Maður fann fyrir nærveru hans – Bókin um Svein Ben

Nú fyrir jólin kom út ævisaga Sveins Benediktssonar eftir Steinar J. Lúðvíksson. Sveinn var móðurbróðir minn og þótt á okkur væri 50 ára aldursmunur kynntist ég honum vel. Hann var stór og mikill maður og í honum drundi eins og í mörgum móðurfrændum mínum. Þegar síminn hringdi inni á Laugarásvegi, þegar ég var lítill, var meira og minna sama karlmannsröddin á hinum endanum, hvort sem það var Sveinn, Benedikt, Halldór eða Haraldur sem töluðu. Ég veit ekki hvort þetta voru gen eða yngri frændurnir líktu eftir þeim eldri.

Bókin á sér langa þróunarsögu. Fyrir um þrjátíu árum hóf ungur sagnfræðingur, Guðni Th. Jóhannesson, undirbúning að sögunni og tók viðtal við fjölmarga samtímamenn Sveins, en margir þeirra eru nú löngu látnir. Þessi viðtöl gefa skemmtilega viðbót við aðrar heimildir sem stuðst hefur verið við og sýnir hve mikilvægt er að safna slíkum heimildum meðan fólk er enn á lífi og klárt í kollinum.  

Saga Sveins er að miklu leyti saga atvinnulífsins, einkum síldveiða og vinnslu. Jafnframt blandast inn í saga mikilla pólitískra átaka og stéttabaráttu, miklu hatrammari en við eigum að venjast nú á tímum, þótt mörgum þyki nóg um hörkuna í nútímanum. Ég ætla ekki að skrifa eiginlegan ritdóm, til þess kemur of margt fólk mér náið við sögu, jafnvel ég sjálfur í aukahlutverki. Samt vil ég segja að mér finnst Steinari J. Lúðvíkssyni takast að skapa trúverðuga mynd af Sveini, kostum hans og göllum.

Sveinn var mikill skapmaður og ákafamaður sem ekki sást alltaf fyrir. Jafnvel langrækinn. Samt eru rakin dæmi um að hann hafi orðið ágætur vinur manna sem hann hafði áður skylmst við og hvergi hlíft. Þar má nefna Þórodd Guðmundsson, mikinn komma sem var í stjórn Síldarverksmiðju ríkisins um tíma. Hans verður lengst minnst fyrir setninguna: „Hvað varðar mig um þjóðarhag?“ sem þótti sérkennileg spurning frá sósíalista, en auðvitað var hugsunin sú að stjórnin ætti fyrst og fremst að hugsa um hag fyrirtækisins. Þeir Sveinn urðu samt svo góðir vinir að Þóroddur borðaði oft heima hjá Helgu og Sveini á Miklubrautinni og fór vel á með þeim.

Ítarlega er sagt frá miklum átökum sem urðu á Siglufirði árið 1932. Þetta var í miðri heimskreppunni og reksturinn gekk hörmulega. Fram kom tillaga um að lækka laun verkamanna í síldarverksmiðjunni, en formaður Verkamannafélagsins, Guðmundur Skarphéðinsson, snerist einarðlega gegn henni. Til þess að gera langa sögu stutta þá ákvað Sveinn að skrifa greinar í Morgunblaðið um skattsvik Guðmundar, sem Sveinn taldi sig hafa áreiðanlegar heimildir fyrir. Guðmundi var að sögn þeirra sem hittu hann brugðið við skrifin og daginn sem seinni grein Sveins birtist hvarf Guðmundur og sást ekki í einn og hálfan mánuð. Þá fannst lík hans loks á floti framan við höfnina. Á líkinu fundust tvær þungar blýsökkur sen þær hafði Guðmundur keypt morguninn sem hann hvarf. Í öðrum frakkavasanum var skattframtal hans. Þótti enginn vafi á því að hann hefði fyrirfarið sér.

Alþýðublaðið svaraði Sveini fullum hálsi og Finnur Jónsson skrifaði undir rós: „Svona sögur gætu auðvitað í ýmsum tilfellum orðið spennandi aflestrar, ekki sízt ef teknir yrðu fyrir menn, sem lifað hafa mannsaldur eða meira og komið víða við, eins og t. d. Benedikt faðir Sveins“. Ekkert virðist þó hafa orðið úr þessum hefndarsögum. Mér finnst ólíklegt að hægt hafi verið að finna veikan blett í skattframtali afa míns, sem aldrei átti neina aura til þess að fela, en drykkjusögur eflaust margar.

