmat, þannig að af þeim var ekki sérstök áþján.

Foreldrar mínir og flestir þeirra ættingjar voru mikið Sjálfstæðisfólk. Siggi var aftur á móti mikill kommi eins og Ragnar frændi þeirra Ólafsson, sem ég þekkti aldrei, en stundum var talað um. Mömmu og Ólöfu frænku þótti vænt um Sigga, en samt var næstum eins og þær vorkenndu honum. Hann var skemmtilegur og eins náinn frændi og hugsast gat án þess að vera bróðir, en … kommi og of mikið fullur. Samt var hann reglumaður að því leyti að hann drakk aldrei eftir kvöldmat og mætti alltaf í jakkafötum, með bindi og gullúrið í vestinu í vinnuna fyrir níu að morgni. Missti aldrei úr dag.

Systkin Sigga, Ragnheiður og Kristinn Baldurs voru miklu nánari vinir þeirra; Ranka 10 dögum yngri en tvíburarnir, mamma og Ólöf, samstúdent og vinkona þeirra til dauðadags. Afar skemmtileg kona. Kristinn var léttur og kátur og líka Sjálfstæðismaður og því í góðu lagi.

Einu sinni kom Siggi á ball að mig minnir, við annan mann og hitti Ólöfu, móðursystur mína. Hann kynnir manninn og segir að hann sé Austur-Þjóðverji. Svarar þá Ólöf snúðug: „Ég tala ekki austur-þýsku.“ Sigurður sneri þá á frænku sína og sagði: „Það er allt í lagi, hann talar íslensku.“ Bætti svo við: „Hann lærði hana af Bruno Kress, sem kenndi þér þýsku.“ Ólöf varð að kvikindi, en sagði nú samt söguna síðar.

Þegar haldið var upp á 100 ára afmæli Benedikts afa heima í Laugarásnum var raðað í herbergi. Ég var ekki á landinu, en mér var sagt að þau sem hefðu verið með Sigga Baldurs hefðu kviðið því mikið. En það reyndist ástæðulaus ótti. Hann lék við hvern sinn fingur og var firna skemmtilegur.

Eftir að ég kom heim úr námi mætti ég Sigga einu sinni á Klapparstígnum, en þar mun hann hafa haft skrifstofu. Ég heilsaði honum og sagði á mér deili því hann þekkti mig greinilega ekki. Hann kinkaði kolli og sagði að ég væri líkur mömmu.

Eftir það þekkti Sigurður mig þegar við hittumst. Ég man eftir því að hafa hitt hann nítján hundruð níutíu og eitthvað framan við Happdrætti Háskólans. Líklega hef ég skultað honum eitthvað, því ég man að hann átti erfitt með að setjast í bílinn og sagðist vera orðinn lélegur til heilsu. Lífernið hefði hefnt sín.

Síðast hitti ég Sigga í húsnæði SÍBS. Mér hafði verið boðið í móttöku sem haldin var í tilefni af einhverju afmæli hreyfingarinnar, en hann var mættur í endurhæfingu, hafði orðið fyrir áföllum og átti erfitt með gang. Við sátum saman og ég sótti fyrir hann kökur og kaffi. Það fór vel á með okkur, en hann sagði þó ekki margt.

Jarðarför Sigurðar var sérstök. Guðmundur Andri Thorsson talaði um hinn látna, en hann var nágranni þeirra á Karfavogi og æskuvinur Gísla. Óvenjulegt, en þó ekki í eina sinn sem óvígður maður talaði í jarðarför. Svo var sungið Allt eins og blómstrið eina, fjölmörg erindi. Öll þau sem ekki töluðu um Jesú sagði Siggi bróðir minn mér seinna.

Menn vaða’ í villu og svíma,

veit enginn neitt um það

hvernig, á hverjum tíma

eða hvar hann kemur að.

Einn vegur öllum greiðir

inngang í heimsins rann,

margbreyttar líst mér leiðir

liggi þó út þaðan.

