Góður náungi kvaddur – Sigurður Svavarsson

Ég fór í jarðarför í gær. Önnur jarðarför á jafnmörgum vikum. Hefði þurft að vera í tveimur í viðbót ef vel ætti að vera. Kannski er maður að komast á þann aldur að jarðarfarir verða daglegt brauð. Jarðarfarir eru snjöll uppfinning. Þær gefa manni tækifæri til þess að eiga stund þar sem maður kveður hinn látna í huganum. Það er gagnleg stund, hvort sem maður þekkir þann sem dó mikið eða lítið.

Fyrir hefur komið að ég hafi farið jarðarför fólks sem ég hef aldrei hitt. Þá eru það foreldrar eða aðrir mjög nákomnir vinum mínum. Mér þótti vænt um það þegar vinir mínir komu í jarðarför mömmu. Svo ef vel ætti að vera þyrfti ég eflaust að fara í miklu fleiri jarðarfarir, en … Satt að segja er ég ekki mikill jarðarfaramaður, þó að ég hafi enga fóbíu gegn jarðarförum.

Svo les ég ekki Moggann lengur og missi stundum af því þegar fólk deyr. Það er auðvitað leiðinlegt og ekki gott ef maður spyr um heilsufar einhvers sem er dáinn. Hitt er litlu skárra. Einu sinni spurði maður mig að því hve langt væri síðan pabbi hefði dáið. Þá var pabbi enn á lífi og í fullu fjöri. Nokkrum dögum seinna lagðist hann aftur á móti banaleguna. Manntetrið sem spurði gat auðvitað ekkert gert að því, en ég á erfitt með að sjá hann í réttu ljósi síðan. Kannski er hann líka dáinn. Hvað veit ég?

Í gær var Sigurður Svavarsson jarðsunginn. Athöfnin var falleg og eftirminnileg. Við Sigurður vorum kunningjar, en ég þekkti Pétur bróður hans vel á sínum tíma. Pétur var giftur Önnu Pálsdóttur, frænku minni, þannig að náfrænkur mínar voru enn nánari frænkur Sigurðar. Hannesi móðurbróður Sigurðar er ég líka ágætlega málkunnugur. Nú eru fimmtíu ár frá því að ég keypti fyrst ljóðabók eftir Hannes. Hann er stórskáld.

Auðvitað kom ég seint. Ég kem alltaf of seint í jarðarfarir. Þó að Hallgrímskirkja sé stór var hún samt troðfull. Sem ég mjakaði mér meðfram veggnum hægra megin sýndist mér eitt sæti vera laust, en þó kannski ekki svo ég hélt áfram. Fólkið sem var á undan mér náði líka litlum árangri í sætaleit, þannig að ég sneri við í von um að kannski yrði bætt við stólum aftast, en spurði samt til öryggis hvort sætið hálfa væri laust.

Svo reyndist vera og ég mjakaði mér eftir bekknum. Maðurinn vinstra megin við mig sat þannig að jakkinn hans lá yfir sætinu mínu og sýndi engin merki um að hagræða sér, en virtist þó ekki feitur. Ég lét lítið fyrir mér fara, en allt í einu spratt maðurinn upp og fór út úr bekknum. Hann hafði komið auga á eyðu tveimur bekkjum framar og færði sig þangað. Fyrst ætlaði ég að móðgast, en tók svo eftir að hann hafði setið bakvið súlu. Hún skipti mig engu, ég átti ekki von á mikilli sýningu.

Fyrir rúmu ári bar fundum okkar Sigurðar saman í Vinafélagi Árnastofnunar. Hann var formaður og ég áhugamaður í sal. Verkefni Vinafélagsins var að borga viðgerð á Flateyjarbók, þjóðargersemi. Sigurður lýsti tilraunum sínum til þess að fá styrktaraðila. Ég er ekki besti betlari í heimi, en þarna var greinilega viðvaningur á ferð. Hann hafði leitað á náðir verkalýðshreyfingarinnar, en forystumenn hennar sáu enga ástæðu til þess að hún kæmi að því að varðveita söguna. Ég lofaði honum að sjá til hvað ég gæti gert. Svo fór að ég kom því í kring að ríkið veitti fimm eða sex milljónum í þetta þarfa verkefni. Þjóðin má aldrei týna sögunni og þetta er verðugt verkefni á fullveldisári. Betra að nýta auðinn í þetta en tildursýningu á Þingvöllum.

Útfararskráin var einstök. Hún var í lit, sem er fátítt en ekki einsdæmi. En hún leit út eins og bók í kápu. Það var vel við hæfi í útför útgefandans. Ég vissi af góðum bókum sem Opna gaf út, en sé núna að þær eru miklu fleiri en ég áttaði mig á. Margar bækur sem ég hef haft gaman af að lesa komu úr smiðju Sigurðar. Það er gaman að handfjaltla, lesa og gefa út góðar bækur.

