Ég hef ekki mikið traust á félagsfræðingum – Minningar um Jón Hafstein Jónsson stærðfræðing

Á mánudaginn 29. október var góðkunningi minn Jón Hafsteinn Jónsson menntaskólakennari jarðsunginn. Jón var merkilegur maður og mikill stærðfræðingur. Ég á um hann góðar minningar og ég heyrði líka margar frásagnir af honum, því hann var einn þeirra sem setti svip á samfélagið.

Jón Hafsteinn var fæddur árið 1928, sonur Jóns Jónssonar og Olgu Sigurbjargar Jónsdóttur að Hafsteinsstöðum í Skagafirði. Hann er náskyldur Hafstaðsfólkinu, sem sumt er svo aftur skylt mér. Jón var mikill námsmaður og varð stúdent árið 1948 frá Menntaskólanum á Akureyri með góðum vitnisburði. Svo vill til að ég þekkti ýmsa samstúdenta hans, til dæmis Karl Ómar Jónsson verkfræðing og framkvæmdastjóra Fjarhitunar, Indriða Pálsson lögfræðing og forstjóra Skeljungs og Jón Erling Þorláksson tryggingastærðfræðing.

Við brautskráningu stúdenta brýndi Þórarinn Björnsson skólameistari frá Víkingavatni, fyrir þeim að gæta sín „fyrir hættum hins akademíska frelsis og jafnframt að vara sig á að vera eigi of ginnkeyptir fyrir kennisetningum, eins og svo mörgum skólagengnum mönnum virðist hætta til.“ Þórarinn var Framsóknarmaður og hefur viljað gæta þess að nemendur yrðu ekki kommúnistar, eins og mörgum skólagengnum mönnum hætti til. Ekki hafði hann erindi sem erfiði með hinn unga stúdent Jón Hafstein Jónsson, sem var stoltur sósíalisti alla sína tíð.

Í Danmörku lagði Jón stund á stærðfræði og eðlisfræði og lauk prófi á fimm árum með mjög góðum vitnisburði. Sérstakt hrós hlaut hann fyrir prófritgerð sína, sem þótti með afbrigðum. Ég held að Jón hafi fengið gullpening stærðfræðideildarinnar fyrir ritgerðina.

Hann sneri svo til Akureyrar og kenndi stærðfræði við Menntaskólann á Akureyri í 33 ár. Hann var vinsæll kennari hjá góðum nemendum. Björn Dagbjartsson segir í viðtali við Dag árið 1988: „Sá kennari sem mér er þó minnisstæðastur er Jón Hafsteinn Jónsson stærðfræðikennari. Hann kenndi okkur mjög mikið og lagði sig feikilega fram til að ná til okkar strákanna. Jón var mjög kröfuharður kennari en gerði bæði kröfur til sín og nemendanna.“

Ágætur félagi minn sagði mér frá því að þegar Jón kom í tíma hjá hans bekk hafi hann virst algerlega úti á þekju og ekkert vitað hvar hann var staddur. Þá hafi hann brugðið sér í bakherbergi og komið þaðan út íklæddur kennarahlutverkinu, albúinn til kennslu.

Jón Hafsteinn var stuðningsmaður Alþýðubandalagsins og var lengi vel og kannski alla tíð sannfærður um yfirburði sósíalismans. Guðmundur hagfræðingur Ólafsson, Lobbi, sagði svo frá: „Við höfðum þarna norður á Akureyri svokallaðar sellur, við sem vorum róttækir hittumst i litlum hóp og lásum hin marxísku fræði. Við fengum stundum gesti að sunnan, Einar Olgeirsson kom oft og Brynjólfur Bjarnason líka.“

Sjálfur man ég þegar Jón sagði mér frá ferð sinni til Austur-Þýskalands: „Ég var með meðmælabréf frá Einari Olgeirssyni með mér og þegar ég dró það upp og sýndi landamæravörðunum þá breyttist viðhorf þeirra mikið. Einar naut mikillar virðingar þar.“ Það var nánast barnsleg hrifning í málrómi Jóns þegar hann sagði mér frá þessari upplifun. Annars töluðum við aldrei saman um pólitík.

