Björn Bjarnason: Rosabaugur yfir Íslandi (432 bls. kilja. Bókafélagið Ugla, Reykjavík 2011).
Bókin er úttekt höfundar á því hvernig fjallað var um málið í fjölmiðlum. Lítið er fjallað um dómsmálið efnislega, þó að það komi fyrir að fjallað sé um einstakar ákærur og niðurstöður dómstóla um þær. Ritið er gagnleg upprifjun á því hvaða andrúmsloft ríkti á landinu meðan þetta umfangsmesta mál gegn viðskiptajöfrum fyrir hrun var rekið. Stærstum hluta bókarinnar er varið í aðdraganda og framvindu dómsmálsins, en síðustu kaflarnir segja frá því sem síðan hefur gerst og ýmsum ályktunum höfundar um málið.
Forsaga málsins
Sumarið 2002 fóru þau Jónína Benediktsdóttir og Jón Gerald Sullenberger milli manna og sögðu sögu sína af samskiptum við forráðamenn Baugs og grunsemdum um að þeir hefðu stundað ólöglegt athæfi. Jónína bauð t.d. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til sín og fór yfir söguna. Björn getur þess ekki, en Ingibjörg sagðist á sínum tíma hafa hvatt Jónínu til þess að leita til lögreglunnar. Þessi ummæli gleymdust nánast um leið og þau voru sögð, en ítrekað var klifað á ráðum Styrmis Gunnarssonar vegna málsins eins og vandlega kemur fram í bókinni. Styrmir ráðlagði þeim Jóni G. og Jónínu að leita til Jóns Steinars Gunnlaugssonar sem væri afar traustur lögmaður. Jón Steinar kom frásögn Jóns Geralds til lögreglunnar sem fór inn í höfuðstöðvar Baugs til húsleitar um kvöld í ágúst 2002.
Nánast frá fyrsta degi var rannsóknin sjálf tortryggð af fjölmörgum, ekki aðeins forráðamönnum Baugs heldur mörgum öðrum. Til dæmis beitti Fréttablaðið undir stjórn Gunnars Smára Egilssonar sér mikið með greinaskrifum og fréttaflutningi. Fleiri lögðust á sömu sveif. Í bók Björns kemur fram að margir þeirra voru tengdir Baugi eða forráðamönnum hans með einhverjum hætti. Það var ekki komið fram á þeim tíma að Baugur og menn sem voru viðskiptafélagar eigenda hans ættu Fréttablaðið. Það var ekki fyrr en 2. maí 2003 að upplýst var að eigendur Fréttar ehf. sem stofnuð var um rekstur blaðsins 12. júlí 2002 væru Árni Hauksson, sem er nú stjórnarformaður Haga, eignarhaldsfélags margra af þeim búðum sem Baugur rak á Íslandi, Gunnar Smári ritstjóri Fréttablaðsins og síðar forstjóri Dagsbrúnar, fjölmiðlaveldis Baugs, Ingibjörg S. Pálmadóttir innanhússhönnuður og núverandi stjórnar formaður 365, Jóhannes Jónsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Pálmi Haraldsson í Feng og síðar Fons og Ragnar Tómasson lögmaður.
Þann 1. mars 2003 birti Fréttablaðið brot úr fundargerðum stjórnar Baugs vorið 2002. Í blaðinu sagði að Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Baugs á þessum tíma og fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs, hefði varað stjórnendur við aðgerðum af hálfu forsætisráðherra. Björn birtir myndir af greinunum en ekki orðrétt þann kafla sem fjallar um málið, sem þó hefði verið gagn að fyrir frásögnina. Meginatriði í fréttinni er að í samtali Davíðs og Hreins vorið 2002 hafi komið fram að Davíð þekkti Nordica, fyrirtæki Jóns Geralds, og hann sjálfan, þó ekki með réttu nafni. Davíð sagðist skömmu áður í viðtali við Stöð 2 fyrst hafa vitað af tilvist Sullenbergers við húsleitina í lok ágúst 2002. Baugsmenn létu í kjölfar fréttarinnar eins og Fréttablaðið hefði birt fundargerðirnar gegn þeirra vilja. Síðar kom fram (en ekki í bók Björns) að Jón Ásgeir talaði á þessum tíma daglega við Gunnar Smára ritstjóra. Blaðamenn þekktu jafnframt þá einföldu reglu að ekkert birtist um Baug án þess að bera það undir forsvarsmenn hans.
