Af Sturlungum og Langnesingum (BJ)

Snorri, Sturla, Sighvatur og þeir frændur allir hafa fylgt mér undanfarnar vikur. Við Vigdís ákváðum að fara á námskeið í Sturlungu hjá Magnúsi Jónssyni (allir spyrja, er hann náunginn sem tók við af Jóni Bö. og það er rétt, en Magnús er prýðilegur einn og sér og þarf ekkert að bera hann saman við aðra). Ég hef nokkrum sinnum reynt að lesa Sturlungu en aldrei tekist. Það sem ég vissi um hana og var orðið ansi fyrnt, var úr 2. hefti af Íslandssögu Hriflu-Jónasar sem lesin var í barnaskóla. Ég var sá eini í bekknum sem fannst þetta skemmtilegasta heftið, en það var kannski vegna þess að ég hefði lesið margt úr 1. heftinu annars staðar.

Í gamla daga hélt ég auðvitað með Sturlungum, aðalsöguhetjunum, en lagði fæð á Gissur jarl. Hann var þý konungs (sem var reyndar Noregskonungur, en við vorum nýbúin að fá frelsi frá Dönum og manni var lítið um kónga).

Nú sé ég að ég hef misskilið söguna. Það eru engir góðir gæjar í Sturlungu. Að minnsta kosti engir af aðalpersónunum. Snorri var heigull, ágjarn og líklega á mála hjá Hákoni kóngi og Skúla jarli tengdaföður hans. Hann giftist til fjár, ekki einu sinni heldur tvisvar. Dætur sínar lét hann giftast helstu höfðingjum, en það var gagnslítið. Einn tengdasonur hans, Gissur Þorvaldsson, drap hann á endanum með fulltingi annars tengdasonar, Kolbeins unga. Sú þriðji, Þorvaldur Vatnsfirðingur, var fjarri góðu gamni, kannski vegna þess eins að hann var dauður.

Þorvaldur var ekki alltaf fjarri góðu gamni. Einhvern tíma þegar óvinir hans komu að honum var hann í rekkju með frillum sínum tveimur. Þetta var óheppileg tímasetning fyrir árás.

Þórður, sem elstur var þeirra albræðra, kemur best út, en það er sonur hans sem skrifar söguna svo að það er ekki að marka. Hann var sá eini sem var sóttdauður.

Sighvatur var duglegur að hlaða niður börnum og mismunaði þeim eins og ekkert væri. Sturla, næstelsti sonur hans, var ómerkilegur fantur, sem ætlaði að leggja undir sig landið en rak ekki smiðshöggið á þegar tækifæri gafst til. Hann var náfrændi Kolbeins unga sem hann barðist við á endanum og reyndar líka Gissurar sem drap hann. Það er ekkert nýtt að frændur séu frændum verstir.

Ég er ekki viss um að ég hefði komist langt áfram með Sturlungu án hjálpar Magnúsar. Að vísu er ég búinn að lesa skáldsögur Einars Kárasonar og það hjálpar mikið og eins las ég ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson. Það er að vísu svolítið erfitt að skrifa ævisögu manns þegar heimildin er nánast bara ein bók, þ.e. Sturlunga, en samt er þetta ágætt hjálpartæki.

Um helgina fór ég að hlusta á eintal Einars Kárasonar í Borgarnesi þar sem hann rekur söguna frá sjónarhóli Sturlu Þórðarsonar. Hann einfaldaði frásögnina mikið og það er ágæt byrjun á Sturlungu að hlusta á Einar.

Gagnlegast var þó að lesa bók Jónasar Kristjánssonar handritafræðings sem kom út fyrir jólin. Hún nefnist Söguþjóðin og er endursögn á Íslandssögunni frá upphafi til 1270 eða svo. Markmið hans var að segja söguna með sama hætti og Jónas frá Hriflu, föðurbróðir Jónasar, hafði gert. Þessi bók er algerlega frábær. Ég hvet alla til þess að lesa hana, því að Jónas endursegir Íslendingasögur, biskupasögur og Sturlungu, en fléttar inn öðrum fróðleik sem við þekkjum annars staðar að. Þarna er hægt að fá stutta útgáfu af Íslandssögu þessa tíma án þess að sníða af allt sem er skemmtilegt eins og nútíma sagnfræðiritum hættir til að gera.

Í Sturlungu eru margir kappar en engar hetjur. Stundum eru hetjudáðir, en engir sem sagt er frá eru gegnheilir menn sem einhver ætti að taka sér til fyrirmyndar. Menn hika ekki við að drepa menn sem þeir höfðu áður bundist vinaböndum. Svo eiga þeir líka auðvelt með að skemmta sér vel með þeim sem þeir skömmu áður höfðu barist við og sært. Sturlungar hefðu orðið stjórnmálamenn, menn sem gætu vel fyrirgefið óvinum sínum, en mundu vel hvar þeir áttu heima.

Hin bókin sem ég glugga í öðru hvoru er Langnesingabók, 1. bindi. Þessi bók áskotnaðist mér þegar við komum við á prestsetrinu Sauðanesi í fyrrasumar. Í henni er sögð saga byggðarinnar frá upphafi sagna til 1918. Sagan frá 1918 er væntanlega í seinna bindinu sem ég hef ekki enn byrjað á. Ekki er mannvígum eða bardögum fyrir að fara heldur aðeins sögð saga af fólki sem lifir venjulegu lífi til sveita. Fáir þeirra sem koma við sögu voru landsfrægir. Helst Arnljótur Ólafsson sem var prestur en jafnframt fyrsti íslenski hagfræðingurinn sem skrifaði formlega um þau fræði (Jón Sigurðsson skrifaði reyndar líka ágætar greinar um nauðsyn frjálsrar verslunar við allar þjóðir).

Þarna kemur fram að bærinn Læknisstaðir sé ekki kenndur við neinn lækni heldur hafi líklega heitið Læk-nes-staðir. Svo er sagt frá manni sem ruglaðist í ríminu og taldi sig vera Napóleon Bónapartí og var í nánum tengslum við Helga Bretakonung. Halldór Laxness notar þennan mann í smásögu. Gefin eru nákvæm mál á húsum sem risu á Þórshöfn og sagt frá hjónum sem fluttu til Ameríku á áttræðisaldri. Það er aldrei of seint að byrja nýtt líf.

Í Sturlungu er varla nema einn maður sem náði áttræðisaldri, Sturla Þórðarson sagnaritari. Hann dó daginn eftir að hann varð sjötugur.

Benedikt Jóhannesson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.