Hve gálaus athöfn (BJ)

Kannski er sagan um Galdra-Loft besta þjóðsaga Íslendinga. Saga af unglingi sem hefur áhuga á göldrum, kann talsvert fyrir sér en vill verða fullnuma og ná svo mikilli leikni að hann geti lifað galdurinn af. Hann vill ná Rauðskinnu, mestu galdrabók allra tíma, af Gottskálki hinum grimma biskupi. Þegar það tekst ekki er Loftur glataður og er á endanum dreginn í hafið af grárri loppu.

Það spillir sögunni ekki að Loftur var til. Hann er talinn fæddur árið 1702, sonur Þorsteins fálkafangara Jónssonar og Ástu Loftsdóttur konu hans sem bjuggu í Vörðufelli á Skógarströnd við Hvammsfjörð. Einhvern tíma hefðu menn gert sér mat úr fálkafangaranum, en hans var ekki þörf við þjóðsöguna.

Svo er sagt að Loftur hafi verið um skeið í Gvendareyjum, sem eru í Hvammsfirðinum ekki mjög langt undan landi, hjá Þormóði nokkrum kraftaskáldi sem fékkst að sögn við kukl. Sagt er að Þormóður hafi ort um Loft:

Á hugann stríðir ærið oft
óróleiki nægur,
síðan eg misti hann litla Loft,
er löng mér stytti dægur.

Það var eins gott að þessi vísa náði ekki inn í þjóðsöguna, því að hún gefur svo sannarlega ekki mynd af hræðilegum galdramanni heldur litlum, skrafhreifum strák. Sagt er að á Hólum hafi Loftur verið lítill og hrekkjóttur.

En þá kemur spurningin hvort Loftur hafi verið vondur í grunninn. Þegar þeir búast til þess í þjóðsögunni að særa upp Gottskálk segir Loftur við aðstoðarmann sinn:

„Þeir, sem eru búnir að læra galdur viðlíka og ég, geta ekki haft hann nema til ills, og verða þeir allir að fyrirfarast, hvenær sem þeir deyja; en kunni maður nógu mikið, þá hefur djöfullinn ekki lengur vald yfir manninum, heldur verður hann að þjóna honum án þess að fá nokkuð í staðinn, eins og hann þjónaði Sæmundi fróða, og hver, sem veit svo mikið, er sjálfráður að því að nota kunnáttu sína svo vel sem hann vill.“

Kannski var þetta þrátt fyrir allt litli Loftur sem vildi nota galdra til góðs. Ef allt hefði gengið hefði hann orðið góður galdrakarl, eins konar Harry Potter (sem ég verð að játa að ég hef ekki lesið).

Eins einkennilegt og það virðist er til frásögn af því að Loftur hafi farið í Hólakirkju með fjórum mönnum og þrír þeirra nafngreindir (en í þjóðsögunni er aðstoðarmaðurinn aðeins einn). hafi Loftur sjálfur stigið í stólinn, Einar verið fyrir altarinu, Ari haldið uppi söngnum, en Jóhann og annar með honum átt að hringja klukkunum, jafnskjótt sem Loftur hefði náð bókinni. Einar þessi og Ari voru bræður og þekktir fyrir áhuga á kukli. Ari var kallaður Galdra-Ari, rétt eins og meistarinn sjálfur.

undirskrift_galdra_loftsUndirskrift Lofts er til á skjali sem er eins konar kveðja eða vottorð til eins af skólabræðrum hans. Þar skrifar hann undir Loftur Thorsteinsson. Skjalið er dagsett árið 1719. Það er meira að segja til bréf til Lofts sem byrjar svona: „ Æruprýddi vellærði yngissveinn, elskulegi vin, Loptur Þorsteinsson, mín vinsamlega heilsan.“ Í bréfinu er talað um góðan vitnisburð Lofts á stúdentsprófi og vinsamlegt bréf hans til bréfritara. Ekkert er getið um kölska, Gottskálk eða Rauðskinnu.

Líklegast hefur Loftur samt sturlast fljótlega eftir þetta, farið í vist hjá presti og stungið sér í sjóinn af bát og ekki komið upp aftur.