Davíð Oddsson brást við með frægu bolludagsviðtali í RÚV þar sem hann sagðist hafa litlar mætur á Baugsfeðgum. Í kjölfarið sagði forsætisráðherrann frá því þegar Hreinn kom til Davíðs í London og bar honum orð Jóns Ásgeirs um 300 milljóna greiðslu til Davíðs: „Það er enginn maður sem stenst það að vera boðnar 300 milljónir króna inn á hvaða reikning sem er, sporlausa peninga.“ Þetta sagði Hreinn Davíð að sögn tvisvar. Hreinn og Jón Ásgeir viðurkenndu að hafa talað um 300 milljóna greiðslu en í „hálfkæringi.“
Fjölmiðlalögin og Borgarnes
Inn í frásögnina blandast langur kafli um fjölmiðlalögin og þátt Ólafs Ragnars Grímssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Björn getur þess ekki, en það hefur komið fram að Jón Ólafsson og Jóhannes Jónsson sáu um að greiða upp skuldir vegna kosningabaráttu Ólafs í forsetakosningum árið 1996. Ólafur varð fljótt mikill stuðningsmaður stórfyrirtækja, einkum þeirra sem stóðu í útrás. Stuðningur hans kom meðal annars fram í áramótaræðum eins og Björn kemur að.
Þáttaskil urðu í stirðum samskiptum forseta og forsætisráðherra þegar sá fyrrnefndi ákvað að fara í frí á 100 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi. Forsetinn tók það óstinnt upp að hafa ekkert hlutverk í þeim hátíðahöldum sem ekki voru mjög viðamikil, en eins og kunnugt er kom forsetaembættið ekki til sögunnar fyrr en rúmlega 40 árum síðar. Í fríi Ólafs var boðað til ríkisráðsfundar sem stjórnað var af forseta alþingis. Ólafur brást afar illa við og auðvelt er að draga þá ályktun af frásögninni að beint samband hafi verið milli „hégómagirndar“ forsetans og synjunar hans á fjölmiðlalögunum.
Ingibjörg Sólrún, sem hitti Jónínu Benediktsdóttur tvisvar sumarið 2002 samkvæmt bók Jónínu, hélt fræga ræðu í Borgarnesi þar sem hún spurði: „Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki? Þarna er efinn.“ Af ræðunni mátti draga þá ályktun að hún teldi Baug vera skotmark pólitískra árása. Þegar Ingibjörg var orðin formaður Samfylkingarinnar sagði hún að gefið hefði verið út „hálfgert veiðileyfi á fyrirtæki og einstaklinga.“ Síðar notaði hún orðalagið að „pólitískir forystumenn í Sjálfstæðisflokknum hafi att ákæruvaldinu á þetta forað.“ Þetta þarf auðvitað að skoða í ljósi þess að hún sjálf hafði áður ráðlagt Jónínu að leita til lögreglunnar. Ekki er vitað til þess að aðrir stjórnmálamenn hafi gefið svipaðar ráðleggingar, en þær eru alls ekki óeðlilegar. Það er einmitt það sem fólk á að gera ef það telur að brotin hafi verið lög. Því var ástæðulaust hjá Ingibjörgu að gera upphaf málsins tortryggilegt.
Fjölmiðlastríðið
Baugsmálið er einstakt vegna þess að það var að stórum hluta rekið í fjölmiðlum. Baugsmenn höfðu sýnilega haft samband við enskan blaðamann hjá The Guardian um að blaðið yrði fyrst til þess að birta frétt af ákærunni í málinu. Blaðið gerði lítið úr sakarefnum og gaf í skyn að þau fjölluðu um pylsukaup forstjórans og aðra slíka smámuni. Breskur lögfræðingur, Deidre Lo, var fenginn af Baugi til þess að halda blaðamannafund á Hótel Nordica. Hún lýsti því yfir að ekkert væri óeðlilegt við þau atriði sem ákært var fyrir. „Maður skilur þessi mál ekki almennilega fyrr en maður áttar sig á hugarfari Jóns Ásgeirs,“ að sögn Lo. Danskur lögfræðingur á vegum Baugs, Tyge Trier, gagnrýndi ummæli Björns Bjarnasonar um málið. Lögmenn Baugs voru einnig ólatir við að koma fram í fjölmiðlum, auk þess sem Sigurður Líndal var ætíð með svar á reiðum höndum ef til hans var leitað af blaðamönnum. Sigurður taldi marga vankanta á málsmeðferðinni.
Stóra bomban féll þó þegar Fréttablaðið birti tölvupósta Styrmis Gunnarssonar og Jónínu frá sumrinu 2002. Þá kom í ljós að Styrmir veitti svipuð ráð og Ingibjörg Sólrún en gekk þó skrefi lengra og lagði til að Jón Steinar Gunnlaugsson tæki að sér málið. Þeir hittust á fundi um málið með Kjartani Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Þessir póstar reyndust beitt vopn í höndum Baugsmiðla sem með því móti gátu slegið tvær flugur í einu höggi, höfuðóvinina Morgunblaðið og Sjálfstæðisflokkinn. Ekki var lakara að Jónína Ben. kom við söguna líka.
