Krónan: Alltaf jafn vonlaus

Ég hitti um helgina konu sem var að koma frá Bandaríkjunum. Hún sagði mér að hún hefði varla tímt að kaupa þar nokkurn hlut eftir mikið gengisfall krónunnar að undanförnu. Á sama tíma og neytendur harma sinn hlut fagna þeir sem standa í útflutningi eða selja ferðamönnum vöru og þjónustu.

Ég hitti mann í morgun sem þakkaði mér fyrir Silfrið í gær. Fyrst hélt ég að hann væri bara að þakka mér fyrir „komuna“, en svo bætti hann við: „Ég skil ekkert í verkalýðshreyfingunni að taka ekki upp gjaldmiðilsmálið. Ég hef reynt að benda þeim á það að með krónuna hafi þau ekkert hald í launahækkunum.“

Fyrir 14 árum var ástandið öfugt. Krónan hafði styrkst mikið á skömmum tíma. Fyrirtækin voru döpur meðan neytendur fögnuðu. Niðurstaðan var sú sama og nú: Krónan er ómögulegur gjaldmiðill fyrir þjóðina.


Skiptir krónan máli?

Landsmenn hafa nú upplifað það að krónan styrkist dag frá degi. Neytendur fagna að sjálfsögðu þessum jólaglaðningi og menn hyggja gott til glóðarinnar að kaupa erlendar vörur, einkum frá Bandaríkjunum. Gleði útflytjenda er minni. Svo vel vill til fyrir fiskútflytjendur að verð á sjávarafurðum hefur yfirleitt verið vel viðunandi að undanförnu. Það hefur vegið upp á móti sterku gengi. En það er ekki náttúrulögmál að slíkt fari saman. Ferðaþjónustan verður dýrari í augum útlendinga sem fá minna fyrir evru sína og dal. Það sama gildir um ýmsan iðnaðarútflutning. Annað hvort þurfa menn að hækka vöruna í erlendri mynt og skemma þannig samkeppnishæfni sína eða una lægra verði í íslenskum krónum og kippa þannig fótum undan afkomunni. Lækkað gengi krónunnar veldur því svo að erlendar skuldir hækka, þannig að forstjórar finna sér alltaf eitthvað til að hafa áhyggjur af. Einmitt þetta er megingallinn við að hafa eigin gjaldmiðil á svo litlu efnahagssvæði. Menn eru í sífellu að reyna að verja sig gegn einhverju sem þeir geta ekki stjórnað.

Þess vegna skiptir það máli að Íslendingar hætti að líta á þetta land sem sérstakan markað með sérstakan gjaldmiðil. Þeir sem hafa tekið ástfóstri við krónuna segja að gjaldeyrisáhætta hverfi ekki þó að menn taki upp evru. Auðvitað halda innbyrðis sveiflur evru, dals, jens og rúblu áfram. Hins vegar væru Íslendingar þá orðnir hluti af miklu stærra myntkerfi og þyrftu ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af sveiflum í lánum eða tekjum, vegna þess að svo stór hluti þeirra kæmi innan þessa sama hagkerfis. Á sínum tíma voru þau rök notuð gegn evrunni hér á landi, að hún væri svo veik gagnvart Bandaríkjadal að Íslendingar hefðu skaðast á skiptunum. Nú þegar þetta hefur snúist við hefur rökstuðningurinn ekki verið notaður af sömu aðilum sem meðmæli með evrunni.

Svipaðri spurningu og varpað er fram í fyrirsögn var einhvern tíma svarað þannig: Nei, krónan skiptir engu, en milljarður hér og milljarður þar safnast smám saman upp í að verða alvöru peningur. Gleðileg jól!  bj


Birtist í Vísbendingu 22. október 2004

Mynd Halldórs Baldurssonar birtist í Fréttablaðinu 12.11. 2018 – Það var í frásögur fært á föstudaginn að gengi krónunnar hefði ekki hreyfst í heila viku!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.