Marga góða sögu (BJ)

Hver var afi þinn? sagði kona sem ég hitti í veislu. Meðan ég var að hugsa mig um hvorn ég ætti að nefna fyrst bætti hún við: Eða langafi þinn?

Þeim fjölgar öfunum við hverja kynslóð sem þú ferð aftur á bak, sagði ég, en konan sagðist hafa átt heima á Skólavörðustígnum. Þá vissi ég eftir hverju hún var að fiska og sagði, sem satt er, að Benedikt Sveinsson hefði verið afi minn. Benedikt afi bjó á Skólavörðustígnum í 50 ár.

Við vorum að tala um það á leiðinni hingað, maðurinn minn og ég, sagði konan, hvað það væri sterkur svipur með þér og afa þínum.

Ég er svolítið hégómlegur eins og flestir og þykir gaman að því að fólk sé að tala um mig, þó að ég verði að viðurkenna að mér fannst þetta reyndar ótrúlegt og svolítið langsótt, því að afi dó fyrir 56 árum, áður en ég fæddist og ég held að konan hafi ekki átt von á mér. En auðvitað var ég hreykinn af því að einhverjum fyndist ég líkur afa, því að hann var talinn mjög fallegur maður. Sagt var í samkeppni Morgunblaðsins á öðrum áratug 20. aldar að góður eiginmaður ætti að vera „fagur eins og Benedikt Sveinsson, sterkur eins og Sigurjón Pétursson [glímukappi á Álafossi], mælskur eins og Ólafur fríkirkjuprestur, gáfaður eins og Einar Benediktsson, hagmæltur eins og Hannes Hafstein, söngmaður eins og Pétur Halldórsson, selskapsmaður eins og Ólafur Björnsson [ritstjóri Ísafoldar og afi Ólafs B. Thors].“

Það er sterkt svipmót á þessu fólki, sagði konan og skeytti því engu þó að partur af „þessu fólki“ stæði fyrir framan hana. Amma þín stjórnaði öllu í götunni, hélt hún áfram en lét vera að segja að amma hefði verið vargur. Þegar hún amma þín kom í mjólkurbúðina gekk hún beint að afgreiðsluborðinu, þó að það væri biðröð út úr dyrum. Það fór ekkert á milli mála að hún var af æðri stétt.

Nú gat ég ekki deilt við konuna um þetta, því að ég þekkti ekki ömmu á þessum árum, en vissi þó að ekki var það fyrir ríkidæmið sem amma bar af öðrum. Amma og afi áttu sjö börn og afi var ekki hálaunamaður. Tvö af börnum þeirra voru alin upp af öðrum, þó að á því væru fundnar skýringar. Pétur var hjá ömmu sinni sem bjó í næsta húsi og Kristjana hjá barnlausri móðursystur, en ekki var henni skilað þegar frænkan eignaðist eigin dætur.

Amma var heldur ekki af embættismannaættum, en að henni stóð duglegt fólk sem ég hef sagt frá í fyrri pistlum.

Afi var þingmaður í rúmlega 20 ár, en það var ekki hálaunastarf. Hann var greindur maður og mikill foringi í sjálfstæðisbaráttunni, en hans veikleiki var að hann drakk of mikið. Mamma talaði lítið um það, en sagði að hann hefði sagt að hann áskildi sér rétt til þess að hafa verið týndur í fjóra daga áður en byrjað væri að auglýsa eftir honum í útvarpið.

Það eru til sögur af því að hann hafi setið næturlangt bæði með Einari Ben og Árna Pálssyni prófessor og eins Merar-Manga sem kallaður var, pabba Sigurðar A. Magnússonar, sem sagt er frá í sögunni Undir kalstjörnu og væntanlega fleiri bókum Sigurðar. Mangi þessi bjó í Pólunum sem var fátækrahverfi, tók að sér konur og barnaði þær. Að minnsta kosti þrjár systur sem Sigurður segir frá í bókinni.

Einar Ben og Árni voru eflaust fínni félagsskapur en Mangi, en drykkjuboltar líka. Satt að segja var Einar orðinn hálfgerður vesalingur undir það síðasta, rétt eins og Hannes Hafstein, glæsimennin miklu voru eins og rónar á götum borgarinnar.

Þetta þótti ekki pent að tala um, en það kemur fram í einni af bókum Guðjóns Friðrikssonar að afa hafi verið boðið að verða bankastjóri Landsbankans gegn því að hann hætti að drekka (eða amk minnkaði við sig). Hann var bara settur bankastjóri í eitt ár og svo ekki söguna meir, þannig að maður veit hvernig það fór.

Ólöf móðursystir sagði mér stutta sögu frá því þegar hún var lítil. Afi og hún fóru út einhvern morgun um helgi og ferðinni var heitið til þess að kaupa blóm í Alaska, sem þá var með gróðarstöð neðan við Landspítalann. Þau gengu Bergstaðastiginn (sem nú er orðinn stræti) og þegar þau komu að húsi númer 16 minnir mig hún segja fór afi inn og bað Ólöfu að bíða úti. Í þessu húsi bjó Árni Pálsson. Eftir drykklanga stund, í orðsins fyllstu merkingu kom afi út aftur, og þau héldu áfram ferðinni og keyptu blómin. Þegar þau eru svo komin aftur á Skólavörðustíginn sagði afi við Ólöfu: „Við skulum ekkert vera að minnast á það að ég hafi stoppað hjá honum Árna á leiðinni.“

Ólöf sagði mér fleiri sögur af afa. Það fór ekki milli mála að þeim systrum þótti ákaflega vænt um hann og báru mikla virðingu fyrir honum, þó að eflaust hafi þeim ekki þótt gaman að óreglu hjá honum frekar börnum finnst.

