Við hittumst um helgina nokkrir félagar úr barnaskóla. Nánar tiltekið tíu 57 ára strákar. Við héldum að við hefðum ekki hist síðan 1971, en í ljós kom að sumir okkar höfðu aldrei hist. Þetta var nefnilega enginn sérstakur bekkur heldur félagarnir almennt og líklega höfum við bara verið fjórir sem vorum saman allt frá sjö ára bekk allt upp í landspróf. Það var gaman að hitta hópinn og reyna að rifja upp einhver atvik. Það kom í ljós að við mundum ekki nærri allt og sumt mundum við hver með sínum hætti. Helst mundum við eftir skömmum eða óþekkt, en sumir mundu meira að segja númerið á stofunni okkar.
Ég hlakkaði til fundarins. Mig dreymdi meira að segja fyrir honum nokkrum dögum áður. Það var reyndar skrítinn draumur, því að ég sofnaði skömmu eftir að ég mætti til þeirra og vaknaði við það að Vigdís kom að sækja mig og taldi víst að ég hefði fengið mér of marga bjóra.
Þessi draumur rættist ekki.
Fyrir nokkrum árum sendi Ingi Bogi mér þessa mynd sem ég skrifaði um.

1965 Frá vinstri: Gylfi, Halli, Elís, Jói, Svenni, Frikki, Maggi Dan, Bjarni, Bensi, Palli, Þorgeir, Gunni Magg. Ingi Bogi tók myndina.
Við vorum saman í Langholtsskólanum. Helmingurinn í Vogaskóla líka. En við vorum þarna sem Langholtsskólabekkurinn. Af því að hann var illa skilgreindur vorum við ekki vissir um hvort við vorum 8 ára SH eða 8. JJ. SH var Sigrún Halldórsdóttir sem kenndi okkur í þrjú ár og hélt uppi svo góðum aga að maður lyppaðist niður ef hún horfði á mann með stranga svipnum. Enginn vildi lenda í því.
Einn veturinn var Sigrún mikið veik og þá kenndi okkur einhver karl sem ég man ekki hvað heitir (eða hét). Við kölluðum hann gamla skrögg. Ingi Bogi sem er aðalmaðurinn í þessari nostalgíu sagði mér að þessi maður hefði verið þekktur rithöfundur. Í sjö ára bekk vorum við í Ungmennafélagshúsinu við Sunnuveg, sem núna heitir KFUM húsið. Reidar G. Albertsson kenndi okkur allt nema Birgir bróðir hans kenndi lestur. Reidar kunni margar sögur og okkur fannst hann skemmtilegur. Svo kenndi hann okkur dönsku í gagnfræðaskólanum og okkur fannst hann ekkert skemmtilegur þá.
Sigfús Halldórsson tónskáld kenndi okkur teikningu. Öllum þótti vænt um hann, en oft þurfti hann að fara inn í bakherbergi í teiknistofunni til þess að fá sér brjóstbirtu. Hann sagði mér það löngu seinna að hann hefði hætt að drekka. Þegar ég spurði hann um tilefnið sagði hann mér þessa sögu:
Sigfús var að kenna ungum krökkum og var að segja einhverjum strák til og hallar sér yfir hann. Strákurinn segir þá við hann:
„Heyrðu pabbi,“ leit svo á Sigfús og hristir höfuðið og heldur áfram: „Fyrirgefðu, mér fannst að þú væri pabbi minn. Það er nefnilega alveg eins lykt út úr þér og honum pabba.“
Þetta dugði og Sigfús hætti að drekka eftir langan og skrautlegan feril á því sviði.
Stefán Þengill kenndi söng. Hann var júdókappi og hikaði ekki við að beita bardagabrögðum í tíma. Oft kleip hann nemendur í eyrun og sneri upp á þau. Margir mundu líka eftir steinbítstaki þegar hann greip um hálsinn á mönnum og lyfti þeim úr stólnum. Einhverjir fengu líka bank í hnakkann, en því man ég ekki eftir. Engum datt í hug að kenna þetta við ofbeldi. Svona var hann bara.
Ragnheiður Finnsdóttir kenndi okkur landafræði í gagnfræðaskólanum. Mér fannst hún skemmtilegur kennari. Einhvern tíma sagði hún okkur að við ættum alltaf að standa upp fyrir fullorðnum konum í strætisvagninum. „Þið þurfið ekkert að standa upp fyrir mér,“ sagði hún, „en alltaf ef þið sjáið gamlar konur eigið þið að bjóða þeim sæti.“ Mér fannst konur ekki gerast miklu eldri en Ragnheiður, en hún var þá 57 ára, jafngömul og við strákarnir erum núna.
Vel á minnst. Ýmsir höfðu verið spurðir að því hvers vegna stelpurnar hefðu ekki verið með. Svarið var einfalt. Það datt engum í hug. Það var ekki fyrr en kom að myndatökunni að einhver hafði orð á því að það hefði verið ekki spillt að hafa þær með á myndinni.
