Tvær ljósmyndir og 1.687 orð (BJ)

Ég fékk senda ljósmynd í fyrra. Eða var það í hitteðfyrra? Reyndar voru þær tvær. Ef ég hefði ekki fengið skýringar frá sendandanum væri ég alls ekki viss hver var á annarri myndinni. Samt man ég vel eftir honum. Mundi bara ekki hvernig hann leit út. Á hinni myndinni var ég sjálfur. Og reyndar fleiri, en ekki sá sem sendi myndina.

Í sjálfu sér voru þessar myndir ekkert sérstaklega dularfullar. Myndin af manninum var svona:

mr_mccullough

Allir sem eiga albúm með myndum milli 1960 og 70 eiga svona myndir. Þetta var tískan á þeim tíma að merkja myndirnar með dagsetningu. Ekki deginum sem þær voru teknar á, hann vissi enginn, nema ef menn skráðu það hjá sér, heldur mánuðinum sem þær voru framkallaðar í. Þessi mynd var sem sé framkölluð í maí árið 1966 og eflaust tekin skömmu fyrr.

Maðurinn á myndinni er Mr. McCullough, enskukennarinn okkar í 10 ára S.H. Á þeim árum var ekki kennd enska í barnaskólanum en við í Langholtsskólanum vorum í tilraunaverkefni. Einn bekkur úr hverjum árgangi 10, 11 og 12 ára var valinn til þess að læra ensku. Ameríska sendiráðið eða Fullbright-stofnunin borguðu fyrir sendikennara sem kenndi nokkra tíma í viku minnir mig. Kannski þrjá. Ég held að svipað prógramm hafi verið í einhverjum öðrum skóla. Kannski Melaskólanum. Langholtsskóli og Melaskóli voru einu skólarnir í Reykjavík þar sem hægt var að vera nokkurn veginn öruggur að enginn kommi ætti barn.

Sagan af Mr. McCullough hefði getað endað þarna, en tíu árum síðar var ég í Bandaríkjunum að læra rússnesku (ég hef aldrei sagst vera venjulegur). Kennarinn okkar, Robert Price að nafni, bauð okkur Vigdísi heim á þakkargjörðardaginn og sagði okkur þá, að þegar þau hjónin voru í Júgóslavíu hefðu þau hitt mann sem einu sinni var sendikennari á Íslandi. Af rælni spurði ég hvað hann héti og var þá ekki Mr. McCullough kominn til Júgóslavíu. Hann bjó á þessum tíma í Michigan. Kannski er hann þar enn. Kannski er hann löngu dáinn. En svona leit hann út vorið 1966.

Hin myndin var miklu meira spennandi. Á henni eru strákarnir í bekknum mínum. Auðvitað voru stelpur líka í bekknum, en á þessum árum gættum við þess vandlega að blanda ekki geði við þær nema það væri bráðnauðsynlegt. Myndin er svona:

bj_10_ara_bekkurÞetta er eina myndin sem ég á úr barnaskóla af bekknum (eða þeim hluta hans sem skipti máli á þessum árum). Líklega eru til þúsundir svona mynda af litlum strákum sem voru einu sinni tíu ára og eru bráðum að verða ellefu. Myndin er tekin eftir tímann hugsa ég, gagnfræðaskólamegin við Langholtsskólann. Fram í tólf ára bekk (sem þá var kallaður 6. bekkur) voru allir tímar barnaskólamegin nema enskutímarnir. Líklega hefur verið erfitt að koma þeim fyrir, því að allar stofur voru tvísetnar.

Þennan dag hefur rignt. Það kemur engum á óvart. Mér finnst eins og alltaf hafi rignt þegar ég var í barnaskóla. Nema þegar snjóaði og göturnar voru fullar af slabbi sem maður öslaði upp í hné. Manni var alltaf kalt á tánum. Þó maður væri í stígvélum og í háleistum. Stundum voru þeir götóttir og tærnar stóðu út. Þá reyndi maður að fela götin með því að halda þeim á milli tánna. Svo stoppaði mamma í götin þangað til þeir voru orðnir of litlir og maður fékk númeri stærri.