Amma var kannski sú kona sem mér þótti vænst um þangað til ég varð fullorðinn. Þess vegna finnst mér alltaf skrítið þegar mér er sagt að hún hafi verið ákveðin, svo að ég noti pent orð.

Hún flutti heim til foreldra minna þegar afi dó, skömmu áður en ég fæddist. Þess vegna þekkti ég ekkert annað líf en með ömmu uppi á lofti. Hún hafði tvö herbergi fyrir sig, svefnherbergi og stofu. Við rúmið hafði hún bjölluhnapp sem hún gat hrint til þess að fá morgunmat. Þegar hún hringdi fór ég til mömmu og fékk fulla skál af Olbrani, sem ég vissi ekki fyrr en ég var fullorðinn að héti All Bran. Skálina færði ég svo ömmu í rúmið, sat á gólfinu meðan hún borðaði og fór svo með hana niður aftur.

Amma var oftast á peysufötum. Hún átti reyndar líka sloppa, en fór í peysufötin á hverjum degi. Mér hefur alltaf þótt peysuföt fallegur klæðnaður og man hvað mér þótti amma miklu glæsilegri í þeim en sloppnum.

Þegar ég var eins og hálfs árs var ég í fyrsta sinn liðtækur við jólapakka. Ég fékk auðvitað einhver leikföng sem mér þóttu góðar gjafir og föt sem mér fannst minna spennandi og færði ömmu. Hún tók svo þessa mjúku pakka upp með sér, en ég sofnaði í rimlarúminu með bílinn. Á jóladag vaknaði ég hins vegar snemma, bankaði hjá ömmu og vitjaði um pakkana mína sem þar voru í öruggri vörslu.

Amma las fyrir mig úr þjóðsögum Jóns Árnasonar. Það var góður og skemmtilegur skóli. Aldrei man ég eftir því að hún hafi neitað mér um að lesa fyrir mig sögu og oftast urðu þær margar. Skemmtilegastir voru þeir Sæmundur fróði og Eiríkur í Vogsósum, báðir rammgöldróttir. Einu sinni leit ég í augun á ömmu og sá að ég speglaðist í þeim. Þá velti ég því fyrir mér hvort hún sæi nákvæmlega það sama og ég sá sem spegilmynd.

Pabbi segir að ég hafi átt skjól hjá ömmu þegar systkini mín stríddu mér. Það man ég ekki (ég man að þau stríddu mér), en ég man hvað ég var glaður þegar Siggi bróðir minn fæddist og ég var ekki lengur yngstur.

Ég man einu sinni eftir því að amma skipti skapi. Hún þurfti að skreppa milli bæjarhluta og hringdi á leigubíl og bað stúlkuna um að senda sér einhvern góðan bíl. Henni var ekki skemmt þegar leigubílstjórinn mætti til þess að sækja hana þar sem hún beið á peysufötunum, en bílstjórinn var með brennivínsflösku í hendinni.

Amma hitti margar merkiskonur reglulega. Ragnhildur systir hennar var fyrsti formaður Kvenfélagasambands Íslands frá 1930 til 1946. Ég veit ekki hvort Ragnhildur lét af störfum vegna aldurs, en hitt veit ég að þá tók amma, eldri systir hennar, við og var formaður fram yfir áttrætt. Þær komu heim Aðalbjörg Sigurðardóttir, móðir Jónasar Haralz, María Maack, Gróa Pétursdóttir og fleiri. Ég man ekki betur en að ein af þessum komum hafi verið Helga á Röðli sem kölluð var. Hún rak skemmtistaðinn Röðul sem sjóarar sóttu. Þangað kom ég einu sinni þegar ég var sautján-átján ára og Helga sat við innganginn á peysufötum og seldi miði inn. Ég man ekki hvort ég fór inn eða ekki, en var dauðhræddur um að hún þekkti mig aftur, þetta prúða barn sem nú var komið í sollinn. Það endurtók sig að minnsta kosti ekki.

Ég heimsótti þessar konur með ömmu, fannst ekkert eðlilegra. Og henni greinilega ekki heldur.

Ömmusystur mínar komu oft í heimsókn. Ragnhildur mun hafa verið orðin heilsulítil á þessum tíma og þó að ég hafi örugglega séð hana á Háteigi þar sem hún bjó man ég ekki eftir því. Maren og Ólafía voru hins vegar báðar góðar vinkonur mínar og ég heimsótti þær eftir að amma dó.

Amma dó þegar ég var átta ára gamall. Það gerðist margt sömu vikuna. Bjarni frændi varð forsætisráðherra, það fór að gjósa upp úr sjónum þar sem svo kom upp Surtsey. Amma dó og Kennedy var skotinn. Við veltum því mikið fyrir okkur skólafélagarnir hver hefði skotið hann og horfðum á alla sem við mættum rannsakandi augum. Á sunnudagskvöldi kom svo frétt í útvarpinu um að Lee Harvey Oswald, morðingi Kennedys, hefði verið skotinn í höndunum á lögreglunni. Mamma sagði: Það er naumast.

Ég fór ekki í jarðarförina. Á þeim árum fóru börn ekki í jarðarfarir. En ég hlustaði á hana í útvarpinu, því að þá þóttu jarðarfarir gott útvarpsefni. Ég var einn heima og sat við útvarpið. Ég veit ekki hvar Siggi bróðir var, kannski var hann sofandi heima, þó efast ég um að mér hafi verið treyst til þess að passa hann þá.

En við amma gátum alltaf passað hvort annað.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.