Sumir voru með myndir frá því í gamla daga og menn rýndu í þær og reyndu að vita hver var hver. Ég hafði gleymt gleraugunum og þekkti engan af mynd. Menn lofuðu að skanna þær inn og senda á hópinn.
Fáir höfðu farið í 60 ára afmæli skólans sem var haldið nú í haust. Af því spannst umræða um það hvenær skólinn hefði verið byggður og á því voru margar skoðanir og stefndi í harðar deilur þar til einhverjum datt í hug að draga 60 frá 2012 og frá út 1952.
Ég mætti í afmælið og hitti þar Jennu Jensdóttur, kennarann okkar í gagnfræðaskólanum. Þegar ég hafði sagt deili á mér þekkti hún mig vel og við spjölluðum í fimm mínútur. Þegar við kvöddumst sagði hún: „Við sjáumst …“ en svo hugsaði hún sig um og var greinilega ekki viss um að við sæjumst aftur. „Ég hef enga trú á því að það sé líf eftir dauðann. Þér finnst kannski skrítið að gömul kona hugsi svona, en þetta held ég nú samt.“ Mér fannst þetta ekkert skrítið, og kvaddi án nokkurra spádóma.
Það leyndi sér ekki í samræðunum að við erum komnir af mesta blómaskeiði. Að vísu höfðu nokkrir gengið á Hvannadalshnjúk á undanförnum árum, sem er ekkert slor, en Gylfi sem virtist reyndar best á sig kominn að sjá sagði frá því að hann hefði fengið næstbestu afmælisgjöf lífsins fyrir nokkrum árum. Það hljómaði spennandi, en þegar í ljós kom að það var hjartaáfall hugsaði ég með mér að það væri lítið varið í afmælin hjá honum. Besta gjöfin hafði verið sonur sem fæddist á afmælisdaginn, sem er vissulega góð gjöf, en samt virtist það tiltölulega auðvelt að toppa hjartaáfallið.
Svo kom skýringin. Áfallið leiddi til þess að skipt var um allar hjartaæðarnar fimm (ég vissi ekki einu sinni að þær væru svona margar) og síðan hafði hann verið undir stöðugu eftirliti. Það leiddi til þess að hjá honum uppgötvaðist krabbamein í nýra, nýrað var fjarlægt áður en meinið dreifði sér og Gylfi lítur út eins og nýsleginn túskildingur.
Þetta var skuggaleg saga, en Jói náði að toppa þetta með því að segja upp úr eins manns hljóði: „Ég dó fyrir þremur árum.“ Af því að ég sat við hliðina á honum varð ég að leika efasemdarmanninn, potaði í hann og fann að hann var fastur fyrir. Hans saga var þannig að hann hafði verið hjartaþræðingu, sem hafði reyndar átt að fresta til haustsins en af tilviljun var tími laus um sumarið. Í miðri þræðingu fór allt að klikka og línuritið hægðist stöðugt.
„Svo horfði ég á það stoppa og var dauður í hálftíma.“
Þetta var óneitanlega áhrifamikil lýsing, en svo bætti hann því við að hann hefði ekki orðið var við neitt hinum megin. Þannig að líklega hefur Jenna rétt fyrir sér um líf eftir dauðann.
Eftir þessar frásagnir gat ég ekki verið að skemmta neitt með kviðsliti hjá mér. Enda hafði ég ekki hugsað mér það.
Þeir komu með alls kyns muni sem þeir höfðu gert af miklu listfengi. Ég var feginn að hafa ekki komið með eina muninn sem ég smíðaði, girðingarstaur sem búið var að skera út sem fugl, sem enginn hefur síðar borið kennsl á. Þeir fáu sem reyna fá enn í sig flísar ef þeir handleika hann.
Í lokin var tekin mynd. Ég skoraðist undan því að vera við hliðina á Jóa stóra, en svo þegar kom í ljós að hann hefur ekkert vaxið síðan í tólf ára bekk taldi ég að kannski væri þetta allt í lagi. Héðan í frá yrði ég þekktur sem Bensi stóri.

2012 Frá vinstri: Maggi Dan, Þorgeir, Palli, Gylfi, Jói, Ingi Bogi, Bensi, Svenni, Bjarni. Fremst er Arnmundur. Ingi Bogi tók myndina
Ingi Bogi tók myndina á tíma, eða hvað það nú heitir þegar hann ýtir á takkann og hleypur til eftir að eitthvert ljós fer að blikka. Réttara sagt tók hann myndina á hálftíma, því að það var ekki einfalt að ná þessum frækna hóp á filmu (sem er víst engin hvort sem er). Svo hljóp hann til og stillti sér upp fyrir aftan mig svo ég varð alveg jafnlítill og í tólf ára bekk. Og þó. Hann var svo vinsamlegur að beygja sig aðeins.