Sagan úr kirkjunni getur líka vel verið sönn. Sagt er að fyrir um 50 árum hafi íslenskur prestssonur safnað liði á fylleríi, farið í kirkju og messað um miðja nótt. Líklegast eru kirkjugestir úr þeirri athöfn enn á lífi og predikarinn nýlátinn. Hver veit hvernig sú saga verður í munnmælum eftir hundrað ár?

Snilldin í þjóðsögunni felst ekki bara í efninu. Alla stráka langar til þess að kunna að galdra og þess vegna er eitthvað seiðandi við það að til sé bók sem gerir menn öllum fremri í fjölkynngi.

Loftur segir vitorðsmanni sínum gjörla frá áformum sínum og segir við hann: „Dugðu nú vel, og gjörðu eins og ég legg fyrir þig, og hringdu hvorki of fljótt né of seint, því að við því liggur stundleg og eilíf velferð mín. Skal ég þá launa þér svo vel, að enginn annar skal þér fremri.“

Þarna er því ekki lítið lagt undir. Aðstoðarmaðurinn fær meiri laun en hann getur vænst með öðrum hætti, ef allt gengur upp. En Loftur sjálfur leggur undir stundlega og eilífa velferð sína. Það má ekkert klikka.

„Tunglskin var úti, svo bjart var í kirkjunni.“

Við fylgjumst svo með því þegar hver biskupinn á fætur öðrum kemur upp úr gröf sinni og varar Loft við. En þegar Gottskálk gefur sig ekki „tók þá Loftur að særa fyrst að marki og snerti máli sínu að Gottskálki einum; sneri hann þá iðrunarsálmum Davíðs upp á djöfulinn og gjörði játningu fyrir allt, sem hann hefði vel gjört.“

Gottskálk fer á stjá og mælir frýjunarorð til Lofts sem espast upp. „Sneri hann þá blessunarorðunum og faðirvori upp á djöfulinn; kirkjan hrikti öll og lék á reiðiskjálfi.“

Fer svo að aðstoðarmaðurinn fer á taugum, tekur í klukkustrenginn og allir hverfa aftur í gröfina. Loftur er dapur í bragði yfir viðskiptunum við Gottskálk; „rankaði ég fyrst við mér, þegar svo langt var komið, að hefði ég farið einu særingarstefi lengra, þá mundi kirkjan hafa sokkið, og það var það, sem hann ætlaðist til.“

Við vitum aldrei hvort aðstoðarmaðurinn var skúrkur eða hetja. Eins og málin þróuðust var leikurinn tapaður á báða vegu. Annað hvort sökk kirkjan eða Gottskálk komst aftur í gröfina með Rauðskinnu. Loftur hafði ekki þolinmæði til að ná henni með því að halda biskupunum á róli til sólarupprásar, því þá hefði Gottskálk skilið bókina eftir fremur en að ná ekki gröf sinni.

Hannes Pétursson orti í Kvæðabók árið 1955:

Galdra-Loftur særir

Kirkjan gnötrar, þolir ei þvílík býsn
svo þjösnalegan æðisgang – sem leiki
jörðin öll á skjálfi, skelli þruma á veggjum
og logatungu skjóti um þakið þvert.

Hve gálaus athöfn: Annars vegar hann
sem uppí stólnum firrtur viti magnar
og særir stöðugt meiri kynngikraft
úr köldu, dimmu gólfi
kvalinn af hugans kynjasára þorsta
sem knýr hann til að leysa dulin öfl.

Hins vegar sá er hvergi nærri kemur
sem hlutlaus dreginn var í þennan leik.
Hann gæti klukkustrengsins fyrir framan
en fær sig ekki til, þó húsið nötri
að hringja, stöðva þennan óða ungling
í öfgafullri leit hans að þeim mætti
sem aldrei bugast, beislar allt að vild.
Hann veit þó hverju vindur fram, að allt
veltur á því hann finni glöggt um leið
og sært er um of, og kippi í klukkustrenginn
áður en kirkja sekkur …

Þegar ég las þetta snilldarkvæði um daginn gat ég ekki varist hugsuninni um hliðstæður í nýliðinni tíð. Hvernig særingarnar jukust stig af stigi þar til allt þjóðfélagið lék á reiðiskjálfi.

En skyldi einhver hafa kippt í klukkustrenginn?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.