Í fótspor landkönnuða

Þegar ég var strákur heillaðist ég af sögum um landkönnuði í Afríku. Út kom myndablað í flokknum Sígildar sögur þar sem sagt var frá Leitinni að Livingstone, en Livingstone var læknir, trúboði og landkönnuður. Blaðamaðurinn Stanley var gerður út af amerísku blaði til þess að leita að þessum merka manni sem ekkert hafði spurst til í mörg ár. Sagan var af leitinni og fundum þeirra árið 1871 þegar Stanley mælti hin ódauðlega hversdagslegu orð: Doctor Livingstone, I presume. Heima var líka til bókin Hvíta Níl, sem sagði meðal annars frá leitinni að upptökum Nílar þar sem þessir kappar og fleiri koma við sögu. Ekki get ég sagt að ég muni mikið af frásögnunum þar en Viktoríuvatn og Albertsvatn greyptust í hugann.

Fuglarnir

Þess vegna var það draumur að rætast þegar ég sigldi með vinum mínum út á Viktoríuvatn, þetta stærsta vatn Afríku, vatn sem er um það bil 2/3 af stærð Íslands. Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um hversu löng siglingin væri eða hve stóran hluta vatnsins við færum yfir. Það voru ekki margir bátar að veiðum og ég frétti að þessi matarkista sem áður var hefði verið næstum tæmd með ofveiði. Nú eru veiðar bannaðar og fiskimannasamfélögin á Ssese-eyjunum sem við stefndum á eru í upplausn. Líklega voru þarna bara nokkrir veiðiþjófar að reyna að bjarga sér.

Ég hafði spurst fyrir um það hvað það væri langt í miðbaug frá Kampala þar sem við bjuggum en fékk óljós svör, önnur en þau að við værum norðan við þann merka hring. Það olli mér vonbrigðum, því að mig langaði til þess að komast á suðurhvel jarðar. Einn gallinn við baugana sem við ímyndum okkur að umlyki jörðina er að þeir eru ósýnilegir. Ég man reyndar eftir því að einhvern tíma var vitavörðurinn í Hornbjargsvita spurður að því hvaða hvíta röst þetta væri sem sæist undan landi og hann svaraði því að þar væri heimskautsbaugurinn.

Á Viktoríuvatni sáust engir slíkir baugar og það var þess vegna ekki fyrr en ég kom heim aftur að ég komst að því að skammt undan landi skiptum við einmitt um jarðarhvel, fórum frá norðurhvelinu á það syðra. Þó að þetta hafi gerst eftirá gerði það ferðina enn skemmtilegri en ella.

Vigga með húfuna.JPG

Sólin skein þess vegna á hvirflana á okkur og við gættum þess að vera með örugg höfuðföt þannig að ekki fengjum við sólsting. Vigdís sat á dekkinu móti mér með glæsilega, bláa derhúfu merkta Orlando Magic. Vindurinn straukst um vanga og ég hafði orð á því að best væri að halda fast í höfuðfatið. Í því svipti hviðan húfunni af kollinum á Vigdísi. Er hennar að þar að leita, skammt sunnan miðbaugs eins og Grunnavíkur-Jón sagði um handritin sem sukku með skipinu í mynni Seyðisfjarðar.

Stefán skemmti með sögum af því að Valgerður Sverrisdóttir, sem þá var utanríkisráðherra, hefði verið hætt komin á þessum sama báti fyrir um áratug. En þennan dag var allt með kyrrum kjörum og við komumst á leiðarenda.

Þegar ferðin var skipulögð var ég enn ráðherra og það hafði talast svo um að við myndum skoða þróunarsamvinnuverkefni í ferðinni. Þó að mér hefði skolað úr fyrra hlutverki var þessu ekki breytt og það var lærdómsríkt að sjá og heyra hvað gert hefur verið. Á stærstu eyjunni sem nefnist Bugala er bær sem nefnist Kalangala sem er miðstöð Ssese-eyjanna 84. Amin var hrifinn af þessum eyjum og gerði þeim hátt undir höfði.

Ég hef oft verið spurður: Hvað hefur gerst í Úganda eftir að Amin var hrakinn frá? Ekki veit ég það í smáatriðum. Milton Obote, sem var líka glæpamaður tók við, en Amin hafði einmitt velt honum úr sessi. Síðustu 30 ár eða svo hefur Yoweri Museveni verið forseti. Hann er með einhvers konar forsetalýðræði eins og í Rússlandi. Það má kjósa svo fremi að Museveni vinni. Hann er ekki harðstjóri sem lætur taka andstæðinga sína af lífi og manni fannst fólk vera almennt afslappað. Í fyrrahaust brutust út slagsmál á Úgandaþinginu, eins einhverjir muna kannski eftir.

Forsetinn

Museveni kom í opinbera heimsókn til Íslands í september árið 2008. Þó að ráðamenn hafi haft annað að hugsa var samt tekið myndarlega á móti honum. Sagan segir að hann hafi verið afar ánægður með þá virðingu sem honum hafi verið sýnd þegar hann hitti forseta Íslands á Bessastöðum, en átti erfitt með að skilja til hvers hann var að hitta forsætisráðherra í ráðherrabústaðnum. Hann var jú búinn að hitta aðalmanninn og fannst lítið til einhvers ráðherra koma.

