Leitin að töfralausninni

Forsætisráðherra sagði í þingræðu fyrir skömmu að því miður væru „engar töfralausnir“ til í gjaldmiðlamálum á Íslandi. Í sömu setningu kom fram sá skilningur ráðherrans að því miður lytu allir gjaldmiðlar fyrst og fremst hagstjórninni. Þannig tókst að koma tvennum áhugaverðum skilaboðum á framfæri á örfáum sekúndum.

Skoðum yfirlýsingu forsætisráðherrans betur. Greinilegt er að henni finnst það mjög miður að hagstjórn sé ekki galdrar þar sem hægt er að veifa töfrasprota og leysa málin eitt skipti fyrir öll. Undirliggjandi er að fyrst engar töfralausnir séu til hafi ríkisstjórnin afsökun fyrir því að láta reka á reiðanum í efnahagsmálum.

Fyrir fimmtán árum birtist frétt í Morgunblaðinu um að í Norður-Kóreu væri búið að finna upp tæki sem læknaði næstum öll mannanna mein. Gimsteinn gæti breytt geislum sólarinnar í rafsegulmagnaða strauma. Tækið læknaði að sögn fréttastofu Norður-Kóreu, 98,8% sjúklinga á nokkrum klukkustundum, meðal annars fólk sem fengið hafði heilablóðfall og hjartaáfall. Fréttin endaði á því að heilbrigðiskerfið í Norður-Kóreu væri reyndar hrunið til grunna.

Hjörtun slá kannski ekki alveg í takt í vinstri stjórnunum í Reykjavík og Pyongyang, en uppgjöfin er svipuð, þó að hagkerfið sé ekki hrunið til grunna á Íslandi. Hættumerkin hrannast þó upp. Lausatök í ríkisfjármálum og gjaldmiðill sem fellur um 10% á tveimur mánuðum. Við bætast kröfur verkalýðsfélaga um rúmlega 100% hækkun lægstu launa og hækkun skattleysismarka sem leiðir af sér hrun tekjuskattkerfisins. Æi, hvað það væri gott að hafa töfralausn.

Skoðum hinn hlutann í yfirlýsingu forsætisráðherra um að allir gjaldmiðlar lúti fyrst og fremst hagstjórninni. Hvað segir þá 10% gengisfall á tveimur mánuðum um hagstjórnina? Evran lýtur samt sem betur fer ekki íslenskri hagstjórn.

Í annarri nýlegri ræðu vill forsætisráðherra „breyta samfélaginu yfir í að vera hugvitsdrifið hagkerfi en ekki auðlindadrifið.“ Þetta er vissulega göfugt markmið, en á undanförnum árum hafa íslensk hugbúnaðar- og þekkingarfyrirtæki flutt störf úr landi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að gengi krónunnar hefur valdið því að það er ódýrara. Þannig leiðir óstöðugleiki krónunnar til færri starfa á því sviði sem forsætisráðherra vill réttilega efla.

Seinna í sömu ræðu sagði ráðherrann: „Gjaldmiðillinn er tækið en hagstjórnin þarf að hanga á fleiri þáttum.“ Bíðum við. Hvort skyldi gjaldmiðillinn vera tæki til hagstjórnar eða lúta hagstjórninni? Ef yfirmaður Seðlabankans er ekki viss, þá er ekki von á afrekum í efnahagsmálum.

Vonandi eru næringarráðgjafar og áfengisfulltrúar ekki á sömu línu og ríkisstjórnin: „Veistu, það eru engar töfralausnir til og þess vegna skaltu bara halda áfram að borða og drekka eins og þér sýnist.“


Birtist í Morgunblaðinu 1.11. 2018

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.