Jóhannesi í Bónus sárnaði að sögn þegar Styrmir réði honum í lok fundar sem þeir áttu að draga sig út úr íslensku viðskiptalífi. Jón Ásgeir móðgaðist þó ekki meira en svo að Baugur gaf út yfirlýsingu um það árið 2004 að vænta mætti þess að umsvif Baugs í Bretlandi ykjust enn og að dregið yrði úr starfsemi á Íslandi. Þessi áætlun stóð ekki lengi, en hún hefði líklega reynst fyrirtækinu og landinu farsæl.
Sífellt var líka klifað á því að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifaði með neikvæðum hætti um fyrirtækið og eigendur þess. Mátti skilja málatilbúnaðinn svo að Björn hefði jafnvel sigað lögreglunni á Baug. Veikleikinn við þessa röksemdafærslu var að Björn var alls ekki dómsmálaráðherra þegar lögreglan leitaði í húsakynnum fyrirtækisins.
Björn birtir í bókinni erindi úr Fróðárhirðinni eftir Einar Benediktsson:
Svo ljómaði dagur. Með lúðurhljóm
var lostið á hurðir og glugga.
Fróðá, hún skalf undir réttarins róm.
Ranglæti tímans var stefnt fyrir dóm
og lýst burtu lífi hvers skugga.
Við langelda Fróðár hvert nafn var níð.
Náhirðin á sína frægðartíð.
– Þá ósóminn hrökklaðist heim um síð
varð Hel sjálfri volgt undir ugga.
Í dómssölum
Ekki verður sagt að ákæruvaldið hafi náð góðum árangri fyrir dómstólum. Miklum meirihluta ákæruliða var vísað frá dómi vegna annmarka. Ákæruatriði væru óljós og rökstuðning og skýringar vantaði. Miklar kröfur voru gerðar til saksóknara. Þetta er rétt að hafa í huga nú þegar gefin hefur verið út ákæra á hendur Geir H. Haarde, en í henni er ekki að sjá neinn rökstuðning.
Héraðsdómarinn Arngrímur Ísberg ákvað 30. júní 2006 að vísa einum lið nýrrar ákæru frá dómi. Jón Ásgeir, forstjóri Baugs, hafði tekið sér lán hjá almenningshlutafélaginu Baugi, til þess að kaupa Vöruveltuna sem rak 10-11 búðirnar. Hann seldi Baugi verslunina nánast strax á miklu hærra verði en hann hafði borgað fyrir hana. Dómarinn taldi að þetta væru ekki fjársvik heldur viðskipti sem vera kynnu að hefðu verið óhagstæð fyrir Baug en hagstæð Jóni Ásgeiri. Líklega hefur þessi ákvörðun sem staðfest var af hæstarétti haft meiri áhrif en nokkuð annað á það hugarfar ævintýramanna í viðskiptum að hér á landi væri allt leyft. Í Fréttablaðinu var því lýst að Arngrímur hefði allt „sem prýða má dómara.“ Ýmis ummæli dómarans meðan á réttarhaldinu stóð gáfu það til kynna að hann mæti málflutning ákæruvaldsins lítils, en kannski hafa þau borið vott um „lunkinn húmor“ hans.
Endanleg niðurstaða var sú að Jón Ásgeir fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Tryggvi Jónsson og Jón Gerald fengu einnig skilorðsbundna dóma. Skattamálum er ekki lokið. Ingibjörg Sólrún, sem þá var utanríkisráðherra, taldi ástæðu til þess að gefa út yfirlýsingu um niðurstöðuna og sagði rannsókn og ákærur „alls ekki hafa í samræmi við tilefnið.“
Aðferðir og ályktanir
Björn segir söguna frá sínu sjónarhorni, en nánast allt efnið hefur áður komið fram í fjölmiðlum, enda segist hann ekki hafa haft beina aðkomu að málinu. Margoft vitnuðu verjendur sakborninga til skrifa um Baug á síðunni bjorn.is. Í bókinni hikar Björn ekki við að birta neikvæð ummæli blaðamanna, lögmanna Baugs og annarra um hann sjálfan. Ætla má að hún gefi góða mynd af því sem sagt var Birni til hnjóðs í málarekstrinum. Hann rifjar vel upp feril alls málsins í fjölmiðlum en talar lítið um það sem gerðist í réttarsalnum.