Jón var esperantisti og hafði mikinn áhuga á útbreiðslu þess máls. Ég hugsa að það hafi verið vegna þess að hann hafði einlægan áhuga á því að fólk af ólíku þjóðerni gæti rætt saman sem jafningjar. Í blaðagrein skrifaði hann: „Það er sannarlega tímabært að kanna, hvort ekki sé skynsamlegt að gera esperanto að námsefni íslenskra grunnskólabarna.“ Þessi tillaga fékk litlar undirtektir.

Nemendur vildu auðvitað gera flest annað í tímum en læra námsefnið. Björn Jósep Arnviðarson sagði í viðtali við Dag 1989: „Svo vildi til að á byltingarafmælinu áttum við að sitja hjá Jóni Hafsteini í fjóra tíma og nema stærðfræði. Við hófum strax og inn í tímann var komið að ræða byltingarafmælið og heimspólitíkina og náðum því að spjalla í þrjá tíma. í upphafi fjórða tíma áttar hann sig og segir: Nei, drengir mínir, þið haldið mér ekki uppi á snakki. Og síðan byrjaði hann að kenna og fór í gegnum fjögurra tíma pensúm á einum tíma!“

Jón Hafsteinn var öllum nemendum sínum minnisstæður. Í MA kenndi líka Stefán Þorláksson sem var afar sérstæður maður og kenndi bæði stærðfræði og þýsku. Það var í frásögur fært þegar Jón hallaði sér einu sinni að Stefáni í frímínútum og sagði: „Hvernig ætli standi á því Stefán að það eru engir kynlegir kvistir í kennslunni lengur eins og í gamla daga?“

Ég kynntist Jóni Hafsteini þegar ég kom heim frá námi og hóf kennslu við Verslunarskólann. Fljótlega var ég kominn í félagsstörf raungreinakennara. Ég man ekki betur en við höfum setið saman í stjórn Félags raungreinakennara í framhaldsskólum. Að minnsta kosti töluðum við oft saman í síma um kennslu og Jón leysti mig tvívegis af við kennslu. Það var klókindaleikur af beggja hálfu. Við Þorvarður Elíasson skólastjóri vildum að Jón kenndi við Verslunarskólann, ef hann flytti til Reykjavíkur, og hann vildi tryggja sér starf, þegar hann flytti suður, sem varð árið 1986. Auðvitað græddi Verslunarskólinn á þessu, því að allir bestu skólarnir hefðu viljað fá kennara eins og Jón.

Hann var líka áhugasamur um stærðfræðikeppni í framhaldsskólum og á alþjóðlegum vettvangi og gaukaði stundum að mér tillögum um dæmi sem leggja mætti fyrir. Eitt dæmi frá Jóni man ég að var notað í Eystrasaltskeppni í stærðfræði fyrir um 20 árum. Svo fór að öll lið gátu leyst það fullkomlega nema Íslendingar sem gerðu smávillu. Lettneskum kollega mínum varð að orði þegar hann sá niðurstöðurnar: „Íslendingar eru að minnsta kosti heiðarlegir.“

Jón Hafsteinn var kröfuharður kennari og um margt þótti hann hafa gamaldags viðhorf. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Jón: „Ég hef ekki mjög mikið traust á félagsfræðingum og þeirra störfum.“ Honum fannst meðalmennskudýrkun ganga fram úr hófi og þótti lítið til þess koma þegar sett var fram skólastefna um að ekki mætti mismuna nemendum eftir „andlegu eða líkamlegu atgervi.“

Einn aðalvandi í samfélaginu væri: „Tilhneiging til að hampa undirmálsfólki, einkum á sviðum, þar sem erfitt er að koma að hlutlægu mati. Þessu tengist árátta til að ofsækja einstaklinga, sem sýna yfirburði og gera kröfu til þess að undirmenn og samstarfsfólk standi í stöðu sinni.“

Jón var óhræddur við að gera kröfur til nemenda og það var á orði haft að nemendur frá Menntaskólanum á Akureyri væru vel undirbúnir í stærðfræði þegar þeir hófu nám við Háskóla Íslands.

Hann skrifaði allmargar greinar í blöð og var ómyrkur í máli: „Gildi stærðfræðinnar sem hjálpartækis fyrir aðrar vísindagreinar fer svo ört vaxandi að hver sú deild menntaskólastigsins sem sniðgengur hana er dæmd úr leik og stúdentar úr slíkri deild hafa ekki jafna möguleika og aðrir þegar í háskóla kemur.“ Sem sagt mála- og félagsfræðideildir eru dæmdar úr leik.

