Eigum við kannski að hætta að smætta?

Þegar ég sá myndina eftir Halldór Baldursson teiknara sem fylgir pistlinum hélt ég að hann hefði lagt forsætisráðherranum orð í munn, ég botnaði ekkert í textanum. Hann minnti mig á tölvusamsettan texta þar sem orð eru sett saman, án sérstakrar merkingar. Dagur B. Eggertsson talaði stundum svona áður en einhver ráðlagði honum að tala minna, eins og talgervill án forritunar.

Svo sá ég að Össur Skarphéðinsson skrifaði á Facebook:

„Okkar ástkæri forsætisráðherra tjáir sig með einföldum og skýrum hætti þannig að hvert mannsbarn skilur:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Ég er að vísu með slaka meðalgreind eins og vel er þekkt og er enn að japla á þessu.“

Aldrei þessu vant var ég sammála Össuri, ég átti mjög erfitt með að skilja þennan texta og trúði varla enn að hann væri rétt eftir hafður. Þegar ég sat á Alþingi fannst mér Katrín eiga tiltölulega auðvelt með að setja fram sinn málstað á skiljanlegan hátt (þó að ég hafi sjaldnast skilið hvers vegna svona greind kona studdi svona skrítinn málstað, en það er annað mál).

Þess vegna fletti ég þessu upp einu sinni enn og það er enginn vafi á því að forsætisráðherrann sagði:

„Ég hef ekki verið og er ekki hlynnt þeirri afstöðu að smætta kerfislægan vanda í einstök siðferðileg álitamál sem eru afleiðing aukinnar einstaklingshyggju og einstaklingsvæðingar stjórnmálanna.“

Þórbergur Þórðarson talaði á sínum tíma um uppskafningu: „Uppskafning í stílshætti er jafngömul steigurlæti mannssálarinnar og getur opinberazt í margskonar teiknum og undrum, eftir upplagi höfunda og menntun.“

Meira um það síðar.

Ég ákvað að skella textanum í þýðingarkerfið gúgúl transleit og hann átti ekki í neinum vandræðum með að skilja ráðherrann: „I have not been and do not support the attitude of reducing systemic problems in individual ethical issues that are the result of increased individualism and individualization of politics.

Það er nefnilega það.

Orðin fram að smætta þekki ég vel. En þar lenti ég í vanda. Ég spurði Vigdísi mína að því hvort það væri henni tamt, rétt eins og í gamla daga var spurt: „Kannast hlustendur við orðið að smætta, að smætta. Miðaldra kona notar orðið ítrekað í stjórnmálaumræðu dagsins.“

Því það er ekki bara kerfislægi vandinn sem Katrín vill ekki smætta. Í umræðum um launamisrétti fyrir nokkrum dögum sagði hún:

„Það er ekki hægt að smætta þetta misrétti niður í eina prósentutölu, hvort sem við erum að tala um leiðréttan eða óleiðréttan launamun.“

En Vigdís kannaðist ekki við orðið. Þá brá ég á þann leik að leita á timarit.is. Þar er margvíslegan fróðleik að finna og ekki sveik sá ágæti vefur frekar en fyrri daginn. Fyrsta dæmið var frá þeim merka fræðimanni Sigurði Nordal, sem skrifaði í Iðunni 3. tbl. 8. árg. 1924.

„En vér nútímamenn vildum fegnir vita meira um höfundinn [að Völuspá]. Það myndi gera kvæðið ljósara og nálægara, án þess að smætta það, og oss myndi fróun i því að geta beint aðdáun vorri til manns, sem vér vissum einhver deili á, og ekki einungis út í nafnlaust tómið.“

Þarna virðist orðið smætta merkja að gera lítið úr. Öll orð Sigurðar í kringum „smætta“ eru tilgerðarlaus, sem bendir til þess að orðið hafi verið honum eiginlegt, þó að ég hafi ekki fundið fleiri dæmi um að hann noti það.

Ég skýt því inn í til fróðleiks fyrir þá sem ekki hafa heyrt kenninguna um hver orti hið magnaða kvæði Völuspá að viti Sigurðar: „Maðurinn, sem mér hefir dottið í hug, er hvorki hirðskáld né söguhetja, en þrátt fyrir það hefir hann ort dróttkvæði og vér vitum nokkur skil á honum og æfi hans. Það er Völu-Steinn í Vatnsnesi í Bolungarvík.“ (Völu-Steinn var sonur Þuríðar sundafyllis í Bolungarvík).

Það líða nærri fimmtíu ár þangað til orðið kemur aftur fram í tímariti. Þá er það Stúdentablaðið, sem þá var með marxískum blæ. Þar er viðtal við Herbert Marcuse sem „ætti ekki að þurfa að kynna fyrir lesendum Stúdentablaðsins. Hann er þekktur sem einn af spámönnum stúdentahreyfingarinnar. Hann hefur m.a. átt þátt í framþróun marxismans með því að tengja hann við Freudisma.“

Einmitt, sá Herbert. Hann segir í þýðingu hins róttæka blaðamanns gg [líklega Gests Guðmundssonar]:

„Vissulega hefur ávallt verið stéttarsvipur yfir ráðandi gildum, en jafnframt hefur ávallt verið viss kjarni í þessum gildum, sem ekki er hægt að smætta niður í stéttarhagsmuni.“ Stúdentablaðið 10. tbl. 1973 49. árg.

