Sagan öll um séra Friðrik?

Við vorum að ræða um það fyrir nokkrum vikum feðgarnir hvort maður eigi að fordæma og sniðganga allt sem tengist einhverjum sem maður veit að er asni. Eru listaverk Picassos léleg af því að hann var vondur við konur? John Lennon sagðist hafa lamið kærustur sínar, sem er eitt það lágkúrulegasta sem hægt er að hugsa sér. Eru lögin hans þá vond? Eru allar gerðir stjórnmálamanns sem skýtur eignum undan skatti ómögulegar? Eigum við að kaupa bíla af mönnum sem sýna af sér fordóma af verstu gerð?

Skömmu eftir þetta spjall kom út bókin um séra Friðrik. Enn vaknar spurningin: Getum við aðskilið manninn og verkin? Hvað er svo ljótt að það verði ekki fyrirgefið?

Þó að ég hafi bæði verið KFUM drengur og sé gegnheill Valsmaður, var séra Friðrik aldrei í dýrlingatölu hjá mínu fólki. Ég var fimm eða sex ára þegar hann dó og man ekki eftir að það hafi vakið sérstakt umtal foreldra minna.

Tómas, afi minn, fékk reyndar Hið nýa [svo] testamenti drottins vors Jesú Krists ásamt með Davíðs sálmum áritað frá sínum einl. vini Fr. Friðrikssyni, 10. ágúst árið 1900, líklega þegar Tómas var á leið austur á land að freista gæfunnar. Líklega hefur afi verið einn af stofnfélögum KFUM, án þess að ég viti það fyrir víst. Þessa bók fékk ég að gjöf frá Reyni föðurbróður mínum árið 2001 og þótti vænt um.

Í KFUM voru sungnir við raust sálmar séra Friðriks, t.d.

Hver er í salnum? Hlusti nú drótt!

Hingað inn kemur frelsarinn skjótt,

opnar mér faðminn, hvíslar svo hljótt:

„Hér er ég, vinur minn!“

Og við tókum allir undir:

Svara, svara: „Vertu velkominn,

vissulega ertu Drottinn minn.

Og þegar við kyrjuðum:

Rís upp með fjöri og stíg á stokk,

og streng þess heit að rjúfa ei flokk

stukkum við á fætur og þá steig ég alltaf á þverspýtu á stólnum fyrir framan, því þannig fannst mér ég stíga á stokk. Ég komst meira að segja upp í unglingadeild og við Arnmundur heitinn, bekkjarbróðir minn, spiluðum borðtennis í kjallaranum við höfuðstöðvunum við Holtaveg, langt fram eftir kvöldi þegar fundum var lokið. Einhvern foringjann grunaði að eitthvað annað en kristilegt hugarfar kynni að búa að baki og fann að þessu. Þá hætti ég að sækja fundi og staðfesti þannig gruninn.

Aldrei varð ég var við að einhver í KFUM beitti örgu pretta táli við mig eða nokkurn annan í hópnum. Einu sinni man ég eftir því að Árni Sigurjónsson, sem var aðalforinginn, spurði hópinn: „Hefur ykkur aldrei dreymt um að ganga í lið með drottni?“ Þessari spurningu átti auðvitað ekki að svara, það sá hver maður nema Sigurður bróðir minn, sex ára gamall, sem gall einlæglega við: Nei!

Ég þverneitaði að taka svona vitleysing með mér aftur á fund.

Eina snertingin sem við urðum fyrir á fundum var að á síðasta fundi fyrir jól var tekið í höndina á öllum og óskað gleðilegra jóla.

Það var líka afskaplega gaman í Vatnaskógi. Þar byrjaði dagurinn á því að við hylltum fánann með útrétta hönd upp frá öxlinni. Enginn sá neitt að því, þó að við vissum örugglega allir um að sú kveðja hefði nýlega verið notuð með öðrum hætti í einu nágrannalandanna. En ekkert káf og engin blíðuhót. Að minnsta kosti ekki á mér, en það útilokar ekki að aðrir hafi orðið fyrir því á öðrum tímum.

Fyrir nokkrum árum var ég beðinn að halda erindi í Vatnaskógi. Í mig hringdi maður og spurði hvort ég væri til í að tala á kvöldfundi hjá fullorðnum KFUM mönnum og svara spurningunni: Höfum við lært eitthvað af Hruninu? Ég svaraði um hæl: „Þú vilt sem sagt mjög stuttan fyrirlestur.“

En erindið flutti ég og spjallaði við þá sem þar voru. Fékk líka að sjá gamla Vatnasal og Skógarsal þar sem við sváfum strákarnir og fór meira að segja inn á herbergi séra Friðriks þar sem enn situr vindlalykt í veggþiljum. – Mér þótti vænt um að koma aftur í skóginn.

En þó engin sérstök tengsl hafi verið milli mín og séra Friðriks verð ég að játa að mér brá við þegar ég heyrði frásögnina úr bók Guðmundar Magnússonar um óviðfelldið þukl guðsmannsins á gamals aldri. Ég hringdi í einn gamlan félaga minn sem vel þekkir til í KFUM enn þann dag í dag og spurði hvort þetta hefði verið á almannavitorði innan samtakanna. Hann kvað nei við.