Mér finnst gaman að horfa á myndina og reyna að rifja eitthvað upp um strákana. Suma þekki ég enn í dag. Einstöku hef ég hitt af tilviljun hér og þar. Aðra hef ég ekki séð í 40 ár. Eiginlega hitti ég engan þeirra mjög oft. Samt býr einn þeirra í næsta húsi við mig og er alltaf úti í garði að vinna. Sýnir hvar ég er ekki. En við tölumst auðvitað við þegar við hittumst. Einu sinni bjuggum við Siggi Kristjáns vinur minn sitt hvoru megin við Sporðagrunnið. Ég held að við hittumst oftar núna þegar við búum hvor í sínu landi en þennan vetur sem annar bjó í númer 11 og hinn í númer 12.

Ég held að allir séu enn á lífi. Lífið hefur farið misjafnlega með hópinn. Sumir hafa farið flóknar og erfiðar leiðir, aðrir runnið sitt skeið tiltölulega létt. Enginn í hópnum er ofsalega frægur.

Á vinstri endanum er Gylfi Gunnarsson. Hann kom í bekkinn í 9 ára bekk og ég þekkti hann lítið á þessum tíma. Ég man þó að í 11 ára bekk lék hann í tískusýningu þar sem nokkrir strákar höfðu málað sig og gengu í kjólum, háhæluðum skóm og voru með hatta. Allir hlógu sig máttlausa yfir þessu nema ég. Hef líklega ekki fengið genið sem lætur mann hlæja að körlum í kjólum. Hló heldur ekki þegar Randver klæddi sig í kjól í Spaugstofunni, sem mér er sagt að hafi verið hans mesti leiksigur. Ég man að þeir sem skildu djókinn sögðu að Gylfi hefði verið frábær nema hann hefði gleymt að vagga sér á leiðinni af sviðinu. Ég var ellefu ára og hafði aldrei tekið eftir því að konur sveifluðu mjöðmunum.

Halli var með gleraugu og hafði sjón +6,5 (eða var það -6,5?). Hann heitir Hallsteinn Stefánsson. Pabbi hans var sjómaður og allir gerðu ráð fyrir því að Halli yrði líka sjómaður. Fyrir nokkrum árum hitti ég mann sem sagðist hafa verið í afmælum hjá Halla. Ég mundi ekkert eftir því (þó að ég kannist við manninn, frænda Vigdísar, og mundi eftir afa hans sem ég sá einu sinni). Halli hafði lesið margt og vissi ýmislegt. Flestir héldu að það væri vegna þess að hann var með gleraugu. Halli varð sjómaður.

Hinn lambhúshettustrákurinn er Elís Másson. Elís er ekki heppilegt nafn því að ég held að allir kennarar okkar hafi spurt hvort hann héti Elías. Þeir spurðu líka hvort ég og Þórdís Zoega værum systkin. Við mótmæltum því bæði harðlega, en Þórdís er frænka mín og bjó skammt frá mér. Í sjö ára bekk gerði Reidar Albertsson, sem var umsjónarkennarinn okkar sér leik að því að skrifa nöfnin okkar afturábak á töfluna. Það var ekkert sérstaklega fyndið nema Elís varð Síle. Eftir þetta var hann aldrei kallaður annað.

Jóhannes Vilhjálmsson er stóri strákurinn. Jói var góður skákmaður. Hann og Ingi Bogi voru stærstir í bekknum, en ég man aldrei eftir því að þeir nýttu sér þessa stærð til þess að lúskra á okkur strákunum, sem þeir hefðu eflaust getað. Sem betur fer voru þeir báðir hægir og rólegir.

Svenni, Sveinn Harðarson, bjó á Laugarásveginum, ekki langt frá mér. Samt hinum megin við stiginn þannig að hann var ekki í innsta hring krakkanna sem léku sér saman. Stundum var ég samferða honum í skólann og einu sinni fann ég veski fyrir utan húsið hans. Mamma hans átti veskið og hafði leitað að því út um allt. Yngri systir hans hafði fleygt því út um gluggann. Ég fékk vegleg fundarlaun. Svenni flutti í annað hverfi og hætti í bekknum.

