Allir þurfa öðru hvoru að staldra við og íhuga á hvaða leið þeir eru. Ekki bara sem einstaklingar heldur líka við öll sem samfélag. Stundum er talað um að ákveðið fólk sé áhrifavaldar. Við viljum gjarnan geta litið upp til þeirra sem stöðu sinnar vegna eiga að vera til fyrirmyndar. Í gamla daga bar maður virðingu fyrir skólastjórum og kennurum, þeim sem skipuðu æðsta sess í hugarheimi barns og unglings. Jafnvel þegar ég var kominn í háskóla leit ég upp til prófessoranna, þó að á þeim tíma vissi maður vel að þar var misjafn sauður.
Ekkert þótti nemendum að því að kennarar væru strangir, ef þeir voru samkvæmir sjálfum sér. Um leið og þeir urðu ósanngjarnir, til dæmis skömmuðu aðra en þá sem áttu það skilið, fóru efasemdir að vakna. Kennarar sem hegðuðu sér ekki eins og þeir áttu að gera urðu öllum mikil vonbrigði. Enginn fær frí frá því að vera vandur að virðingu sinni.
Smám saman áttaði maður sig á því að þau sem veljast í ábyrgðarstöður eru líka mannleg. Það breytir því ekki að okkur ber öllum að vanda okkur eftir föngum. Í Viðreisn leggjum við sérstaka áherslu á það að stunda málefnalega umræðu og höfum sett okkur viðmið: „Óvönduð orðræða getur valdið skaða og þjáningu og í sumum tilfellum varðar hún við lög. Hugsum áður en við tölum eða sendum skilaboð frá okkur … notum jákvæða orðræðu í riti, á samfélagsmiðlum, í ræðustól, í viðtölum, í kosningabaráttunni, á þingi og í ríkisstjórn. Orðfæri okkar á að vera uppbyggilegt og jákvætt. Við skulum fjalla mest um framtíðina, lausnir og hvatningu. Við ætlum að vera góðar fyrirmyndir og við ætlum að byggja upp traust og trúverðugleika.“
Einhvern tíma hef ég örugglega fallið á þessu prófi, en staðreyndin er sú að mörgum finnst lítið fútt í flokki sem ekki kemur fram með sleggjudóma, fer mjúkum höndum um andstæðingana, reynir að finna kjarna málsins og samhengið milli orsakar og afleiðingar. Fljótlega eftir að ég stökk út í sundlaug stjórnmálanna heyrði ég brigslyrði um annarlegar hvatir sem lægju að baki okkar málflutningi og gerðum. Þá er mannlegt að vilja svara í sömu mynt.
Á undanförnum árum hefur yfirvegun verið á undanhaldi í stjórnmálum, viðskiptum, kjarabaráttu og dægurmálaumræðu. Þau sem til forystu veljast á þessum sviðum bera ábyrgð. Enginn hefur áhuga á forystumanni sem hefur ekkert fram að færa, en við berum líka öll ábyrgð á því að kjósa foringja sem bera virðingu fyrir staðreyndum, setja ekki fram kenningar sem byggja á „hliðstæðum veruleika“ og gera lítið úr þeim sem hafa aðra skoðun. Allir vita hvernig fór fyrir samfélaginu þegar útrásarvíkingarnir buðu efnahagslögmálunum birginn. Meðvirkni fjölmiðla og stjórnmálamanna olli því hve langt firringin gat gengið. Við megum aldrei gleyma því.