Sálmarnir voru fallegir og í seinni hluta útfararinnar voru leikin og sungin lög eftir KK, Megas og Bubba. Magga Stína söng Tvær stjörnur fallega og KK flutti tvö af sínum lögum. Mér finnst vel við hæfi að hafa fleira en sálma í útförum. Þær eiga ekki að vera drungalegar, þó að þær séu auðvitað alvarleg stund. Stundum bregða prestar fyrir sig kímni í jarðarförum. Það er vandmeðfarið. Einn ofnotar þetta stílbragð, en best fer á því að beita því í hófi eins og öðrum brögðum. Presturinn sem jarðsöng í gær var góður, skýrmæltur og talaði fallega. Í minningarorðunum kom vel fram að Sigurður var góður náungi, hlýlegur maður með mikinn áhuga á því sem hann tók sér fyrir hendur.

Ég hugsaði um minningargreinarnar sem ég hafði lesið um morguninn. Mig langaði til þess að lesa þær og varð mér út um blaðið. Þá sá ég að Óttarr vinur minn Proppé varð fimmtugur í gær. Hefði reyndar séð það á FB líka, en hringdi í hann óskaði honum til hamingju og bauð mér í kaffi til hans. Þó ekki afmæliskaffið, sem ég veit ekki hvort var, því að hann var líka í kirkjunni. Þeir hafa unnið saman hjá Máli og menningu, Sigurður og Óttarr, tveir öðlingar.

Oftast er það þannig að fólk er eins og maður hefur kynnst því, þó að kynnin séu ekki mikil. Sigurður var góður gæi og gleðipinni. Ég þekkti ekki þá hlið á honum, en hún kom mér ekki á óvart. Ef minningargrein er vel skrifuð er ein nóg til þess að gefa mynd af manninum. Í gær voru margar vel skrifaðar greinar.

Presturinn þuldi að við værum komin af jörðu og yrðum aftur að jörðu. Ég hef aldrei skilið það fyrra, en það seinna er auðskilið. Svo er ég alls óviss um að við rísum aftur upp af jörðu, finnst það reyndar ólíklegt, en það truflar mig ekkert að aðrir trúi því. Svo söng kórinn Allt eins og blómstrið eina og einn og einn eða kannski ein og ein, sungu með.

Kistan var borin eftir endilangri kirkjunni eins og vera ber. Líkburðarmennirnir átta gengu ákveðið og heldur hraðar áfram en vant er. Einhverjir áttu fullt í fangi við burðinn, svona kista með stórum manni er ekki létt. En allt fór það vel og smám saman fylktu kirkjugestir sér á eftir út. Margir struku tár af hvarmi. Ég á alltaf erfitt með að gráta ekki í jarðarförum, hvað þá þegar maður sem átti margt eftir óunnið deyr fyrirvaralaust. Það var Siggi bróðir minn sem sagði mér þessa sorgarfrétt og ég trúði henni varla fyrr en hann sagði mér hana aftur og hafði ekki mismælt sig.

Það var rétt vika frá því að ég hafði sett athugasemd við færslu Sigurðar á FB eða kjaftaklöppina sem hann kallaði svo. Þar boðaði hann útgáfu nýjustu ljóðabókar Hannesar frænda síns þann 1. nóvember, sem þá var rúmlega 10 dögum seinna. Hann hafði fengið fyrsta eintakið í hendur og hlakkaði greinilega mikið til eins og margir sem skrifuðu athugasemdir. Sjálfur skrifaði ég: „Sem betur fer er ekki langt þangað til“, og Sigurður lækaði eins og vera bar. En þessir tíu dagar voru of langur tími og ég hugsaði örugglega eins og margir: Hvers vegna náði hann ekki að lifa viku lengur?

Við ráðum ekki okkar skapadægri. Ég horfði á fylkinguna tínast út og kannaðist við marga, þó að ég myndi ekki eftir nafninu. Hver var þetta aftur einu sinni? hugsaði ég aftur og aftur og reyndi að rýna undir gráu hárin og rúnum rist andlit. Þetta var fólk á mínum aldri. Einn held ég að hafi verið í Langholtsskólanum fyrir 50 árum, líklega félagi Sigurðar úr ÍR. En kannski var þetta allt annar maður, sem ég kannast þó við, en hver? Margir voru úr útgáfubransanum, rithöfundar, útgefendur, prófarkalesarar, hönnuðir, prentsmiðjufólk.

Röðin gekk hægt vegna þess að kistan stóð úti og nú hefur verið tekinn upp sá siður að krossa yfir þeim látna við kirkjuna ef ekki er jarðað heldur efnt til bálfarar. Ég hélt í fávisku minni sem strákur að lík væru brennd á bálkesti, svo svipað og á gamlárskvöld. Svo er ekki. Eins og ég er hrifinn af því að brenna lík, þá er ég lítið fyrir þennan nýja sið. Þess vegna rölti ég í burtu þegar ég kom út úr kirkjunni. Fyrir mér er maðurinn sem við þekktum ekki í kistunni, þó að líkið sé þar. Hann lifir í huga okkar sem vorum svo gæfusöm að kynnast honum, og ég hefði sannarlega gjarnan viljað kynnast Sigurði betur.

Í bílnum á leiðinni heim náði ég merkilegum áfanga. Ég hef síðan í janúar hlustað á Karamazov bræðurna lesna fyrir mig á ensku. Þeir enda á húrrahrópi fyrir Karamazov. Við skulum í huganum hrópa húrra fyrir lífinu sem býr til góða náunga eins og Sigurð Svavarsson. Það má vera þrefalt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.