Í Dagblaðinu í júlí 1980 segir í grein sem Guðmundur Magnússon blaðamaður skrifaði: „Stjórnar heilinn allri hegðun okkar? Er sálin tóm ímyndun? Er unnt að smætta alla hugsun manna í heilaferli?“ Guðmundur var vissulega róttækur á sínum tíma og hefur kannski lært orðið þá. Ég man ekki hvar hann var í sínu þroskaferli árið 1980.

Sama ár kemur orðið fyrir í grein í Stúdentablaðinu: Instant Marxismi – leiðbeiningar fyrir byrjendur.

Ekki eru samt mörg dæmi um að smætta árin á eftir. Þó má finna í tímariti Einars Olgeirssonar, Rétti, þar sem Gestur Guðmundsson segir í grein árið 1988:

„Brynjólfur [Bjarnason] hefur sett fram skoðun á þessum efnum, sem kalla má „þekkingarfræðilega tvíhyggju samfara verufræðilegri einhyggju. í þessum nafngiftum felst þetta: Við hljótum að gera skarpan greinarmun á vitund og hlutveruleika; þessi hugtök og greinarmunur þeirra eru óhjákvæmilegur hluti af hugmyndum okkar um heiminn, og það er ógerlegt að skýra annað hvort þeirra út frá hinu eða smætta annað í hitt eins og stundum er sagt.“

Aftur kemur talgervillinn í hugann. Ég veit ekki við hverja Gestur talaði, en þetta var aldrei sagt þegar ég heyrði.

Fyrsta dæmið í Morgunblaðinu kom árið 1986 í viðtali JÓ við Kjartan Pierre Emilsson eðlisfræðinema um skilning vísindamanna á raunveruleikanum.

Áratuginn 1990-1999 kemur orðið smætta 30 sinnum fyrir á timarit.is, 120 sinnum árin tíu þar á eftir og 59 sinnum frá 2010-18, en þess ber að geta að ekki eru öll tímarit komin inn frá þeim tíma. Gúgúll gefur um 8.310 niðurstöður, en þegar ég fletti þeim reyndust þær bara vera 73. Ég skil heldur ekki Gúgúl.

Orðabók Háskólans á netinu gefur þetta sem elsta (og reyndar eina) dæmi um að smætta: „Hins vegar máttu íhuga að sú mynd sem þú gerir þér af verkinu eftir lesturinn er alröng, altént verulega smættuð.“ Það er úr Tímariti Máls og menningar og höfundar eru Sigríður Rögnvaldsdóttir og Jón Karl Helgason.

Þá datt mér í hug að leita í raunheimum og fletti upp í orðabókum á heimilinu. Íslensk orðabók þekkir orðið, en gefur stuttaralega skýringu: Smætta -aði s  • minnka, draga úr.

Íslensk orðsifjabók segir aftur á móti:

Smætta(st), † smę́tta(st) s. ‚minnka, draga úr‘; sbr nno. smætta ‚minnka, skipta smátt‘ sk. smár; líkl. myndað af hvk. lo. smátt fremur en no. ein og smátt og smátta, sbr. smáttka og smækka og fár: fækka og fætta.

Orðmyndin smę́tta finnst mér benda til þess að orðið sé gamalt og miklu eldra en notkun Sigurðar Nordals, þannig að hann hefur ekki samið orðið, heldur kynnst því með því að kafa í fornbókmenntir og leiða það aftur inn í málið. Gúgúll þekkir þessa mynd samt ekki, enda aldrei talinn mikill fræðingur í forníslensku.

Ekki tókst mér að finna meira um smę́tta, en þennan einkennilega staf ę́ hafði ég ekki séð áður.

Wikipedia á frönsku segir að hann heiti „le E ogonek“ og sé notaður í litháísku og nokkrum málum sem ég þekki ekki. En nú er ég kominn út fyrir efnið.

Samt kviknaði aðeins ljós hjá mér. Ég þekkti að vísu ekki orðið að fætta, en Halldór Laxness mun hafa notað það í Gerplu og víðar: „Bíða nú ekki hraustra dreingja meiri frægðarverk í staðnum að sinni, og fættast æfintýr.“ Aftur á móti kannast allir betur við fækka, rétt eins og við þekkjum orðið smækka, sem mér sýnist nokkurn veginn sömu merkingar, en hefur ekki á sér yfirbragð hins menntaða manns.

Loks fann ég á Vísindavefnum þessa skýringu: „Smættun (e. reduction) er þegar hugtak eða kenning er skýrð eða skilgreind með öðru hugtaki eða kenningu sem er talin liggja henni til grundvallar.“

Þá er tvennt til. Annað hvort smætta ég þennan pistil, eða vitna aftur í Þórberg:

„Einkenni allrar uppskafningar í rithætti er hofróðulegt tildur og tilgerð, skrúf og skrumskælur, í hugsun, orðavali og samtengingu orða.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.