„Þú ert með helvítis herníu!“
Ég horfði á lækninn með vandlætingarsvip. Ekki þannig að ég skildi hann ekki. Sem sigldur maður vissi ég að hernía þýddi kviðslit, sem kom mér ekki á óvart. En sem gamall KFUM-drengur fannst mér þetta ekki tilhlýðileg viðbrögð af lækni. Læknar finnst mér eigi að taka sér tíma til þess að velta fyrir sér kvilla sjúklingsins, hugsa sig virðulega um og kinka kolli íhugulir á svip og nefna svo eitthvert heilkenni á latínu, sem væri svo í fyllingu tímans þýtt fyrir sjúklingnum sem hlustaði skelfdur ár.
„Nei, það leynir sér ekki. Helvítis hernía.“
Læknirinn hafði tekið sér sjö sekúndur í að greina þetta ástand tvisvar með þessu gassalega orðfæri og gaf til kynna að skoðuninni væri lokið.
„Þér líst náttúrlega ekkert á að láta einhvern vera að krukka í þig“, hélt hann áfram án þess að ég gæti neitt sagt. „Ég þekki þetta. Þú ert kóntról-frík eins og ég.“
Ég velti því fyrir mér hvort ég væri kóntról-frík meðan hann lét móðan mása: „Ég dró það í mörg ár að láta laga kviðslit hjá mér“ (þar nefndi hann kviðslit) „því að ég kærði mig ekki um inngrip frá einhverjum öðrum.“
„Það er ekki skemmtileg tilhugsun að láta aðra vera að fitla við innyflin á sér. Ég var að hugsa um að skera mig upp sjálfur og ég er viss um að þú vildir helst geta gert það líka.“
Satt að segja vill svo ótrúlega til að mér hafði aldrei dottið í hug að skera mig upp sjálfur. Líklega er ég í þeim fámenna hópi kontról-fríka sem finnst allt í lagi að fara til rakara og tannlækna þegar þannig stendur á. Ég taldi nú samt ekki rétta stund eða stað til þess að viðurkenna þennan veikleika.
„Ég gerði fyrst aðgerð á mér þegar ég var þrettán ára“, hélt læknirinn áfram. Andartak velti hann því fyrir sér hvort hann ætti að segja mér nánar frá henni, en lét svo nægja að geta þess að auðvitað hefði hann ekki látið deyfa sig þegar hann var skorinn upp við kviðslitinu.
Hann skrifaði eitthvað á blað og rétti mér. Ég leit ekki á það, en reiknaði með að þetta væru leiðbeiningar til einhvers skurðlæknis um að ég vildi vera vakandi og ódeyfður svo að ég gæti leiðbeint sem best við aðgerðina.
Það reyndist ekki vera heldur skipun um að hitta annan lækni.
Þegar ég kom niður í Domus Medica var ég látinn hitta einhvern mann af erlendu bergi brotinn sem renndi ómtæki yfir kviðinn á mér. Meira að segja ég gat séð hvar misfellan var, en í raun og veru staðfesti hann það sem ég vissi því að ég gat séð bunguna með berum augum. Hann sagði mér að ég myndi heyra frá mínum lækni.
Svo liðu margir mánuðir. Af því að ég hafði mikið að gera og lítinn tíma til skurðaðgerða fannst mér það allt í lagi. Öðru hvoru þegar Vigdís var að vinna og ég var einn heima datt mér í hug hvort ég ætti ekki að klára þetta bara sjálfur, en vildi helst ekki gera það nema heyra frá heimilislækninum fyrst.
Er líða tók að jólum heyrði ég í bróður mínum sem er læknir og sérfræðingur í kviðslitum vegna þess að hann hefur farið í fjórar slíkar aðgerðir. Hann sagðist því geta bent mér á marga skurðlækna á þessu sviði, en þegar betur var að gáð reyndust þeir fæstir vera á lífi ennþá (ég tek það fram að hann er mun eldri en ég). Einn þeirra reyndist þó enn með lífsmarki og ég ákvað að tala við hann.
Hann var jafnfljótur og hinn að greina vandann. Þetta var greinilegt og þurfti að laga því að ella gætu innyflin fljótlega legið úti. Svo spurði hann um hin og þessi óþægindi sem yfirleitt fylgdu kviðslitum, en ég kannaðist ekki við þau. Til að leggja eitthvað til mála sagði ég samt frá óm-myndinni sem til væri á 1.hæð Domus Medica, en ég hefði eins getað nefnt ómynd, því að hann hló bara og sagðist þekkja svona kviðslit á löngu færi.
Svo mátti ég velja hvort ég yrði skorinn fyrir eða eftir jól. Ég hafði engan tíma til þess að eyða frídögum í þetta og valdi 9. janúar 2013.
Tvö þúsund og
þrettán.
