Spegill, spegill herm þú mér, hver ég er í dag

Ég heyrði í dag frásögn af útlendum spekingi. Hún byrjaði svona: „Á enskri útgáfu þýska vikuritsins Der Spiegel má finna viðtal við franska heimspekinginn Emanuel Todd “ Þetta var sagt á íslensku. Ég þekkti ekki þennan fræðimann, en hann hafði spá falli Sovétríkjanna á tímum Brésnéffs og sitthvað fleira (hruni í Bandaríkjunum, sem kannski er vafasamt). Nú síðast að frelsisstraumar færu um Arabaheiminn. Todd sagðist ekki vera spámaður heldur tölfræðingur. Af því að ég er líka tölfræðingur lagði ég við hlustir (það eru hundar sem sperra eyrun, sagði mamma mér).

Hann talaði um að læsi hefði aukist í Arabalöndum, ekki síst meðal kvenna. Þess vegna væru breytingar óumflýjanlegar.

Auðvitað er gott að sem flestir séu læsir, en jafnvel hinir gáfuðustu menn vita ekki hvað stendur í bókum nema þeir lesi þær, sagði Guðni rektor. Þess vegna er það ekki nóg að kunna að lesa. Menn verða líka að lesa.

Jón Guðmundsson íslenskukennari, Jón Gúmm eins við kölluðum hann (ég sé að flestir skrifuðu Gúm í minningargreinum, en þannig var það nú ekki sagt í gamla daga), talaði stundum um það að allir héldu að menntun ætti að tryggja að allir yrðu víðsýnir og góðir. Samt hefðu Þjóðverjar, menntaðasta þjóð í Evrópu, valið Hitler sem foringja sinn. Göbbels var doktor í einhverju, en hann taldi að Gyðingaofsóknir og –útrýming væru lausn á öllum vanda.

Til eru mörg dæmi um að hinir menntuðustu menn hafi verið afar þröngsýnir. Hriflu-Jónas var víðlesinn maður þó að hann hafi líklega verið með minnimáttarkomplex vegna þess að hann hafði ekki háskólapróf. Hann var hins vegar einhver fordómafyllsti maður Íslandssögunnar, maður sem alltaf réðst persónulega að andstæðingum sínum fremur en eiga við þá rökræður. Þessi holdgervingur framsóknarmennskunnar varð á endanum svo stækur framsóknarmaður að hans eigin flokksmönnum ofbauð.

Þó að menn viti margt er ekki þar með sagt að þeir skilji margt. Flestir verða vitrari þegar þeir eldast að því leyti að þeir hafa reynt margt og vita hvernig þeir eiga að bregðast við margs konar áreitum. Því miður dregur oft úr umburðarlyndi á sama tíma. Þeir eru vissir um að allir þeir sem ekki eru sammála þeim séu asnar. Það er ekki heppilegt.

Stjórnmálamenn eru af mörgu tagi. Nokkrir eru ljóngreindir. Sumir þeirra eru hámenntaðir, en það fer ekki alltaf saman. Einhverjir eru sjarmerandi, fyndnir, heillandi í stórum hópi en eiga erfitt með að umgangast þá sem næst þeim standa. Aðrir eru hrókar alls fagnaðar með vinum, en eru þurrir á manninn þegar komið er í margmenni.

Einkennilegastir eru þeir sem breyta um gervi eftir því hvort kveikt er á hljóðnema eða ekki. Þegar alþjóð heyrir breytast þeir úr sjálfum sér í tilbúna persónu, hannaða fyrir fjölmiðla. Þetta tekst yfirleitt illa.

Sagt hefur verið um einn þekktasta stjórnmálamann Íslands að hann horfi í spegilinn á hverjum morgni og spyrji: „Spegill, spegill herm þú mér, hver ég er í dag.“

Langflestir stjórnmálamenn sem segjast vera með þykkan skráp eru í raun og veru mjög viðkvæmir og þola illa að hallað sé á þá orði. Þannig eru flestir menn. Munurinn er sá að flestir venjulegir menn viðurkenna fúslega að þeir séu hörundssárir og langræknir.

Dapurlegasti eiginleiki stjórnmálamanna er sá að þeir skipta um skoðun eftir því hver annar hefur hana. Ég var líklega orðinn 25 ára þegar ég áttaði mig á því að maður á ekki að styðja eitthvað sjálfkrafa vegna þess að félagi manns heldur því fram, né heldur á maður að vera á móti öllu sem andstæðingar manns fullyrða. Maður á auðvitað að taka mark á vinum sínum og vera tortrygginn í garð andstæðinganna, en skoðanir verða menn að mynda sér sjálfir.

Það er gott að hafa lífsviðhorf. Þá er maður líklegri en ella til þess að skoðanir manns stangist ekki á hverja aðra. Verst er ef maður er kominn í hrópandi mótsögn við sjálfan sig. Engum með sjálfsvirðingu finnst gott ef hægt er að nota hans eigin orð gegn honum. En þeir sem enga sjálfsvirðingu hafa kippa sér ekki upp við það.

Samt mega menn skipta um skoðun, því að sífellt safnast í reynslubankann. Það er vissulega hugsanlegt að menn hafi rangt fyrir sér og þá er rétt að fylgja því sem sannara reynist. Svo geta aðstæður breyst þannig að það sem áður virtist rétt er núna rangt.

Sorglegast er hve margir stjórnmálamenn myndu aldrei skilja vangaveltur af þessu tagi. Mér datt í hug að flokka þá í nokkra hópa: Hrokagikki, hógværa og lítilláta, kraftaskáld, kjána, fyllibyttur, fyrirmyndir, fýlupúka,  lögspekinga, lærifeður, göfugmenni og gufur, svo nokkrir séu nefndir. Ljúflyndir landsfeður, velmeinandi vitringar, meinfýsnir mælskukóngar. En það er of mikil vinna og gæti leitt til leiðinda. Sumir hópar yrðu stærri en aðrir. Ráðherrarnir eru bara 10 og það væri fljótlegra að flokka þá. Samt væri það ekki sanngjarnt því menn eru ekki allir þar sem þeir eru séðir.

Sumir gera sér leik að því að virðast öðruvísi en þeir eru. Rudolf Hess gerði sér upp geðveiki í Nürnberg. Ég held að enginn ráðherra geri það. Það er áleitin spurning hvort einhver geri sér það upp að vera kjáni. Áður en menn segja að það sé fráleitt minni ég á Steingrím Hermannsson. Hann áttaði sig á því að hann komst upp með mjög margt með því að þykjast vera einlægur einfeldningur.

Er það mönnum ennþá  til framdráttar? Það er að minnsta kosti sjaldgæfara að menn geri sér upp að vera vitrir.

Þegar allt kemur til alls er nauðsynlegt að kunna að lesa. Svo eiga menn að lesa. Næst að skilja. Og alltaf að hugsa.


Þessi grein hét áður: Allir kunna að lesa. Enginn skilur neitt (BJ)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.