Dugnaður, vit og hyggindi. Minningar um Guðrúnu Pétursdóttur, ömmu mína

Í dag eru 140 ár frá því að Guðrún Pétursdóttir amma mín fæddist í Engey, eða eins og margir segja nú orðið, hún hefði orðið 140 ára hefði hún lifað. Ég var í áttræðisafmælinu hennar, en segði ósatt ef ég segðist muna vel eftir því. Þó mundi ég lengi vel eftir því að þar var Ólafur Thors forsætisráðherra (sem hann var reyndar ekki þá), en hann var tregur að mæta í hóf annars staðar en hjá sjálfum sér.

Mér er auðvitað fyrirgefið að muna ekki margt úr þessu afmæli þegar ég var þriggja ára gamall, en ég man auðvitað vel eftir ömmu og hef skrifað þær minningar hér. Það er skemmtileg frásögn.

Mér hefur alltaf þótt það skrítið hvað þegar fólk hallaði orði á ömmu, því að hún var alltaf ósköp góð við mig og mér þótti afar vænt um hana. Hún þótti ákveðin, en það var örugglega ekki einfalt mál að koma sjö börnum til manns fyrir 100 árum. Mér fannst líka ekkert að því þegar hún beitti ákveðninni til þess að vernda mig fyrir eldri systkinum.

Líklega voru amma og afi með pólitík í genunum. Afi var þingmaður í rúmlega 20 ár og afabræður hans hans þrír voru alþingismenn og mér telst svo til að sjö afkomendur þeirra hafi orðið þingmenn og fimm þeirra ráðherrar, auk þess sem Ragnhildur Helgadóttir, systurdóttir ömmu, var þingmaður og ráðherra.

Tilviljanirnar eru oft skrítnar í lífinu. Í gær sendi Halldór Teitsson, frændi minn, mér nokkrar myndir af ættingjum okkar. Það fannst mér skemmtilegt og ég ætla að deila nokkrum þeirra hér. Sumar eru merktar af mömmu Halldórs, Guðnýju Ólafíu Halldórsdóttur sem ávallt gekk undir nafninu Dúna. Foreldrar hennar voru Halldór Þorsteinsson, skipstjóri á Háteigi, en hann var giftur Ragnhildi Pétursdóttir ömmusystur minni, sem var fyrsti formaður Kvenfélagasambands Íslands, en Guðrún amma mín var annar formaður samtakanna. Samtals stjórnuðu þær samtökunum í tæplega þrjátíu ár. Háteigur er núna á horninu á Háteigsvegi og Lönguhlíð. Hann leit svona út fyrir stríð:

Háteigur

Nú er Háteigur þakinn skeljasandi.

Meira um myndirnar í lokin.

Amma dó í nóvember 1963. Nokkrar konur minntust ömmu í minningargreinum. Þær draga fram fallega mynd af ömmu og raunsanna, held ég. Amma var mikil baráttukona fyrir kvenréttindum og vildi að konur nytu sín til jafns við karla. Það vissi ég vel. Ég vissi ekki um störf hennar í Mæðrastyrksnefnd, þar sem hún vann með þeim hætti að „svo að sjaldan þurftu aumir frá að hverfa.“

Mér finnst athyglisvert hvernig Aðalbjörg Sigurðardóttir talar. Ég man vel eftir því að hafa farið með ömmu til frú Aðalbjargar í Lönguhlíðarblokkina, sem kölluð er. Aðalbjörg var gift séra Haraldi Níelssyni og var móðir Jónasar Haralz. Hún var mikill sósíalisti og því langt milli hennar og ömmu í stjórnmálum. Þess vegna hafa hennar orð vigt. Hún segir frá uppvexti og hjónabandi ömmu:

„Eftir fermingu lærðu þær Engeyjarsystur svo í Reykjavík saumaskap, tungumál og prjón. Ég man eftir, þegar ég kynntist frú Guðrúnu fyrst, að mig furðaði á því, hversu óskaplega marghliða gáfur hennar voru, mér fannst hún eiginlega kunna skil á öllum hlutum. Hér mun bernskuheimili hennar, auk ágæts efnis sem í henni bjó, hafa átt mikinn hlut að máli. En ég veit, að sjálf mundi hún hafa viljað bæta við; ég heyrði hana svo oft segja eitthvað í þessa átt: „Ég var gift mennta- og áhugamanni, ég var alltaf að menntast í sambúðinni við hann“, en í öllu vildi hún gera veg Benedikts sem mestan.

Þann 5. júní 1904 giftist Guðrún Benedikt Sveinssyni, sem síðar varð alþingismaður og forseti neðri deildar Alþingis. Ungu hjónin fluttu þá þegar inn í húsið á Skólavörðustíg 11 í Reykjavík, þar sem þau bjuggu allt þar til Benedikt lézt 16. nóv. 1954, svo sambúð þeirra stóð í rúm 50 ár. … Benedikt var hið mesta glæsimenni og mælskur með afbrigðum.