Til þess að halda uppi miklum gæðum ætti að: „hætta að setja kennslufræðileg námskeið ofar raunverulegri fagmenntun kennara. En eins og nú er þarf einstaklingur með doktorsgráðu í stærðfræði frá virtum háskóla og afburða kennsluferil að sæta lakari starfskjörum en annar með BA-gráðu og einhverjar námskeiðsnefnur í uppeldis og sálarfræði.“

Jóni Hafsteini fannst í blaðagrein lítið koma til eyðublaðs í grunnskólum þar sem kennarar áttu þar að láta koma fram hvort viðkomandi börn hefðu „viðunandi stöðu í grunnfærni eða ekki“ og spurði hve margir yfirmenn skólans hefðu lesið þetta gullkorn áður en það var prentað.

Í sömu grein skrifaði Jón: „Öskurstíllinn í íþróttaþáttum sljóvgar vafalaust smekk ungra og gamalla fyrir máli og kennir þeim að taka mótþróalaust við tískumálfari unglinga…“

Við Jón Hafsteinn vorum sammála um að nauðsynlegt væri að halda uppi ákveðnum kröfum í stærðfræði. Ég sagði oft í hálfkæringi þegar ég var kennari við Verslunarskólann að það væru bara ég og gömlu Stalínistarnir, Jón Hafsteinn og Sigga Te (Sigríður Theódórsdóttir, eðlisfræðikennari við MH) sem vildum halda upp standard og gera kröfur til kennara og nemenda.

Við sem sátum í stjórn Raungreinakennarafélagsins sáum að brýn þörf var á því að bæta þekkingu kennara og stóðum fyrir námskeiðum. En þeir sem mættu voru menn eins og Jón Hafsteinn Jónsson, Skarphéðinn Pálmason, Þórir Sigurðsson, Gylfi Guðnason og Þórarinn Guðmundsson, best menntuðu og bestu kennarar landsins. Þeir sem þurftu mest á þekkingu að halda sátu heima.

Jón Hafsteinn skrifaði líka: „Ég tel að stærðfræðikennslan eigi að leggja á það sérlega ríka áherslu að venja nemendurna á að ráðast gegn vandamálum með rökræna yfirvegun að vopni.“ Þetta held ég að sé einmitt mikilvægasti þáttur stærðfræðikennslunnar. Fæstir þurfa nokkurn tíma að diffra eða reikna flatarmál hrings, en flestir þurfa einhvern tíma að ráðast gegn vandamálum. Þá væri gott að hafa rökræna yfirvegun að vopni.

Jón var giftur Soffíu Guðmundsdóttur tónlistarkennara. Ég hitti þau hjón alloft á tímabili og á aðeins góðar minningar frá þeim samskiptum. Þau hjón voru samstiga í pólítíkinni, en Jón sagði mér það einu sinni að þegar þau hefðu eignast einhverja peninga hefðu þau ákveðið að fjárfesta í atvinnulífinu og juku við sinn hlut í Hampiðjunni en Soffía hafði erft hlutabréf í henni. Þetta færði mér heim sanninn um að Jón var sósíalisti vegna þess að hann vildi öllum gott, ekki vegna þess að hann væri á móti einkaframtakinu.

Jón gat verið gamansamur. Í viðtali sagði hann frá íhaldssömum kollega sínum: „Kennarar voru nú misfljótir að tileinka sér tölvutæknina við kennsluna, ég man eftir einum sem þrjóskaðist við að nota lógaritmatöflur fram eftir öllu. Það var löngu hætt að selja þetta í bókabúðinni og þurfti að sérpanta sérstaklega fyrir bekkinn sem hann kenndi. Þetta var orðið svo úrelt fyrirbæri að þegar nemendur hans komu í bókabúðina og báðu um lógaritmatöflurnar var þeim vísað út í apótek.“

Jón var af gamla skólanum að mörgu leyti, en hann hafði mikinn metnað fyrir sínum hugaðarmálum, stærðfræði og esperantó. Hann gerði kröfur til annarra en ekki síður til sjálfs sín. Ef ekki eru til baráttumenn gerist aldrei neitt. Þess vegna er mikilvægt fyrir samfélagið að til séu eldhugar eins og Jón Hafsteinn Jónsson.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.