Útgöngumarsinn var svo Internasjónalinn. Ég ímynda mér að það hafi verið eftir forsögn Sigga, sem hefur hugsað með sér að það væri gott á íhaldsfrændfólkið að þramma út undir Nallanum. Ég spurði Ólöfu frænku hvernig henni hefði liðið að marsera við þjóðsöng kommanna, en hún svaraði, glöð í bragði: „Ég sat svo aftarlega að lagið var búið þegar ég komst af stað.“

Jarðarförin var svo löng að ég varð strax að fara annað, því ég átti eitthvað erindi, sem ég man auðvitað ekki lengur, en man erfidrykkjuna sem ég komst ekki í.

Bókin kallaði fram þessa þanka um Sigga Baldurs, en þegar ég las hana sá ég að hann hafði verið jafnmikill drykkjumaður og mig minnti og enn meiri kommi en ég vissi. Var meðal annars fulltrúi Norður-Kóreu hér á landi um skeið og hreykti sér af því að hafa ekki farið af trúnni þegar Sovétmenn bældu niður uppreisnina í Ungverjalandi og réðust inn í Tékkóslóvakíu.

Ritið er skemmtilegt aflestrar, að minnsta kosti fyrir þá sem til Sigga þekkja. Áfengið flýtur um síður, einkum seinni hlutann. Einu sinni varð Marenu að orði þegar henni ofbuðu drykkjusögurnar: „Skárra er það, eintóm fyndni, öl, dramm og drykkjuskapur.“

Gísli hefur eftir pabba sínum að afi, Benedikt Sveinsson, hafi sagt við Sigga árið 1949, að ef hann væri nú ungur maður myndi hann verða kommúnisti. Það held ég að sé útilokað að afi hafi sagt, en hann hefur kannski haft einhverja samúð með þjóðernisstefnunni sem sósíalistar ráku, gagnstætt við pabba, sem sagði að það eina sem hann hefði hrifist af í kommúnismanum á fjórða áratugnum hafði verið alþjóðahyggjan. „Enda sögðu þeir fljótt skilið við hana“, sagði pabbi.

Gísli segir svo frá að pabbi hans hafi löngum verið ergilegur út í Ólafíu, móðursystur sína. En í eitt skipti voru þau kannski sammála um tíma. Þegar Ísland gekk í NATÓ árið 1949, réðust andstæðingar bandalagsins að Alþingishúsinu og brutu rúður. Slegist var á Austurvelli og lögreglumenn dreifðu mótmælendum með kylfur á lofti og vörpuðu táragasi. Austurvöllur var eins og vígvöllur og glerbrotum rigndi um þingsalinn. Að þingfundi loknum er sagt að Bjarni Ben. sem var utanríkisráðherra hafi sagt: „Nú er eftir það sem erfiðara er, að sannfæra Ólafíu móðursystur.“

Mamma hélt að Siggi hefði snúist til kommúnisma, þegar hann hefði orðið undir í kosningu í Heimdalli um tvítugt. Þá sögu hef ég ekki fengið staðfesta, og fæ líklega aldrei, en í bók Gísla kemur fram að þar sótti hann fundi með Bjarna frænda sínum. Annars var það kannski ekki skrítið þótt ungt fólk með stórt hjarta hrifist af sósíalisma og samhjálp, en þegar grimmdarverk Leníns og Stalíns spurðust út hefðu skynsamir menn átt að snúast, ekki síst þeir sem sáu sósíalismann í raun eins og Siggi gerði, en hann fór margar ferðir austur fyrir járntjald og sá með eigin augum hvernig kjör fólks voru, eða gat að minnsta kosti séð, hefði hann viljað. En Siggi þóttist ekki einu sinni kunna ensku, mál auðvaldsins, nema þegar hann þurfti að tala við vini sína í Norður-Kóreu, þá var hún honum töm á tungu.

Bókin endar á frásögn af samtali Gísla við kínverskan pótintáta sem kom til Íslands. Gísli spurði um sambandið við Norður-Kóreu og sá kínverski svaraði: „Jú, það gengur illa að hjálpa félögunum þar. Við ömumst að sjálfsögðu ekki við því að flokksmenn úthluti sjálfum sér gæðum og forréttinum, en við reynum að útskýra fyrir þeim að þeir verði að leyfa alþýðunni að fá eitthvað líka. Annars hrynji kerfið.“

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.