Svo fer Aðalbjörg yfir það hvernig amma vann:

„Frú Guðrún var hamhleypa í störfum, að hverju sem hún gekk og það var margt sem hún fékkst við á langri ævi, auk heimilishaldsins. Þó mat hún heimilið og fjölskylduna svo mikils að hún fór ekki af alvöru að taka þátt í opinberum málum, fyrr en börnin voru uppkomin og um hægðist á heimilinu. Frú Guðrún var í eðli sínu mikil kvenréttindakona og vildi láta konuna njóta alls til jafns við karlmanninn, en hún gerði að hinu leytinu til hennar miklar kröfur og vildi láta kvenréttindin hækka og göfga mannlífið allt. Hún taldi heimilið og börnin allt af hljóta að vera það fyrsta í lífi hverrar giftrar konu, enda þótt það ætti ekki að þýða það, að konan mætti ekki leita sér atvinnu utan heimilisins.

Eitt atriði langar mig til að draga fram í sambandi við starf frú Guðrúnar í Kvenréttindafélaginu. Á einhverjum fyrsta fundi þar, kom fram tillaga frá frú Guðrúnu Pétursdóttur, eftir því sem fundargerð hermir, um að félagið beiti sér fyrir því að bæta hag óskilgetinna barna og mæðra þeirra, fyrst og fremst sjálfsagt með löggjöf. Þetta var samþykkt og félagið tók málið upp og vann að hinni mjög svo bættu fjölskyldulöggjöf frá 1921. Geta þeir sem ungir eru víst tæplega gert sér í hugarlund, hvernig hagur þessa fólks var, áður en löggjöfin fór að segja til sín.“

Frú Aðalbjörg talar fallega um kynni sín af ömmu og telur hana bera af öðrum konum:

„Ég hef starfað með mjög mörgum ágætum konum um dagana, en að öllu samanlögðu tek ég Guðrúnu fram yfir þær allar. í henni sameinuðust svo óendanlega margir eiginleikar forustukonunnar, þeir allra beztu. Dugnaður hennar, vit og hyggindi, verklægni og skipulagsgáfa, auk harðrar málafylgju, þegar því var að skipta, gerðu hana eiginlega að sjálfkjörnum forustumanni, hvar sem hún starfaði í félögum og þau voru mörg. En auk þessa varð hún svo tryggur félagi og vinur, þegar tekizt hafði að vinna traust hennar, að um flest hefði ég fyrr efast en um heilindi hennar í vináttu og samstarfi.

Við áttum um langan aldur ekki samstöðu í stjórnmálaskoðunum, en það kom aldrei að sök í samstarfi okkar. Við treystum hvor annarri og virtum skoðanir hvor annarrar, en deildum ekki um neitt, þó leiðir lægju ekki saman. Mér liggur við að segja, svo ættu fleiri góðir menn að gera, sem vilja vinna þjóð sinni til heilla.“

Greinin endar á minningum frá ferðalögum og bregður upp aðeins öðruvísi mynd:

„Ferðalög okkar út um landið verða mér minnisstæð, er við heimsóttum kvennasamböndin. Það voru skemmtilegir dagar. Við nutum íslenzkrar náttúru og gestrisni íslenzkra húsmæðra, eins og hún er bezt, töluðum við þær um sameiginleg áhugamál og gerðum áætlanir um framtíðina. Á þessum stundum naut frú Guðrún sín sérstaklega vel, hún var hress í máli, oft beinlínis kát og gat verið ákaflega hnittin í ræðum sínum og tilsvörum. En ævinlega vakti alvaran undir og hinn járnharði vilji að koma málefnum samtakanna áfram og í höfn með einhverjum ráðum. Við fórum aldrei seinustu ferðina norður í land, sem við höfðum áætlað saman, ég hygg að við höfum harmað það báðar.“

Jónína Guðmundsdóttir vann með ömmu í Mæðrastyrksnefnd og talar um hve ömmu þótti mikils virði að hjálpa þeim sem voru í miklum vanda, sálarlega, peningalega og lögfræðilega. Hún sagði:

„Heilsteyptari kona en frú Guðrún var ekki til. Frelsisþráin, einlæg trú á rétt þjóðarinnar til sjálfstæðis, ásamt virðingu fyrir öllu því, sem íslenzkt var, auðkenndi heimilið á Skólavörðustig 11. …

Starf Mæðrastyrksnefndarinnar er margþætt og tímafrekt, og mætti oft segja að það sé sálarlegs eðlis, ekki síður en peningalega og lögfræðilega. Vandinn er mestur að taka mjúklega á meinunum, og það kunni Guðrún, þó sérstaklega er mikinn vanda bar að. Hreinskilin og heil tók hún hvert mál til yfirvegunar, svo að sjaldan þurftu aumir frá að hverfa.“

