Í dag fékk ég skemmtilega bók senda, Stálmanninn, en það eru æviminningar Guðmundar Arasonar sem var á sínum tíma Íslandsmeistari í hnefaleikum og síðar forseti Skáksambandsins. Guðmundur var málmiðnaðarmaður og stofnaði og rak GA smíðajárn, sem er forystufyrirtæki innflutningi á smíðajárni hér á landi.
Þessa bók þykir mér vænt um að hafa fengið og ég er strax búinn að lesa stóran hluta hennar. Guðmundur varð alltaf öðru hvoru á vegi mínum, þó að hann hafi verið nærri 40 eldri en ég. Hann vann á sínum tíma hjá Landssmiðjunni, þar sem pabbi var forstjóri. Ég man vel eftir Guðmundi þaðan, þó að ég hafi ekki verið nema sex ára þegar pabbi hætti þar. Ég kom oft á skrifstofuna til hans og man vel eftir mörgum sem þar unnu. Eftirminnilegastur var Bessi Bjarnason leikari, en við sungum saman lögin úr Kardemommubænum sem þá var sýndur í Þjóðleikhúsinu, en þeir Ævar Kvaran, Baldvin Halldórsson og Bessi léku ræningjana þrjá.
En þarna voru margir aðrir, Filippus Guðmundsson, Jón Óskarsson, Páll Pálsson og fleiri. Einn var Guðmundur Arason. Guðmundur varð forseti Skáksambands Íslands árið 1966. Á þeim árum var skák þjóðaríþrótt, Friðrik Ólafsson var þjóðhetja. Verðandi og fyrrverandi heimsmeistarar komu oft til landsins. Samt var illa að skákinni búið og hana vantaði heimili. Úr þessu rættist skömmu eftir að Guðmundur tók við Skáksambandinu, en þá keyptu Skáksambandið og Taflfélag Reykjavíkur saman efri hæð í húsi við Grensásveg. Þetta gerbreytti aðstöðu til skákiðkunar í borginni og ári síðar kom ég þangað í fyrsta sinn. Þarna varð mitt annað heimili næstu þrjú árin.
Í skákheimilinu á Grensásveginum varð ég vitni að einhverri undarlegustu uppákomu sem ég man eftir úr félagslífi. Ég var líklega tæplega 14 ára gamall þegar ársþing Skáksambandsins var haldið árið 1969. Af einhverjum ástæðum mætti ég þarna sem áhorfandi. Meðan Guðmundur hélt sína setningarræðu stóð formaður Taflfélags Reykjavíkur, Hólmsteinn Steingrímsson, upp og talaði eins og ekkert væri eðlilegra en að trufla ræðu forsetans. Ekki ætla ég að rekja þingstörfin, en þeim lyktaði þannig að Guðmundur Arason var settur af. Hólmsteinn hafði ekki hugsað dæmið til enda og stakk upp á Guðmundi S. Guðmundssyni, gömlum skákjaxli, sem arftaka, en Guðmundur S. var á þessum tíma drykkfelldur og þessi tillaga fékk engar undirtektir. Þannig vildi til að Egill Egilsson, sem þá var í stjórn TR kom með uppástungu sem leysti vandann. Egill þessi var sérstæður náungi, átti að sögn margar skákbækur en náði ekki góðum árangri. Hann var ekki eins og fólk flest, en reyndar voru margir kynlegir kvistir í skákinni. Þennan dag stakk hann upp á þriðja Guðmundinum sem forseta, Guðmundi G. Þórarinssyni, sem var kosinn og gerði garðinn síðar frægan þegar Fischer og Spassky tefldu sitt fræga einvígi á Íslandi árið 1972.
Ekki líkuðu mér þessi vinnubrögð og aðförin að Guðmundi Arasyni var ómakleg. Hann erfði það þó ekki og árið 1982 var hann gerður að heiðursfélaga í Skáksambandinu.
Oft hitti ég Guðmund Arason síðar og hann tók mér alltaf vel. Honum lá alltaf gott orð til pabba og þeim hvorum til hins. Ég leitaði til Guðmundar þegar ég þurfti að nafngreina menn á ljósmynd af samstarfsmönnum pabba í Landssmiðjunni. Þá hitti ég hann á skrifstofu hans í fyrirtækinu í Skútuvogi. Þá var hann farinn að tapa skammtímaminni, en vel leysti hann úr erindinu. Hann sýndi mér umsögn sem pabbi hafði skrifað um hann, en þannig vildi til að þeir hættu í Landssmiðjunni á sama tíma vorið 1962.
Á myndinni efst í greininni eru ekki mafíósar frá Sikiley heldur samstarfsmenn í Landssmiðjunni árið 1958: Guðmundur Arason, Guðmundur Björnsson verkfræðingur, pabbi og Böðvar Eggertsson, skrifstofustjóri.
Guðmundur segir í bókinni: „Skáklistin hefur heltekið mig ævilangt og gert mig að betri hnefaleikamanni.“ Ég sjálfur kann ekkert í boxi, en ég get sagt að skákin hefur hjálpað mér að hugsa skipulega í lífi og starfi, velta fyrir mér mismunandi möguleikum, nokkra leiki fram í tímann.
Anna Jóhanna, dóttir Guðmundar, var svo indæl að senda mér ævisögu hans sem ég kann henni bestu þakkir fyrir. Hún segir í minningarorðum um föður sinn í bókinni: „Menn fundu í návist hans að þeir skiptu máli því framkoma hans einkenndist af hlýju og virðingu.“ Þessi orð get ég tekið undir heilshugar.