Í kjölfar Kiljuþáttar þar sem talað var við höfundinn var mikil umræða um bókina, mest þó frá þeim sem höfðu ekki lesið hana. Ég gat auðvitað ekki tekið neina afstöðu til hennar, þar sem umtalið byggði mikið á sögusögnum, tilvitnunum í gamlar frásagnir sem báru merki sinnar tíðar. Ég gat ekki fullyrt að séra Friðrik hefði verið perri vegna þess að hann kyssti stráka á munninn, þó að mér þyki það vissulega ógeðslegt. Svona kysstust karlar og konur fram eftir síðustu öld. Ég var fyrir aldarfjórðungi í afmæli níræðs heiðursmanns sem tók á móti gestum með kossi beint á munninn, en enginn grunaði hann um ónáttúru.

Þó verð ég að segja eitt. Mér finnst það hárrétt hjá Guðmundi Magnússyni að birta frásögn aldraðs manns sem á óskemmtilegar minningar um séra Friðrik. Fyrir nokkrum árum kom út bók um Kristin E. Andrésson, gamlan hugmyndafræðing kommúnista á Ísland, þar sem höfundur leyndi vitneskju sinni um ónáttúru söguhetjunnar. Hið sanna kom þó í ljós, en bókin mun lítið hafa selst, enda óásættanleg og óheiðarleg vinnubrögð.

Bók Guðmundar er vel skrifuð og það leynir sér ekki í frásögninni að séra Friðrik hefur haft einhvern sjarma sem laðaði fólk að honum. Í útfararræðu líkir biskup Íslands honum nánast við helgan mann. Og hann var sannarlega ekki einn um það. Í Valsblaðinu segir Jón Sigurðsson borgarlæknir árið 1968: „Æska landsins lét heillast af afburða gáfum hans og aðlaðandi persónuleika, hans óbilandi kærleika og fórnfýsi, en henni voru engin takmörk sett. Umburðarlyndi hans var við brugðið, hann skildi alla og allt öðrum betur. Hann var mildur og ljúfur og ávallt manna glaðastur.“

Þetta er líka sú mynd sem Guðmundur bregður upp af æskulýðsleiðtoganum. Friðrik stofnaði ekki bara KFUM og K, Val, Hauka og karlakórinn Fóstbræður, hann var framarlega í flokki í KFUM í Danmörku og meðal þeirra sem minnast hans með hlýju eru Poul Hartling, sem um árabil var forsætisráðherra Dana.

Eitt stílbragð notar Guðmundur sem er að velja tvíræðar fyrirsagnir. Nafn bókarinnar Séra Friðrik og drengirnir hans er eitt dæmið. En svo koma kaflarnir einn af öðrum: Morgunroði nýrrar kenndar, Ég þráði hann á hverjum degi, Enginn sem ég ann eins og þér, Jeg er födt homoseksual. Tilgreint er að danskir vinir séra Friðriks í KFUM-starfinu hafi verið barnaníðingar og leiddar að því líkur að hann sjálfur hafi verið hommi. Kaflaheitið hér á undan er reyndar ekki tilvitnun í hann heldur annan mann, en þó að samkynhneigð hafi örugglega á þeim tíma verið talin ónáttúra, þá eigum við að vita nú á tímum að þar er ekkert samasemmerki á milli. Uppbygging bókarinnar virðist að einhverju leyti hugsuð þannig að frásögnin undir lokin staðfesti þær hugrenningar sem áður hafa verið vaktar.

Mér finnst þetta óþarfi. Hvað með það þótt séra Friðrik hafi verið hommi? Hann sjálfur talar að vísu stundum um að hafa hrifist af konum, en aldrei hefur hann tengst neinni þeirra ástarböndum að því að séð verði, utan einu sinni, en það samband var aldrei náið eða jafnvel aldrei gagnkvæm hrifning. Svo er beinlínis rangt að álykta sem svo að barngóður maður hljóti að vera barnaníðingur. Það er heldur hvergi sagt í bókinni að svo sé, en lesanda látið eftir að draga þá ályktun.

Frásögn Guðmundar er annars létt leikandi og hann skrifar lipran texta. Ég hvet alla til þess að lesa bókina, Valsmenn, KFUM drengi á öllum aldri ekki síður en aðra. Guðmundur segir söguna alla, eins og hann kann hana. Eftir að bókin kom út hafa fleiri sögur um séra Friðrik komið fram, bæði um einlæga vinsemd hans við drengi og óviðfelldin og óviðeigandi blíðuhót og þukl.

Bók Guðmundar er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og það er maklegt. Í umsögn dómnefndar segir: „Yfirgripsmikil bók sem byggir á ítarlegri rannsóknarvinnu og skoðun á viðamiklum skjala og bréfasöfnum. Höfundur lætur heimildirnar tala sínu máli og lætur lesanda eftir að draga ályktanir.“ Rétt að hluta, en ég held að bókin væri sterkari ef höfundur hefði ekki reynt að stýra þeim ályktunum jafnmikið og raun ber vitni. Ég held að niðurstaða flestra hefði verið sú sama án þessarar leiðsagnar.

Í Nýja testamentinu sem séra Friðrik gaf afa segir hann í áritun: „Enginn verður fullkominn nema hann þekki og breyti eftir þeim sem hefur verið fullkomnastur hjer á jörð“. Hann hefði getið látið nægja að segja: „Enginn er fullkominn og enginn verður það.“

Við fellum dóma, erum haldin fordómum, bæði um kosti fólks og galla. Við verðum að geta metið fólk með því að fá eins greinargóða frásögn af því eins og mögulegt er. Stundum fordæmum við, stundum fyrirgefum við, sumt verður aldrei fyrirgefið.

Bók Guðmundar staðfestir enn einu sinni það sem ég hef lært af reynslunni: Enginn maður er svo góður að við eigum að fylgja honum í blindni.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.