Mér áskotnaðist nýlega Íslensk samheitaorðabók, aukin og endurbætt, glæný útgáfa frá 2012. Af einhverjum ástæðum hef ég aldrei eignast slíka bók á íslensku áður og hugði því gott til glóðarinnar. Það fór svo að ég endurorti eitt frægasta kvæði Íslandssögunnar.
Líklega er nástaða eitt helsta lýti á stíl þeirra sem skrifa að öðru leyti fallegt mál. Sömu orðin koma fyrir aftur og aftur (eins og orðið aftur í orðasambandinu hér að framan, þar sem fallegra væri að rita sí og æ). Ekki síst hættir mér til að ofnota falleg og óvenjuleg orðasambönd í sumum greinum. Sjálfur gæfi ég mikið fyrir forrit sem tæki á slíku og trúi ekki öðru en að það verði til innan tíðar. Þá er gott að hafa samheitaorðabók.
Í fyrrakvöld settist ég keikur með bókina á hnjánum og hóf lesturinn. Í formála kemur fram að Þórbergur Þórðarson notaði orðið sammerkingur í stað samheitis. Meðheiti, samnefni og viðurheitimunu öll vera til, þó að ég gefi lítið fyrir þessi orð, nema samnefnisem hljómar vel.
Formálarnir eru nokkrir og í þeim kemur fram hvernig bókin var unnin. Smám saman bættust fleiri orð í sarpinn og bókin tók á sig mynd. Ekki finnst mér alltaf gagn að því að fá bara eitt orð sem samheiti, en stundum er það betra en ekkert, þó ekki alltaf. Er maður nokkru bættari að fá orðið ker sem samheiti við drykkjarker? Eða að galdramaður sé galdrakarl? Reyndar rættist úr galdrakarlinum sem í ljós kemur að er seiðkarl, töframaður, seiðskratti, kuklari og fleira. Smám saman lærðist mér að lesa úr samheitunum og átta mig á því að skáletrað orð gefur aðalmerkingu. Eykur að vísu mína vinnu en látum það vera. En eru það fréttir að neflangur sé langnefjaður?
Stundum velti ég því fyrir mér hvort bókin fari út fyrir sitt svið með því að segja okkur að kaþólikki sé kaþólskur maður. Er þetta ekki bara merking orðsins?
Snökt er skýrt sem ekki, grátkjökur, grátur eða kjökur. Kjökur er amrandi, grátur eða vol. Amrandi? Alltaf lærist eitthvað nýtt. Að snökta er draga hnísur, grátkjökra, hafa/vera með ekka, kjökra. Ekkert minnst á að gráta. Ef skoðað er orðið að gráta er ekki minnst á að snökta og eru þó alls 26 afbrigði af gráti, sem mér finnst gott, en auðvitað væri gott að snökta endrum og sinnum milli þess sem maður tárast, vöknar um augu, brynnir músum, grenjar, hrín, gólar, beygir af, skælir, tárfellir, kjökrar eða kreistir kjúkur. Mínir kunningjar snökta reyndar oftar en þeir kreista kjúkur, en kannski þekki ég bara þannig fólk með társtokkin augu, skeifu og bólgna hvarma.
Eftir því sem ég les meira í þessari bók (sem er skemmtilegri aflestrar en menn gætu haldið) fyllist ég vissu um að orðabækur eigi að vera hluti af ritvinnsluforritum. Nú orðið nennir enginn því að fletta upp í bókum.
Einhvers staðar las ég að Gunnar Gunnarsson hafi verið með orðabók á borðinu hjá sér þegar hann þýddi sig úr dönsku á íslensku til þess að nota ekki sama orðalag og Halldór Laxness. Þess vegna eru þýðingar Gunnars svona stirðbusalegar.
Ég ákvað að gera eina tilraun. Jónas orti:
Allt er í heiminum hverfult
og stund þíns fegursta frama,
lýsir sem leiftur um nótt
langt fram á horfinni öld.
Þetta verður í þýðingu Benedikts:
Fallvalt er veraldarvolkið
og frægð þín í fyrndinni glæst,
aftur í aldanna geymd
sem elding í svartnætti björt.
Seinni útgáfan er að minnsta kosti sammerkingur hinnar fyrri.