Þetta var vissulega sorgarsaga, en í tímans rás lagði Sveinn mjög mikið af mörkum til uppbyggingar á Siglufirði, á Raufarhöfn og Seyðisfirði. Þegar ég var á framboðsferð á Raufarhöfn fyrir sjö árum stoppaði kona mig í búð og sagðist kannast við svipinn á mér, hún hefði unnið fyrir Svein Benediktsson sem ung stúlka og ég hlyti að vera frændi hans.

Í bókinni er vitnað í frásögn pabba míns, Jóhannesar Zoega, af síldarsöluferð Sveins, sem síðar varð mágur hans, og Jóhanns Þ. Jósefssonar til Berlínar árið 1939:

„Fulltrúarnir tveir buðu okkur til miðdagsverðar í Kroll-óperunni, sem var glæsilegasti veitingastaður Berlínarborgar. En það kom babb í bátinn. Þjóðverjarnir höfðu þýska vín- og matarsiði í hávegum og skáluðu ótt og títt en Sveinn og Jóhann brögðuðu hins vegar vart áfengi. Þá gat ég, stráklingurinn, sem betur fer komið til bjargar. Ég var ekki bundinn í viðjar bindindisins og gat því lyft glösum með Þjóðverjunum.“ Sveinn og Jóhann spauguðu svo með að þarna hefði Jóhannes bjargað samningunum, því Þjóðverjarnir hefðu örugglega rift þeim ef hann hefði ekki haldið siðvenju þýsku þjóðarinnar í heiðri fyrir hönd bindindismannanna.

Áður en Sveinn hélt heim á leið náði hann að vekja athygli sjálfs Adolfs Hitlers. Svo bar við að um þessar mundir komu þýskir sjálfboðaliðar heim frá borgarastyrjöldinni á Spáni og gengu dag einn fylktu liði fyrir foringjann á Unter den Linden-breiðstrætinu. Hitler stóð í opnum bíl sem fór hægt eftir strætinu og veifaði mannfjöldanum en Sveinn var þar á meðal. Hann hafði síðar lúmskt gaman af að segja frá því að þegar Hitler fór fram hjá sér hafi honum orðið starsýnt á sig, því Sveinn var mjög hávaxinn og gnæfði yfir fólkið í kringum hann. Foringinn horfði svo um öxl þegar bíllinn fjarlægðist.

Einu sinni lét Sveinn þó sitt ekki eftir liggja við áfengisdrykkju. Við þá sögu kom vinur hans Þóroddur kommúnisti Guðmundsson:

Skondin saga segir frá því að þeir Sveinn og Þóroddur hafi þurft að skreppa í erindagjörðum S.R. frá Siglufirði til Raufarhafnar. Þeir fóru í lítilli flugvél sem rétt rúmaði þá og flugmanninn. Þegar þeir voru komnir í háloftin dró Þóroddur fram viskýpela úr pússi sínu, saup á og bauð Sveini, sem afþakkaði boðið eins og við var að búast. Þá rétti Þóroddur flugmanninum pelann og hann fékk sér sopa. Flugu þeir síðan áfram um stund en þá dró Þóroddur aftur upp pelann. Allt fór á sömu lund, Sveinn afþakkaði en flugmaðurinn fékk sér. Áfram hélt vélin og hún var úti fyrir Eyjafirði og jafnvel farin að nálgast Skjálfanda, það fylgir ekki sögunni. Kemur þá að því að Þóroddur býður veigarnar þriðja sinni. Hann rétti pelann að Sveini svona fyrir siða sakir. Nú bar svo við að Sveinn tók pelann og teygaði úr honum í botn! Það var ekki deigur dropi eftir handa flugmanninum, sem lenti flugvélinni allsgáður, eins og Sveinn vildi gulltryggja. „Finnst ykkur ég nokkuð vera öðruvísi en ég á að mér,“ átti Sveinn að hafa sagt brosandi við þá sem tóku á móti þeim félögum á Raufarhöfn.

Margt fleira er skemmtilegt og fróðlegt í bókinni, meðal annars sagan af því þegar Sveinn varð alþingismaður í einn dag, „fyrsti sjálfkjörinn“.

Frágangur er snyrtilegur, myndir margar og letur stórt þannig að bókin er auðveld aflestrar. Ég held að þeir sem hafa áhuga á stjórnmála- og atvinnusögu Íslands á 20. öldinni muni hafa gaman af því að lesa þessa bók sem er afrakstur vinnu þeirra Steinars J. Lúðvíkssonar og Guðna Th.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.