Einu sinni ætlaði lítil þjóð að leggja heiminn að fótum sér. Á örfáum árum var hún orðin slíkt stórveldi í viðskiptum að leigubílstjórar austan hafs og vestan töldu víst að hér væri rekin umsvifamikil þvottastöð fyrir rússneska peninga.
Forseti Íslands taldi útrásina rökrétta niðurstöðu af Íslandssögunni og skýrði velgengni hennar í löngu máli hjá Sagnfræðingafélaginu í upphafi árs 2006. Hann hafnaði því að hún væri byggð á sandi: „Útrásin er þó staðfesting á einstæðum árangri Íslendinga, fyrirheit um kröftugra sóknarskeið en þjóðin hefur áður kynnst, ekki aðeins í viðskiptum og fjármálalífi heldur einnig í vísindum, listum, greinum þar sem hugsun og menning, arfleifð og nýsköpun eru forsendur framfara.“
Fáir vildu þó hjálpa þessari einstæðu þjóð þegar ríkisstjórnin leitaði aðstoðar í aðdraganda Hrunsins. Bandaríkjamenn höfðu verið helstu bandamenn Íslendinga um árabil, en þeir vísuðu ráðamönnum á dyr. AGS kom okkur loks til hjálpar eftir að ósköpin dundu yfir. Þessir atburðir hefðu átt að verða til þess að þjóðin hugsaði vel hver staðan yrði í framtíðinni þegar hún yrði næst hjálparþurfi. Tilburðir í þá átt hafa verið fálmkenndir eins og Baldur Þórhallsson prófessor rekur í merkilegri nýrri bók sinni um stöðu smáríkja.
Baldur skrifar um mikilvægi þess að lítil ríki hafi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól. Fram að þessu hafa Íslendingar fyrst og fremst hugsað um pólitískt og hernaðarlegt skjól. Hrunið sýndi glöggt að það er ekki nóg.
Á sínum tíma hikuðu Íslendingar ekki við að ganga til margvíslegs samstarfs við nágrannalönd og önnur ríki. Hagur Íslands af þátttökunni hefur oft verið vanmetinn. Norðurlandasamvinna er enn þann dag í dag mikilvæg stoð, því að þangað sækja Íslendingar bæði menntun og menningu. Baldur telur félagslegt skjól af þátttöku í Evrópusamvinnu líka vera mun umfangsmeira en gert var ráð fyrir í upphafi.
Bjarni Benediktsson eldri var varfærinn en víðsýnn stjórnmálamaður. Hann sagði í ræðu á tímum kalda stríðsins: „Okkar gamla vernd – fjarlægðin – er úr sögunni.“ Hann hélt áfram: „Athafnaleysið, blint og skilningssljótt á atburði umheimsins, er vísasti vegurinn til að leiða [hörmungar] yfir okkur. … Íslendingar munu leitast við að tryggja öryggi sitt á þann veg, að á landi hér geti lifað um alla framtíð frjáls og farsæl íslensk þjóð.“
Bjarni talaði um hernaðaröryggi, en nú höfum við lært að efnahagslegt og félagslegt öryggi er ekki minna virði. Við þurfum að velja okkur stað sem best veitir slíkt öryggi. Því er eðlilegt að við stígum skrefið til fulls og fáum sæti við borðið í Brussel þar sem ákvarðanir eru teknar, en látum okkur ekki nægja að vera þiggjendur í þeirri samvinnu.
Birtist í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018