Óregla og óreiða (BJ)

Ég hef ekki lesið bókina sem fékk bókmenntaverðlaunin. Á ekki von á að lesa hana því að ég á erfitt með að fá mig til að lesa bók sem heitir Illska. Reyndar las ég hina bókina um Nonna eins og ég hef vikið að áður. Í þetta sinn hef ég lesið tvær af tilnefndu skáldsögunum og tvær af fræðibókunum.

Auður Ava Ólafsdóttir skrifaði Undantekninguna. Ég sá Auði flytja ræðu í afmæli fyrir nokkrum árum. Við Vigdís urðum svo hrifin af ræðunni að við keyptum strax tvær bækurnar hennar. Ræðan var einhver sú fyndnasta sem ég hef heyrt, en aldrei stökk ræðumanninum bros meðan grafalvarlegt grínið vall upp. Vigdís byrjaði á annarri bókinni og ég á hinni. Tveimur dögum seinna var ég kominn á blaðsíðu 19 og Vigdís búin með sína og tók mína traustataki. Ég hef hvoruga séð síðan (þ.e. hvoruga bókina, Vigdísi bregður fyrir öðru hvoru).

Undantekningin er lipurlega skrifuð og það hljómar eflaust sem snjöll hugmynd að skrifa um konu sem verður fyrir því að maðurinn hennar tilkynnir henni að hann sé hommi og ætli að fara frá henni. Mér fannst þetta ekki sannfærandi. Kannski er ég svona fákunnandi um líf homma. Maðurinn hafði, á þessum árum sem þau voru gift, verið með fjölmörgum körlum, sem mér fannst gefa í skyn að svona væru hommar, mættu ekki koma inn í búningsklefa með karli án þess að eiga skyndikynni.

Kannski fór það líka í taugarnar á mér að karlinn átti að vera stærðfræðingur, sérfræðingur í óreiðukenningunni. Ég veit ekki hvort óreiðukenningin er til, en hún er að minnsta kosti ekki stærðfræði. Stærðfræðingar fást við reglur, stundum kallaðar setningar, eða tilgátur en ekki kenningar. Ég er eflaust eins og málfræðingur sem fær sig ekki til þess að hlæja að fyndna brandaranum vegna þess að sögumanni varð það á að segja að honum langaði til þess að segja sögu.

Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson er ágæt bók. Hún er stutt og auðveld viðureignar. Sögumaður situr við ritvélina sína með slitinn borða. Í þorpinu er kaffihús sem er opið á sumrin og þar er úrill kona við afgreiðslu. Stundum fær sögumaðurinn sér kaffibolla, horfir út á hafið og hugsar að hann þurfi að skipta um borða í ritvélinni. Einhvern veginn á Gyrðir mjög auðvelt með að skrifa svona sögur svo lipurlega að manni finnst ekki hafa verið tímaeyðsla að lesa bókina, kannski vegna þess að hann skrifar stuttar sögur. Einmitt þess vegna þyrfti einhver velviljaður að lesa bækurnar yfir áður en þær koma út og benda honum á að það eru of margar flatneskjulegar setningar í bókinni hans.

Besta nýja bókin sem ég hef lesið fram að þessu er Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur. Kannski er erfitt að segja að einhver bók sé best þegar maður les margar ágætar, en þetta er mjög góð bók. Þetta er líka fyrsta bókin sem ég les eftir Auði. Útgefandinn sagði mér frá því að í þessari bók væri allt klanið mætt, nema Duna komi ekkert við sögu, það hefði verið asskoti gaman að sjá hana þarna líka. Ég byrjaði með hálfum huga á bókinni, var ekki viss um að ég væri tilbúinn að lesa um „allt klanið“.

Í stuttu máli er Ósjálfrátt einhverskonar Essey-róman bók sem byggir á lífi Auðar sjálfrar en sögð löngu seinna þannig að það er víst að sagan gerðist ekki nákvæmlega svona. Kosturinn við sögu framyfir lífið sjálft er að í sögunni þarf ekki að fylgja nema þeim útúrdúrum sem maður vill sjálfur. Auðvitað má deila um það hve marga útúrdúra á að setja í eina sögu. Sumum fannst mér ofaukið í þessari bók, ekki vegna þess að þeir væru leiðinlegir, þeir hefðu samt ekki skemmst á því að geyma þá fram í þá næstu. Kaflarnir um ósjálfráðu skriftina fannst mér til dæmis lítið tengjast öðru efni. En því ræður höfundurinn auðvitað. Þessi bók átti meira erindi í bókmenntaverðlaunin en hinar sem ég hef lesið. Kannski vissi dómnefndin ekki hvort hún átti að vera skáldsaga, fræðibók eða sjálfshjálparbók fyrir höfundinn.

