Myndin af pabba

Ég var minntur á pabba tvisvar í vikunni. Á föstudag hitti ég Jón Guðmundsson fasteignasala og Norðfirðing sem sagðist hafa séð málverk af pabba á sýningunni á Kjarvalsstöðum. Ég mundi ekkert eftir því að til væri af honum málverk og vissi það kannski aldrei. Jón lýsti því nákvæmlega fyrir mér hvar myndin væri, en tók fram að alls ekki væri víst að hún væri þar enn því að eins og ég vissi væri sýningin hreyfanleg, þ.e. sífellt væri verið að taka verk niður og setja önnur þeirra í stað.

Ekki komst ég á Kjarvalsstaði þann daginn. Daginn eftir hringdi sonur minn í mig til þess að segja mér að hann hefði frétt af mynd af afa sínum á sýningu. Við ákváðum að drífa okkur og hittumst á safninu kortéri seinna. Sonurinn var þá alls ekki á sýningunni heldur sat við kaffiborð með bróður mínum og mágkonu, ásamt foreldrum hennar. Listasafnið hafði sem sé selt a.m.k. sex miða út á þessa mynd. Ég tek það fram að Vigdís harðneitaði að koma með mér og spurði hvort ég gæti ekki bara tekið mynd af myndinni fyrir hana.

Eftir að við höfðum spjallað drykklanga stund við fólkið, eða þangað til þau kláruðu sína drykki, kvöddumst við og við héldum inn á sýninguna. Um leið og við komum inn blasti pabbi við. Hann var svolítið líkur sjálfum sér, en samt fannst mér þetta ekki nógu góð mynd. Hann er alvarlegur á svip og það vantar kankvísa brosið sem yfirleitt prýddi hann.

Mér sýnist hann sitja inni í stofu heima, en það vantar svolítið upp á að umhverfið sé rétt. Samt var gaman að sjá myndina.

Eins og áður er sagt var þetta ekki í eina skiptið sem ég var minntur á pabba í vikunni. Morgunblaðið birti það sem miðopnu frétt að pabbi og Geir Hallgrímsson hefðu verið þremenningar. Þetta er rétt, en Mogginn er ekki lengur fyrstur með fréttirnar.

Ástæðan fyrir því að Morgunblaðið kom með þessa uppljóstrun er óljós, en eins og glöggir lesendur blaðsins þekkja sjá þekktir stoðboltar að jafnaði um dálka á þessari opnu. Í þetta sinn var það gamall skólabróðir minn, Kjartan Gunnar Kjartansson, þekktur ættfræðingur og gleðipinni.

Mér var reyndar sagt í óspurðum fréttum að í Mogganum væri grein eftir Kjartan. Ég gerði ráð fyrir að hún væri eftir Kjartan Gunnarsson, leitaði og fann ekki og lét þar við sitja. Síðar sama dag hringdi vinur minn í mig og sagði mér allt af létta um grein Kjartans Gunnars, sem ekki væri Gunnarsson. Ég hóf því lesturinn.

Eitthvað er Kjartani farið að förlast því hann byrjar greinina svona:

„Vorið 2011 birtist á Pressunni ekki-frétt um skoðanir Benedikts nokkurs Jóhannessonar á Morgunblaðinu. Þar er m.a. haft eftir honum: »Blaðið væri lélegt nútímablað vegna þess að það blandar saman fréttum og skoðunum.« “

Að vísu er svo langt síðan við vorum saman í skóla og Kjartan eitthvað eldri en ég, svo ekki er að undra að hann sé farinn að gleyma mér síðan þá. Samt hefði ég talið að hann myndi eftir mér frá því að við heilsuðumst í sextugsafmæli Hannesar Gissurarsonar fyrir stuttu.

En kannski er „Benedikt nokkur“ heiðurstitill á Mogganum, svona eins og „sá ágæti maður“.

Kjartan heldur áfram fréttinni:

„Þessari ekki-frétt fylgdu deili á Benedikt. Hann væri ritstjóri Vísbendingar, náfrændi Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, »af Engeyjarættinni og áhrifamaður í flokknum um árabil«.“

Smám saman áttar Kjartan sig á mér, enda eðlilegt að hann kveiki frekar á ættartölum en samskiptum í samtímanum. Áfram:

„Benedikt er reyndar systursonur Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, og faðir hans og Geir Hallgrímsson voru þremenningar af Zoëgaætt. Ekki-fréttin hefði orðið kræsilegri hefðu þessar jólatréskúlur fylgt með. En þeim má kannski halda til haga.“

Þetta er skemmtilegt. Á örstuttri stundu kemur Kjartan þremur núverandi og fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins að og tengir þá með að þeir séu allir frændur mínir. Ég er ánægður með það, því að mér þykir vænt um þá alla.

Ég átta mig samt ekki á því hvers vegna hann kallar þá jólatréskúlur, en það eru náttúrlega ekki alltaf jólin hjá mér eins og á Mogganum.

Þetta minnti mig á það sem pabbi sagði um Geir í Æviminningum sínum:

„Geir er sá af borgarstjórunum sem mér líkaði best við og mat mest. Hann var kröfuharður og fylgdi málum fast eftir. Það mátti líka reiða sig á hann, hann stóð við það sem hann sagði. Hann var góður samningamaður.“

Áfram hélt frétt Kjartans og víkur meðal annars að „ættarlauknum Benedikt“. Ætli það sé ekki betra að vera ættarlaukur en jólatréskúla?

Kjartan endar á skúbbi:

 „Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður, árið 1929, um tvennt: Fullveldi Íslands og einstaklingsfrelsi. Við stofnun hans var gefin út yfirlýsing um þessa stefnu hans. Hún er þessi:

»1. Að vinna að því og undirbúa það, að Ísland taki að fullu öll sín mál í sínar eigin hendur og gæði landsins til afnota fyrir landsmenn eina, jafnskjótt og tuttugu og fimm ára samningstímabil sambandslaganna er á enda.

2. Að vinna í innanríkismálum að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsins og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum.« “

Ég er ánægður með þetta, en það kom mér í sjálfu sér ekki á óvart þar sem ég er nýkominn af landsfundi þar sem við fulltrúarnir vorum önnum kafnir við að undirbúa það að tuttugu og fimm ára samningstímabil sambandslaganna endi og við tökum öll mál í okkar hendur.

Allra síðasta setningin var þessi:

 „Það er slæmt að rugla saman skoðunum og fréttum. En það er hálfu verra að hræra saman ekki-fréttum, ættarsnobbi, óskiljanlegum staðhæfingum og órökstuddum fullyrðingum.“

Ég veit ekki hvort þessi setning flokkast undir íhaldssama sjálfsgagnrýni ættfræðingsins eða dóm um fréttina sem á undan fór.

Þó að mér þætti umfjöllunin auðvitað góð gat ég ekki varist því að í grein ættfræðingsins ætti að felast einhver broddur, því að ég var ekki viss um að hann teldi ættartengsl mín við jólatréskúlurnar mér til sérstaks framdráttar.

Svo rann upp fyrir mér ljós. Það vantaði réttu kúluna í tengslanetið.

Þar get ég hins vegar hjálpað til.

Tengdamamma er fjórmenningur við Davíð Oddsson.

Það er náttúrlega toppurinn á jólatrénu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.