Forsetinn hugsar um sína. Ritarinn hans á stóreflis lúxushótel út á eyjunni þar sem við lentum. Aðrir ráðamenn hafa tryggt sér hugguleg strandsvæði. Allt ósköp framsóknarlegt svo við fengum enga heimþrá.

Við hittum skólastjóra og nemendur, embættismenn og kennara. Allir voru sammála um að aðstoð Íslendinga hefði gerbreytt stöðunni í menntamálum. Víða eru námsbækur af skornum skammti, kannski 15 til 30 nemendur um hverja bók. Íslendingar hafa tryggt bækur á hvern nemanda í þessum skólum. Allir höfðu nóg að borða að því að best varð séð, en þegar kannað var næringargildi matarins kom í ljós að samsetningin var einhæf og margt vantaði upp á ráðlagða dagskammta af ýmsum vítamínum og snefilefnum. Þarna hafa Íslendingar líka hjálpað til með uppbyggingu eldhúsa og næringarráðgjöf. Árangur í samræmdum prófum hefur snarbatnað hjá nemendum á eyjunum.

Áhrifamest var að koma á hátíð í landbúnaðarskóla þar sem verið var að brautskrá um 130 nemendur af námskeiði í ræktun grísa og hænsna. Stefán hafði samið við skólastjórann um að nemendur gætu komið um helgar, nýtt sér heimavist og kennarar kennt gegn aukagreiðslu. Þarna voru yfir 100 manns saman komin til þess að fá viðurkenningu á sinni menntun. Margir komu í sínu fínasta pússi, dönsuðu og sungu, og það var greinilegt að þeim þótti mikið til um viðurkenningarskjalið. Í ávörpum kom fram að þau höfðu lært næringarfræði og umönnun, til dæmis um mikilvægi hreinlætis og hvernig vana ætti grísi, en mörg höfðu ekki haft þessa þekkingu áður.

Dansað á eynni

Svo vitnaði skólastjórinn í Esekíel spámann: „Hönd Drottins kom yfir mig. Hann leiddi mig burt í anda sínum og lét mig nema staðar í dalbotninum miðjum. Hann var þakinn beinum. Hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu og ég sá að þau voru fjölmörg, skinin bein, dreifð um dalbotninn. Þá spurði hann mig: „Mannssonur, geta þessi bein lifnað við?“ Ég svaraði: „Drottinn Guð. Þú einn veist það.“ Þá sagði hann við mig: „Flyt þessum beinum spádóm og segðu við þau: Þið, skinin bein, heyrið orð Drottins.“ Honum fannst greinilega að aðstoð Íslands hefði blásið lífi í bein eyjaskeggja.

Við spjölluðum við nokkra innfædda og einn sagði okkur frá sínum uppvexti í norðurhéruðunum, skammt sunnan landamæra Suður-Súdans þar sem lífsbaráttan er hörð. En móðir hans var á lífi, gömul kona, 55 ára að aldri. Þegar við fórum að ræða um mislanga meðalævi sagði hann: „Það er mikil streita sem fylgir því að vera fátækur og þurfa stöðugt að vera að hugsa um, hvort maður fái mat í dag eða á morgun. Ævin styttist örugglega við það.“

Við gistum í snyrtilegu hóteli þar sem hver hjón bjuggu í sínum Afríku-skála. Um morguninn varð mér litið út í því að ég þurrkaði stírurnar úr augunum og sýndist kettir smjúga um flatirnar. Þegar betur var að gáð voru þetta alls ekki kettir heldur bavíanar sem skutust á milli trjánna.

Apar

Hótelið bauð upp á heilsteikta tilapíu, hlývatnsfisk sem væntanlega hefur komið úr vatninu. Okkur varð hvergi verulega meint af matnum, en að mestu fórum við varlega í hann. Grænmeti er þarna miklu ferskara og stökkara en hér á landi.

Á leiðinni til baka í land gustaði aðeins meira en á útleiðinni. Mér varð hugsað til sjóferðar Valgerðar Sverrisdóttur, en hafði ekki orð á neinu til að hræða engan. Þá gerbreytti vélin um hljóð og báturinn hægði á sér. Þetta fannst mér ekki skemmtilegt. Skipstjórinn færði sig aftur á skut og fór að bogra yfir vélinni. Ekki virtist það breyta neinu, en svo lyfti hann hlera á þilfarinu og virti innviðina fyrir sér. Eitthvað var muldrað um að líklega hefði komist sandur í bensínrásina. Ekki veit ég hvernig það gerist, en eftir hálftíma eða svo fór vélin aftur í gang við fögnuð farþeganna.

Varðmenn forsetans

Tíu mínútum seinna slokknaði aftur á traktorshljóðinu og vélin suðaði aftur eins og veikburða býfluga. Á endanum náðum við samt landi og það var ósköp notalegt. Á leiðinni til Kampala ók svo forsetinn framhjá okkur með 30 bíla lest, margir gráir fyrir járnum. Mér fannst það líka ósköp heimilislegt.

Sjá 1. kafla sögunnar: Á slóðum Idi Amins

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.