Skriftin á veggnum

Sumir segja að Snjáldra eða Facebook sé menningarspillir og tímaeyðsla. Ég segi á móti: Hvað á maður að gera við tímann annað en að eyða honum? Smá innskot: Nýlega las ég um uppgötvun Einsteins á því að tíminn þyrfti ekki að vera fasti. Þetta mun hafa verið kveikjan að aðstæðiskenningunni þar sem tíminn líður hægar þegar maður fer nálægt ljóshraða. Stundum þegar ég hlusta á framsóknarmenn tala finnst mér tíminn líða óskaplega hægt. Kannski er ég þá ómeðvitað að ferðast á ljóshraða, jafnvel þó að ég sitji í sófanum heima.

 Fyrst ég er farinn að tala um tímann heyri ég marga tala um að tíminn líði hraðar eftir því sem maður eldist. Þar hef ég sett fram eftirfarandi lögmál: Manni finnst tíminn líða jafnhratt og hann er sem hlutfall af ævi manns. Þetta virðist flókið en er það alls ekki. Þegar maður er 10 ára finnst manni eitt ár vera jafnlangt að líða eins og fimmtugum manni finnst fimm ár líða. Þetta skýrir það hve hratt árin virðast þjóta hjá, og sérstaklega hvers vegna eitthvað sem gerðist fyrir tíu árum virðist hafa gerst í fyrra eða hitteðfyrra.
Þetta var um tímann. Nú kemur að menningunni. Um daginn fékk ég vinarbeiðni frá gömlum bekkjarbróður mínum, Júlíusi Agnarssyni. Við Júlli vorum saman í þriðja bekk MR. Hann var þá hagvanur meðan ég var að stíga mín fyrstu spor. Júlíus bjó í Skólastræti sem liggur upp að Menntaskólanum. Hann var ekki alltaf stundvís eða duglegur að mæta í tíma, en hversu harðsvíraðir sem menn voru, reyndu allir að mæta á réttum tíma hjá Magnúsi Guðmundssyni, íslenskukennara, sem kallaður var Magnús góði. Einhverntíma kom Júlíus of seint og Magnús spurði, gráti næst: „Júlíus minn, hvers vegna kemur þú ekki á réttum tíma?“ Júlli svaraði um hæl: „Ég missti af strætó.“ Það var tekið gott og gilt.
Ekki hafði ég fyrr samþykkt vinarbeiðni Júlíusar en hann skrifaði skilaboð á vegginn hjá mér. Þetta finnst mér stórkostlegt, fallegt og myndrænt. Næst fór ég að hugsa hvaðan þetta orðasamband um skriftina á vegginn kæmi. Íslendingar nota það ekki mikið, en í Bandaríkjunum heyrði ég það oft.
Ég rifjaði upp tónleika í Laugardalhöllinni árið 1971 þar sem hljómsveitin Writing on the Wall sló í gegn. Enginn vissi neitt um þessa hljómsveit sem tróð upp með Badfinger sem var þekkt hljómsveit sem spilaði væmin lög eftir Paul McCartney og Man sem spilaði einhvers konar sýrurokk. Writing on the Wall kom, sá og sigraði þetta kvöld, en síðan hefur ekkert til hennar heyrst. Að minnsta kosti hef ég ekki spekúlerað í henni fyrr en í kvöld. Ég tek það líka strax fram að ég taldi ekki að tal um „skriftina á veggnum“ væri leitt af nafni hljómsveitarinnar.
Samt verð ég að játa að ég hafði ekki hugmynd um hvaðan þessi talsmáti væri þó að mig grunaði biblíuna og þar reyndist ég hafa rétt fyrir mér. Nánar tiltekið er þetta úr Daníel, 5. kafla. Af því að ég reikna með því að einhverjir lesenda séu eins og ég farnir að ryðga í Daníel ætla ég að birta upphaf 5. kafla hér:
1Belsasar konungur hélt veislu mikla þúsund stórmennum sínum og drakk vín í augsýn þeirra þúsund. 2En er menn tóku að gjörast vínhreifir, bauð Belsasar að sækja þau gullker og silfurker, sem Nebúkadnesar faðir hans hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem, til þess að konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur mættu drekka af þeim. 3Þá voru fram borin gullker þau, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, stórmenni hans, konur hans og hjákonur drukku af þeim. 4Þeir drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.“
Þetta hljómar eins og partý í menntaskóla, nema á mínum tíma var ekki drukkið úr gull- og silfurkerum. (Auðvitað vissi ég ekkert um það, en skólasystkin mín sögðu mér frá því). En nú kemur hápunkturinn:
5Á sömu stundu komu fram fingur af mannshendi og rituðu á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, og konungurinn sá fingur handarinnar, sem ritaði. 6Þá gjörðist konungur litverpur, og hugsanir hans skelfdu hann, og var sem mjaðmarliðir hans gengju sundur, og kné hans skulfu. 7Konungur kallaði hástöfum, að sækja skyldi særingamennina, Kaldeana og stjörnuspekingana. Konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: „Hver sem les þetta letur og segir mér þýðing þess, skal klæddur verða purpura og bera gullfesti á hálsi sér og vera þriðji yfirhöfðingi í ríkinu!“ 8Þá komu allir vitringar konungs þangað, en þeir gátu ekki lesið letrið og sagt konungi þýðing þess. 9Þá varð Belsasar konungur mjög felmtsfullur og gjörðist litverpur, en fát mikið kom á stórmenni hans.“
Maður skilur að kónginum hafi brugðið, hann orðið felmtsfullur, litverpur og kné hans skolfið. Hann efnir þegar í stað til verðlaunasamkeppni og býður verðlaun og þau ekkert slor. Að vísu er 3. yfirhershöfðingi ekki mikill yfirhershöfðingi, en purpuri og gullfestar um hálsinn höfða til flestra (eða gerðu á þeim tíma).
Það sem stóð á veggnum var: Mene, mene, tekel ufarsin.
Ég vil ekki eyðileggja skemmtunina fyrir þeim sem vilja leysa þessa þraut með því að uppljóstra hvað þetta þýðir. Verðlaunum er heitið þeim sem finnur lausnina án þess að svindla. Reyndar hef ég ekki upp á yfirhershöfðingjatign að bjóða, en býðst til þess að styðja sigurvegarann í 3. varaformannsembætti Sjálfstæðisflokksins.
Kem ég þá aftur að Júlíusi og því sem hann ritaði á vegginn. Upplifunin var ekki alveg jafnmyndræn, því að ég vissi ekki af hans skrift fyrr en börnin mín fóru að spyrja um hana nokkrum dögum seinna. Hún var heldur ekki á ókennilegu máli heldur stóð:
„Hæ Benni ! Mannstu þegar við fórum heim til mín og fengum okkur í glas og mættum svo of seint hjá Ólöfu enskuk. frænku þinni ?“
Ég var að vísu ekki kallaður Benni, en samt hugsa ég að hann hafi verið að tala við mig.
En ef satt skal segja man ég þetta ekki.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.