Helga Magnúsdóttir segir í sinni minningargrein frá því þegar amma þurfti að biðjast undan endurkosningu, rúmlega áttræð:

„Árið 1947 var hún kjörin formaður Kvenfélagasambands Íslands og hélt því starfi til ársins 1959 er hún á landsþingi baðst eindregið undan endurkosningu, þá áttræð að aldri. Frú Guðrún var frábær stjórnandi, sem allir, er nokkuð þekktu til, virtu og dáðu. Mál sitt flutti hún af sérstakri festu og djörfung, hver sem í hlut átti, en um leið af einlægni og sanngirni. Undirferli, rógur og tvöfeldni var ekki til í hennar sál. …

Sem formaður Kvenfélagasambands Íslands var hún einnig í stjórn Húsmæðrasambands Norðurlanda og sat þing þess bæði í Noregi og Danmörku. Þar mátti segja að frú Guðrún „kom og sá og sigraði“, því að hún bar svo frábæran persónuleika í sínum fagra íslenzka búningi, að hún var sem drottning, hvar sem hún fór.“

Sjálfstæðiskvennafélagið Hvöt sagði í minningarorðum:

„Hún var heil og sterk í baráttumálum. Hún var hörð og traust í örðugleikum. Hún naut besa að sjá glæsilegan árangur lífsstarfs síns. Hún sá sin hugstæðustu mál leidd fram til sigurs hvert af öðru.“

Svo í lokin aftur að myndunum.

Amma og afi Halldór á háteigi og systur ömmu

Þessi mynd er líklega tekin á Háteigi um 1950. Á henni eru Benedikt Sveinsson, afi minn, Halldór Þorsteinsson, skipstjóri á Háteigi, og svo systurnar fjórar sem þá lifðu: Ragnhildur, Maren, Ólafía og Guðrún Pétursdætur. Kristín Bjarnadóttir, hálfsystir þeirra, dó árið 1949.

Við sama tækifæri var þessi mynd tekin af systrunum fjórum. Amma hafði hana alltaf uppi hjá sér þegar hún bjó heima hjá pabba og mömmu.

Amma og systur hennar við Háteig

Fremstar sitja Ragnhildur og Guðrún, en fyrir aftan Ólafía og Maren. Maren rak lengi búð á Laugaveginum, Happó, en hún var umboðsmaður fyrir happdrætti. Hún var gift Baldri Sveinssyni, afabróður mínum, sem lést árið 1932, tæplega fimmtugur.

Heiða kristín H. Kristjana Ben Ragnhildur P. Kristín bjarna Maren JZ Kristín Bl Sigr Björns mamma Guðrún g og Ólöf

Næst er mynd er tekin 24. júlí 1946 í sexíu og níu ára afmæli Halldórs Þorsteinssonar. (Halldór var bróðir Bjarna Þorsteinssonar tónskálds).

Á myndinni eru Ragnhildur dóttir Ragnhildar og Halldórs, Heiða vinnukona hjá þeim, Halldór, Kristjana Benediktsdóttir eða Stella sem var systir mömmu og móðir Benedikts Blöndals og þeirra systkina, Ragnhildur Pétursdóttir, Kristín Bjarnadóttir, hálfsystir ömmu og þeirra systra, Maren Pétursdóttir ömmusystir mín, Jóhannes Zoega, pabbi minn, Kristín Blöndal dóttir Stellu, Sigríður Björnsdóttir, kona Bjarna Benediktssonar, Guðrún Benediktsdóttir (mamma mín) og þær mæðgur Guðrún Guðjónsdóttir og Ólöf Benediktsdóttir (tvíburi við mömmu). Fremst er svo Ólafía Pétursdóttir, ömmusystir mín, sem lítur út eins og nývöknuð. Hún hefði eflaust ekki verið ánægð með þessa mynd, en mér finnst hún skemmtileg.

frá Háteigi stækkun

Hér er svo stækkun úr mynd sem tekin á sama tíma af mömmu, Sigríði Björnsdóttur með Kristínu Blöndal og Ólöfu með Guðrúnu Guðjónsdóttur.

 

2 comments

  1. Þakka þér fróðlega og skemmtilega samantekt, en því miður hefur misritast nafn konu Haraldar Níelssonar, hún hét Aðalbjörg Sigurðardóttir. Dóttir þeirra hjóna og systir Jónasar var Bergljót Rafnar gift Bjarna föðurbróður mínum og Jónas heitir reyndar eftir langafa mínum sr.Jónasi Jónassyni frá Hrafnagili. Ég man vel eftir Aðalbjörgu, sköruleg kona og vel máli farin. B. kv. Halldóra

    Líkar við

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.