Í dag var ég í veislu sem var haldin í tilefni af því að um þessar mundir eru 70 ár síðan Ragnhildur Pálsdóttir, frænka mín, fæddist. Ragnhildur dó langt um aldur fram fyrir sex árum eftir erfiða baráttu við krabbamein. Þegar ég var lítill voru Ólöf og Páll og dætur þeirra þrjár, Guðrún, Anna og Ragnhildur fastir punktar í tilverunni hjá mér.
Ólöf var móðursystir mín, hún og Guðrún móðir mín voru eineggja tvíburar og góðar vinkonur. Þær töluðust við á hverjum degi ef kostur var á. Upp úr klukkan níu að morgni hringdi önnur í hina. Oftar en ekki byrjaði samtalið svona mömmu megin: „Segirðu nokkuð?“ Stutt þögn. „Ekki ég heldur.“ Eftir þetta töluðu þær saman í klukkutíma. Síðar urðu þessi símtöl fórnarlömb skrefatalningarinnar hjá símanum.
Í Sporðagrunninu bjuggu þessar frænkur mínar og tóku þátt í að ala mig upp með fleiri frænkum. Ég leit upp til allra þessara stóru frænkna frá fyrstu tíð enda voru þær einstaklega skemmtilegar og góðar við litla frænda sinn, í minningunni að minnsta kosti. Páll pabbi þeirra var einstaklega barngóður og taldi ekki eftir sér að hafa börn í eftirdragi. Hann var reyndar afskaplega góður við alla minni máttar. Hann leyfði Hauki pressara, sem var kynlegur kvistur í Reykjavík, að fá skyrtur frá sér til þess að strauja. Ekki vildi betur til en að ein skyrtan lenti of lengi undir straujárninu og kom til baka með brunabletti. Þegar Páll fann að þessu við Hauk, næst þegar þeir hittust, sagði Haukur: „Kerlingin hefur sagt þér að segja þetta.“ Páll hefði ekki verið að jagast í smámunum eins og einni skyrtu.
Allt frá fyrstu tíð minnist ég Páls sem eins þeirra manna sem ég hafði mest gaman af að hitta. Hann var reyndar ekki pabbi Guðrúnar, en það breytti engu, hann gekk henni í föðurstað. Páll varð ekki gamall maður, hann dó fyrir rúmlega 30 árum, 68 ára gamall. Hans var sárt saknað.
Þær systur voru tíðir gestir heima í Laugarási og við hjá þeim í Sporðagrunni. Guðrún Guðjóns lenti auðvitað í því sem elsta barn þeirra systra, Guðrúnar og Ólafar, að hennar mismæli voru í minnum höfð og í frásögur færð. Hún var með „listaverk“ í eyranu og þegar þulurinn í útvarpinu talaði um „landið helga“ fyrir jólin galli í Guðrúnu: „Er það Helga mágkona?“
Anna var einu sinni sem oftar í heimsókn í Laugarásnum og varð það á að brosa af litlu tilefni. Heimasætunni líkaði það að vonum illa og sagði: „Af hverju ertu að brosa? Þú getur bara brosað heima hjá þér.“ Var það síðan haft að orðtaki í mínum föðurhúsum.
Myndin sem fylgir þessari grein var tekin árið 1961 þegar Guðrún var á leiðinni til Bandaríkjanna í heilt ár í námsferð á vegum Rótarý. Þegar hún kom heim aftur hafði hún frá mörgu að segja. Bandaríkjamenn sögðu ekki „How do you do?“ eða „I beg your pardon“ heldur „Hi“ og „what?“. Áður en hún kom heim hitti hún Kennedy Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu. Þetta var löngu áður en Bandaríkin komust í þjóðleið Íslendinga. Þeir sem þangað fóru voru sannarlega sigldir menn.
Á myndinni er Anna lengst til vinstri, svo Guðrún og loks Ragnhildur.
Maður lítur óhjákvæmilega upp til eldri frænkna sinna. Þegar ég var strákur var Ragnhildur nógu gömul til þess að vera nánast fullorðin í mínum huga en samt ólík öðrum sem fylltu þann flokk. Hún kunni betri skil á hljómsveitum og tónlistarmönnum en aðrir „fullorðnir“ sem ég þekkti. En þó að ég liti upp til hennar talaði hún við mig eins og jafningja. Það var ekki lítill heiður þegar hún benti mér á, að við værum bæði táningar í nokkra mánuði, ég þrettán og hún nítján ára.
Við vorum í örskamma stund á sama tíma í Kaupmannahöfn þegar við Siggi Kristjáns vinur minn vorum þar átján ára gamlir (Siggi var að gifta sig í gær, það voru skemmtilegar fréttir). Það vildi svo til að hún kom í bíó á sömu mynd og við. Það var einhver amerísk spennumynd sem ég hef gleymt, enda var hún ekki mjög spennandi. Ég þakkaði guði fyrir að hún sá okkur ekki fara á Síðasta Tangó í París.
Ragnhildur var ákveðin kona, hávaxin og glæsileg. Hún valdi sér kennslu að lífsstarfi eins og móðir hennar og ég held að hún hafi verið kennari af guðs náð. Ég man eftir því þegar hún kenndi skólabræðrum mínum í Menntaskólanum í Reykjavík. Einn þeirra, mikill töffari, bað um frí til þess að fara á handboltaæfingu. Ragnhildur þurfti ekki að hugsa sig um þegar hún neitaði, en bauðst til þess að keyra hann á æfinguna eftir tímann, sem hún og gerði. Það tóku ekki fleiri áhættuna á því að biðja um frí hjá henni.
Ragnhildur hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, en ekki alltaf þær sem maður hefði helst átt von á. Stundum síst þær sem við var að búast. Hún hafði oft gaman af vitlausum bröndurum frá hallærislegum grínistum. Þó aldrei þannig að maður þyrfti að skammast sín fyrir hana eins og aðra „fullorðna“. Ragnhildur var ekki bara frænka mín heldur líka góð vinkona. Hún var mjög skemmtileg kona og það var gaman að hitta þau hjónin, Ragnhildi og Rúnar, þegar þau laumuðu út úr sér hverri snilldarlínunni á fætur annarri. Þau voru afar samrýnd og skemmtileg hjón.
Ég var glaður að þau hjón komust í heimsókn til okkar síðasta árið sem hún lifði og sýnt var hvert stefndi. Þau sátu lengi og við hlógum mikið það kvöld. Ég skaust líka til þeirra á aðfangadag. Hann lifir í mínu minni.
Það var líka gaman að hitta börnin hennar Ragnhildar, Rúnar og aðra ættingja og vini í dag. Ég er glaður að þau ákváðu að halda upp á 70 ára afmælisdag „mömmunnar“!
Fallegt hjá þér Bensi minn!
Líkar viðLíkar við