Friðrik Friðriksson stendur fyrir miðju. Hann var besti íþróttamaðurinn í bekknum og í árganginum. Kannski bestur í skólanum, en þar voru reyndar fleiri góðir. Við vorum léttastir í bekknum og vorum vinsælir í slagsmálaleikjum, riddaraslag (þá voru tveir í liði, annar hestur og hinn riddari á baki hestsins) og skriðdreka, en þá voru fjórir saman í liði, einn fremstur og tveir fyrir aftan, en þeir héldu á þeim léttasta á milli sín. Í einum svona leik hrundi skriðdrekinn (sem var eðlilegur endir á leiknum) og Friðrik datt á bakið. Ég held að hann hafi aldrei náð sér eftir það. Var þó markakóngur í fyrstu deild í handbolta eitt árið.

Maggi Dan stendur að baki Friðriks. Hann hafði mikil áhrif með því að segja eftirfarandi við mig: „Þú segir oft góða brandara, en eyðileggur þá með því að skýra þá út.“ Síðan hef ég haft þetta í huga, sagt afar knappa og góða brandara, en helminginn af þeim skilur ekki nokkur maður. Við vorum einu sinni í átta ára bekk fjórir saman í fótboltaliði, Friðrik, Maggi og Arnmundur Jónasson, sem hætti í bekknum í fimm ár og er þess vegna ekki á myndinni. Við vorum í bekkjarkeppni við níu ára bekk, snjalla knattspyrnustráka, sem mættu fimm á móti okkur fjórum (einhver hafði gleymt að mæta hjá okkur). Staðan í hálfleik var ekki glæsileg, 5-1 fyrir níu ára bekkinn. Í seinni hálfleik snerum við leiknum við og unnum að lokum 6-5. Þarna vann ég mitt stærsta fótboltaafrek, átta ára gamall.

Bjarni Þór Óskarsson kemur næstur. Hann var seigur stærðfræðingur og reyndar ágætur námsmaður þangað til það varð púkó, sem var löngu eftir að þessi mynd var tekin. Ári eftir þetta fengum við Bjarni að búa til próf í Íslandssögu, sem verðlaun fyrir það að vera hæstir á prófinu á undan. Þetta próf var fimmtíu spurningar og þyngsta próf sögunnar því að kennarinn lét okkur taka það eins og hina og fara yfir það líka. Það fékk enginn tíu, ekki einu sinni höfundar prófsins.

Næstur kem ég, rogginn að vanda, en næstur mér er Páll Ásgeir Pálsson. Palli bjó líka á Laugarásveginum. Hann kom líka í bekkinn í níu ára bekk. Hann átti mörg systkin eins og nánast allir á þessum árum. Það var ekki í tísku að eiga minna en fjögur börn. Palli var reyndar líka stór, en hann var afar rólegur og ekkert að óttast við hann. Við vorum líka vinir, þannig að ég þurfti ekki að velta því mikið fyrir mér.

Þorgeir Einarsson er næstur. Ég heyri að sumir kalla hann Togga, en fyrir mér var hann alltaf Þorgeir. Foreldrar hans voru kennarar og mamma hans kenndi okkur í smátíma í 11 ára bekk. Það voru allir stilltir og prúðir hjá henni og Þorgeir reyndar hjá öllum, en það sama var ekki alltaf hægt að segja um mig. Þorgeir var listasmiður og verkfærin léku í höndunum á honum. Allir hans smíðamunir fóru á sýningar um vorið.

Á endanum er Gunni Magg. Hann teiknaði afburðavel og gerði grínmyndir af kennurum og nemendum. Hann hafði líka lesið margt og gaf út blað. Við vorum keppinautar á því sviði um skeið, hann gaf út Gaman og alvöru og ég Íþróttamanninn. Svo sameinuðum  við kraftana í gagnfræðaskólanum og gáfum út blað sem var valið nafn í kosningum. Gálginn fékk flest atkvæði, en skólastjórinn og mæður okkar bönnuðu það nafn og Hringurinn varð ofan á.

Ingi Bogi Bogason tók myndina og sendi mér. Hann er duglegastur að halda saman minningum frá þessum tíma. Fyrir nokkrum árum buðum við Ingi Bogi Jennu, kennaranum okkar og rithöfundi, í kaffi. Það var skemmtileg stund og eftirminnileg. Jenna minntist margs sem gerst hafði þegar við vorum í skóla. Þá sá ég að minningar eru skemmtilegar, því að hver og einn man það sem gerðist með sínum hætti. Á endanum verða minningarnar það sem eftir situr af því sem maður heldur að hafi gerst. Og hefur þá bætt við því sem maður vildi að hefði gerst.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.