—
Allir vildu fræða mig um kviðslit. Vigfús vinnufélagi minn sagði mér af því að konan hans hefði legið á spítala í viku eftir kviðslitsaðgerð með hermannaveiki. Ég veit ekki hvernig hermannaveiki lýsir sér og þorði ekki að gúgla það.
Kvöldið áður en ég fór í aðgerðina sökkti ég mér í ævisögu Nonna til þess að dreifa huganum.
Vill þá ekki betur til en Nonni þurfti að fara í kviðslitsaðgerð, en var ráðið frá því vegna hættu á lungnabólgu og bráðum dauða. Ég lagði frá mér bókina og ákvað að vaka þessa síðustu nótt.
Illu er best aflokið segir einhvers staðar, en ég hef lifað eftir mottóinu: Frestur er á öllu bestur.
Klukkan hálf ellefu morguninn eftir var hringt frá lækninum og sagt að þau væru á eftir áætlun. Það fannst mér góðar fréttir en lakara að frestunin var bara hálftími. Jæja, skárra en ekkert.
Klukkan 12.27 skilaði Vigdís mér á staðinn og ég rölti inn. Á biðstofunni biðu amk fimm þannig að ég var að hugsa um að biðja Vigdísi að sækja mig aftur þegar ég áttaði mig á því að þarna eru margir læknar með stofu. Ég settist niður og ætlaði að finna mér lesefni. Það var of skornum skammti, helst bæklingar um sýkingar og læknamistök. Enginn um hermannaveiki.
Ég greip blað sem heitir Vaknið! Það var uppörvandi lesning því að ég var að fara í svæfingu og fannst vel við hæfi af lækninum að hafa þessa hvatningu til sjúklinga þarna frammi. Það reyndust vera Vottar Jehóva sem voru í samstarfi við lækninn um þessa útgáfu.
En ég komst ekkert áfram því að í næsta sæti settist maður sem kinkaði vingjarnlega kolli en fór svo strax að tala í farsímann á ókennilegu máli. Líklegast þótti mér að þetta væri Pólverji eða Búlgari, mjög líklega mafíósi. Þegar ég hugsaði málið betur sá ég í hendi mér að líklegast væri þetta líffærasali og eftir því hvernig hann horfði á mig var greinilegt að hann hugsaði sér gott til glóðarinnar, ef ég vaknaði ekki.
Ég ákvað að best væri að koma sér heim en í því að ég stóð upp var ég gripinn og leiddur inn í sláturhúsið. Þar fékk ég smáklefa þar sem ég gat háttað og setið svo og beðið. Það var leiðinlegt, en þar var að minnsta kosti enginn mafíósi.
Skömmu síðar var ég kominn á skurðarborðið. Kona í grænum búningi kynnti sig og sagðist vera svæfingalæknirinn. Hún byrjaði að stinga nálum í handlegginn á mér og leit á blaðið með upplýsingum um mig. Svo spurði hún hve lengi ég hefði búið í húsinu sem ég bý í.
Ég hélt að þetta væri próf í því hvort ég væri enn með rænu og fór að reikna þetta nákvæmlega: „Fjórtán ár, þ.e. vel á fimmtánda ár, eh …“ Nú var ég kannski orðinn full nákvæmur og ég hætti.
„Þetta er eina hús sem ég hef bundist tilfinningaböndum“, sagði læknirinn. „Hafið þið breytt því mikið?“ Afi hennar og amma bjuggu þarna á undan okkur.
Ég byrjaði að útlista það og gat sagt að forstofan væri enn með grænum flísum. „Hvað með baðherbergið?“ Ég mundi ekki hvernig flísarnar höfðu verið í því, en nú eru komnar nýjar.
Hún stakk nálinni harkalega í handlegginn á mér og ég veinaði og spurði hvort þetta væri bráðnauðsynlegt. „Þú mundir ekki hvernig baðherbergið var á litinn“, sagði hún.
Auðvitað var það grænt.
Svo spurði hún hvort við hefðum tekið eftir því þegar systir hennar kom um nótt og tók blóm úr garðinum til þess að setja í kistuna hjá ömmu þeirra.
„Var það hún?“ datt mér í hug að segja, en nálarnar blikuðu enn í höndunum á henni svo að ég steinþagði.
Næst vaknaði ég aftur. Hjúkrunarkonan gaf mér ristað brauð og djús. Skurðlæknirinn sagði að þetta hefði verið alvöruskurður (en ekki hvað?) og hann hefði rétt náð að bjarga iðrunum frá því að flæða út.
Ég leit á sárabindin, grisjurnar, plástrana, bómullarhnoðrana og annan varning sem nægt hefði til þess að fylla allstóran sjúkrakassa og sagði: „Þetta lítur bara vel út. Ég hefði ekki gert þetta miklu betur sjálfur.“