Auður rifjar upp ýmislegt úr bókum afa síns og gerir það smekklega. Setningin um að ekkert sé barni jafnhollt og að missa föður sinn nema kannski að missa móður sína kallast á við söguhetjuna sem saknar þess að hafa ekki átt foreldra eins og hún vildi að þeir væru. Mamman sem gat skrifað frábæra pistla í blöð þangað til hún hætti því alveg, þegar dóttir hennar vildi líka skrifa. Eftir það var það eina markverða kallastand og rauðvínshjal. Pabbinn sem tuðaði og reifst við mömmuna þangað til hann fór. Það var eina lausnin.

Amman, sem fór í margra mánaða ferðalag frá dætrum sínum kornungum, kemur best út. Hún vill að Eyja skilji við fulla Flateyringinn sem er miklu eldri en hún. Ég veit ekki hvort bókin varpar einhverju ljósi á það hvers vegna ágætar konur vilja taka að sér lúsera, en það er öruggt að flestar konur sem gera það neita að viðurkenna mistökin, þó að allur heimurinn viti að sambandið sé dauðadæmt. Móðursystir mín sagði mér frá því að þegar hún giftist fyrri manni sínum hefðu allir reynt að fá hana ofan af því, en henni varð ekki hnikað. Hann var drykkjumaður og fáum árum seinna varð hún að kyngja því að hún hafði rangt fyrir sér og það sem verra var: Allir hinir höfðu rétt fyrir sér. Hann fann svo einhverja aðra konu sem fórnaði sínu lífi.

Ég sá á vefnum að Silja Aðalsteinsdóttir er með spurningar um bókina og höfundinn fyrir leshring. Ég ákvað að fást við þær:

1.Finnst þér hún of grimm við sína nánustu?
Svar: Auði finnst þetta örugglega sjálfri og hefur efasemdir. Hún reynir að svara spurningunni með því að vísa í bæði Rúnu skíðadrottningu og mömmu sína sem segja henni að hún verði að segja söguna alla. Svo segir vinkonan frá Flateyri að hún megi ekki nota ákveðnar sögur úr snjóflóðinu, þær séu of viðkvæmar. Þannig gefur hún í skyn að þær sögur sem þó eru sagðar séu með þegjandi samþykki.
2. Hvernig myndir þú lýsa stíl og frásagnarhætti sögunnar? Er hann ,,venjulegur“ að þínu mati?
Svar: Auður fer fram og aftur í tíma. Það er alvanalegt. Stundum verður það svolítið flókið fyrir lesandann að átta sig, en samt voru tilvísanir í raunveruleikann til þess að auðvelda mér lesturinn. Tilvísanir eru of veikt orð. Auður segir söguna mjög nærri lífinu eins og henni finnst það hafa verið. Sumt er fyndið. Dvölin í Svíþjóð er kómísk og þar grunaði mig að á stöku stað hefði veruleikinn verið lagaður. Til dæmis um sænska veðurfræðinginn sem hún svaf hjá. Er hægt að hugsa sér meiri andstæður en íslenskan róttækling og alkóhólistavesaling og sænskan, hrútleiðinlegan, veðurfræðing?
3. Gætir þú hugsað þér að verða vinkona Eyju eftir lestur bókarinnar?
Svar: Líklega ekki vinkona, en vissulega hvarflar það að manni við lestur bókarinnar að Auður hafi látið allt flakka. Ég kannaðist við flestar persónurnar og er búinn að fá deili á þeim sem mig vantaði. Mér fannst ég óþægilega nálægt því að horfa á raunveruleikaþátt úr stofunni heima hjá henni. Er öllum sama þó að allt sem þeim varð á að segja einhvern tíma sé nú dregið fram aftur? Eða skiptir það kannski engu máli?
Oft finnst mér eins og samtíminn allur sé upptekinn af því að öll okkar ógæfa sé öðrum að kenna. Við værum ekki svona gölluð ef foreldrar okkar, frændur og vinir hefðu verið í lagi. Með því að draga það allt fram í dagsljósið batnar maður sjálfur, en ef ekki þá skýrist að minnsta kosti hvers vegna maður er svona. Og ef maður man ekki neitt hræðilegt býr maður það bara til. Það er að vísu fjarri mér að saka Auði um að búa til sína ævi í sögunni, en mig grunar vissulega að bókin eigi að slá striki undir fortíðina, rétt eins og þegar mamman flutti úr einu húsi í annað.
Ósjálfrátt er mjög góð bók. Sumir kaflar eru svo listavel skrifaðir að maður fær gæsahúð við að lesa þá. Til dæmis lýsingin á þorpinu í kaflanum Nýir tímar. Það eru engar ýkjur að Auður er afbragðs rithöfundur. Hún reynir í lokin aðeins að pakka örlögum söguhetjanna í búning hamingjusamrar skáldsögu. Mamman er komin með nýjan mann og drykkjufélaga, Eyja á barn, vinkonan á barn og Garrinn er dauður. Svona er þetta eflaust allt, en lífið heldur áfram þó að sagan endi.
PS: Jafnvel bestu höfundar nota nú orðmyndina samrýmdur en ekki samrýndur, sem er rétt. Þetta gætu Forlagið og aðrir góðir útgefendur bent prófarkalesurum á.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.