Í vikunni sem leið tók ég örlagaríka ákvörðun. Ég stofnaði Facebook-síðu. Auðvitað ekki einn heldur með aðstoð sonar míns. Síðan fór í loftið á þriðjudagskvöld. The rest is history.
Ég stofnaði ekki bara síðu fyrir mig, heldur líka fyrir Sjálfstæða Evrópumenn. Þar er starfsemin orðin svo mikil að það þarf síðu undir allt sem er þar að ske. Meira um það síðar.
Margir hafa spurt hvað valdi þessum sinnaskiptum mínum. Ég hafði ætlað að verða síðasti maðurinn á landinu utan samfélagsmiðlanna. Rétt eins og ég ætlaði að verða síðastur á landinu með svarthvítt sjónvarp. Það tókst auðvitað ekki og ég var annar maðurinn sem nýtti einhverja nýja tækni símans fyrir skjávarp þegar við fengum okkur flatskjá (já, ég viðurkenni það Björgólfur, þetta var mér að kenna). Ég keypti líka fyrsta Ipodinn á Íslandi og svo á ég spjaldtölvu.
Ástæðan fyrir því að ég vildi hvorki byrja að spila golf eða fara á Facebook er að ég á mér enn alvörulíf. Eða átti, nú er því lokið.
Á þriðjudagskvöld var ég kominn með einn vin, Jóhannes son minn. Ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar, en hann mælti með mér við eitthvert fólk. Síðan var hins vegar tóm, nema það var ljómandi falleg mynd af mér, ef ég segi sjálfur frá.
Morguninn eftir hitti ég Jóhannes aftur. Hann er rólyndur að jafnaði, en í þetta sinn var hann ekki kátur og las mér pistilinn: „Ætlarðu ekkert að sinna síðunni þinni?“ spurði hann. Ég reyndi að stama því upp að það væru ekki nema átta tímar síðan við hefðum sett hana upp og stærstan hluta þess tíma hefði ég steinsofið.
„Það er engin afsökun,“ sagði hann. „Fjöldi fólks bíður eftir því að þú gerir eitthvað.“
Ég sá að komið var upp neyðarástand, frestaði tveimur mikilvægum fundum og fylgdi syni mínum að tölvunni. Hann gaf stuttar og ákveðnar skipanir. „Sestu við tölvuna og kveiktu á Facebook,“ eins og ég hefði ætlað að standa við skrifborðið, en ég þorði ekki að malda í móinn.
Síðan opnaðist og ég blasti við með vingjarnlegu brosi. „Sérðu þetta,“ sagði þjálfari minn og benti á skjáinn. Ég samsinnti því og ranghvolfdi í mér augunum svo að lítið bar á, því að auðvitað sá ég myndina af mér. Hafði meira að segja gaman af því að horfa á hana.
Og ætlarðu ekkert að gera í því?“
Ég vildi ekki svara mjög kjánalega því að ég minnist þess sjálfur hve feður er ótrúlega einfaldir í hugum sona sinna. Samt hugkvæmdist mér ekkert skárra en: „Er þetta ekki ágæt mynd?“
Svipurinn sem blasti við mér eins og hjá gæslufólki alzheimers sjúklinga. „Horfðu efst á skjáinn.“
Þar voru pínulitlar myndir af köllum sýndist mér. Hjá þeim stóðu tölur: 31 við annan og 22 við hinn. Hróðugur sagðist ég sjá þetta.
„Og ætlarðu ekkert að gera í því?“
Ég hefði gjarnan viljað segja jú, en hafði ekki hugmynd um að þetta væri einu sinni mitt mál.
„Bentu á þennan til vinstri.“ Ég var ekki vitlausari en svo að ég benti ekki með hendinni (sem pabbi hefði eflaust gert) heldur músarbendlinum. Smellti meira að segja til þess að sýna að ég væri með á nótunum.
Ekkert gerðist.
Mér var snarlega vikið til hliðar, lærimeistarinn benti ekki á karlinn heldur einhvern punkt fyrir ofan hann. Í ljós kom nafnaruna.
„Þú þarft að samþykkja þetta fólk sem vini.“
Héðan gat ég tekið boltann, því að allt sem gera þurfti var að smella á samþykktartakkann. Hinn punktinn tókst mér líka að smella á og í ljós kom að fjöldi manns lækaði bæði myndina af mér og síðuna frá Sjálfstæðum Evrópumönnum.
Ég hallaði mér hróðugur aftur og beið eftir hrósi.
„Ætlar þú ekki að setja neitt efni inn?“
Ég fékk tilsögn í því líka og efnið fór að streyma frá mér.
Á móti flæddu vinarbeiðnirnar inn. Fyrst var þetta fólk sem ég þekki vel. Svo fór að koma fólk sem ég hef heyrt getið, en þekki ekki beint. Loks fjöldi manns sem ég þekki ekki neitt. Allir voru samviskusamlega staðfestir sem vinir.
Ég sendi út örfáar vinarbeiðnir. Til barnanna minna og náinna vina (þau samþykktu öll þegar þau höfðu sannfært sig um að þetta væri ekki plat). Vinir og örfáir ættingjar skiluðu sér mishratt. Anna Bjarna frænka mín var 0,35 millisekúndur að segja já. Ég er vinur hennar númer 103 og líka búinn að læka fyrirtækið hennar, Hundahólma.
Kalli Matt samþykkti mig eftir nokkra daga og mér þótti vænt um það að hann samþykkti sinn gamla og nána vin. Hann á 3.413 nána vini á Facebook.
Ég hef ekki hafnað mörgum beiðnum, helst frá fólki sem ég var ekki viss um að væri til. Ein beiðin kom frá kettlingi, sýndist mér. Við erum ekki vinir.
Ég skil ekkert í því að fólk tali um að Facebook sé tímaþjófur. Að vísu myndi það æra óstöðugan að lesa allt það efni sem hleðst inn á fréttasíðuna af hinu og þessu fólki. En ég hef engan áhuga á því, þannig að allur tíminn fer bara í að setja inn efni um mig, sem annað fólk getur skoðað og lækað.
Hjá Sjálfstæðum Evrópumönnum verður hægt að lesa allt um pottþétt rök með umsókninni og skæting hinna sem á móti eru.
Það er reyndar áhugavert að sjá hvernig kjósendur hafa brugðist við landsfundinum. Maður hefði haldið að Íslendingar almennt hefðu viljað loka þessari Evrópustofu, við Sjálfstæðismenn héldum að það myndi styrkja flokkinn að herða aðeins á ritskoðuninni. Næst ályktum við að leggja beri niður þennan Gallup sem allt þykist vita.
Allt þetta geta menn séð með því einu að verða Facebook áskrifendur og vinir á annars vegar minni síðu og hins vegar síður Sjálfstæðra Evrópumanna.
Við þá sem ekki eru á Facebook segi ég: Komið ykkur inn í 21. öldina.
Facebook er að mínu skapi. Fólk er farið að stoppa mig á götu og segjast átta sig á því að ég sé að fara í framboð. Þegar ég spyr hvernig það viti það segja menn:
„Þú ert kominn á Facebook.“
Nú skil ég hvers vegna er þörf á öllum þessum framboðum.
Það eru margir á Facebook.