Málið var mikið rætt af stjórnmálamönnum. Engum getur dulist að Samfylkingin valdi sér stöðu við hlið Baugsmanna. Sérstaklega Ingibjörg Sólrún, en Össur Skarphéðinsson skiptir um lið eftir því hvernig vindar blása og Jóhanna Sigurðardóttir er jafnan mætt með fyrirspurnir um kostnað við rannsóknina þegar sá þarf frækornum efasemda um málsmeðferð. Í ljósi þess hvað sagt hefur verið um Sjálfstæðisflokkinn og stjórnartíð hans er athyglisvert hve stutt er síðan forysta hans (Bláa höndin) var gagnrýnd fyrir að bregða fæti fyrir „okkar bestu menn; þá sem ekki eru þægir.“
Tilgangur Björns er að „greina þær aðferðir sem beitt var til að móta almenningsálit í þágu Baugsmanna, vega að réttarkerfinu og hafa áhrif á niðurstöðu dómara.“ Hann finnur að því að ekki sé minnst á Baugsmálið í siðferðiskafla skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis. Eftir lestur bókarinnar er auðvelt að átta sig á því hve mjög þeir sem rannsökuðu og sóttu málið lentu í skotlínu Baugsmiðlanna og bandamanna þeirra.
Björn segir á bls. 407 að hvorki Jón Ásgeir né Jóhannes hafi verið nægilega ritfærir til þess að skrifa yfirlýsingar sem frá þeim hafi komið. Á sömu síðu er þess getið að Hreinn Loftsson sé ritfær. Björn nefnir marga fjölmiðlamenn sem tengst hafa Baugi og miðlum hans og skipi „sérstakan sess“ í frásögn af málinu. Nefna mætti talsvert fleiri. Ekki er vafi á því að margir blaðamenn hikuðu við að taka afstöðu gegn þessum valdamiklu mönnum í fjölmiðlaheiminum.
Ítrekað er vikið að kvörtunum Baugsmanna og lögfræðinga þeirra undan skrifum Björns á heimasíðu sína. Dómstólar dæmdu oft um það að skrifin gerðu hann og undirmenn hans ekki vanhæfa. Þrenn ummæli voru sérstaklega tilgreind. Öll virðast þau býsna almenns eðlis. Óvenjulegasta færslan er frá 15. mars 2006: „Vara þig á fimmtánda mars, sagði spámaðurinn við Júlíus Sesar … Síðar þennan dag var Sesar myrtur, árið 44 fyrir Krist. Þótt sjálfur Sesar félli fyrir morðingjahendi þennan dag, lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram. Um héraðsdóm í Baugsmáli í dag ætla ég ekki að ræða – jafnvel lýsing mín á staðreyndum, getur valdið uppnámi.“ Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði því að fjalla um kæru Baugsmanna um vanhæfi Björns byggt á þessum skrifum og fleirum.
Engin ummæla Björns virðast sérstaklega meiðandi og flest fjalla þau um Baugsmiðlana. Eftir lestur bókarinnar geta fáir verið í vafa um að þeim var beitt óspart í þágu eigendanna. Um það má auðvitað ræða hvort óeðlilegt sé að fjölmiðlar styðji ákveðinn málstað, hvort sem hann er góður eða slæmur. Jafnframt er rétt að skoða það hvort eigendur eiga að hafa áhrif á skrif sinna miðla. Til hvers þá að eiga fyrirtækið ef menn mega ekki skipta sér af því? Það er hins vegar gagnrýnivert ef laumuspil er um eignarhald og þegar menn þykjast vera óháðir, sérfræðingar, blaðamenn eða rithöfundar, en eru í raun á beinum eða óbeinum styrk frá þeim sem þeir styðja. Björn vitnar í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins sem sagði: „Enginn sem þekkir Sigurð Líndal, mundi láta sér detta í hug að ætla honum það að verulegur fjárstyrkur Baugs Group til Hins íslenzka bókmenntafélags sem Sigurður er í forsvari fyrir, hafi haft nokkur áhrif á ofangreind orð hans.“ Bókmenntafélagið fékk 19 milljón króna styrk frá Baugi. Háar fjárhæðir runnu til margra annarra samtaka, stjórnmálamanna og flokka. Allt hafði þetta örugglega áhrif á almenningsálitið á þessum tíma. Í loftinu hangir spurningin: Hafði þetta líka áhrif á hegðun auðmanna sem töldu að þeir kæmust upp með allt? Þeir þyrftu helst að eignast fjölmiðla og nota þá sér í vil. Öll dagblöð, margar útvarpsstöðvar og tímarit voru í eigu auðkýfinga. Baugsmálið og synjun forseta á fjölmiðlalögunum höfðu örugglega bæði mikil áhrif á það að eftirlitsstofnanir veigruðu sér við að taka á fyrirtækjum sem gengu á svig við reglur.
Ef litið er á það hvað gerðist með gagnrýnu hugarfari má vissulega spyrja sig hvort það sé heppilegt að ritstjóri Morgunblaðsins taki að sér hlutverk ráðgjafa í máli af þessu tagi. Jafnframt orkaði tvímælis í ljósi forsögunnar að hann skyldi ráða ráðum sínum við menn sem voru svo nánir forsætisráðherranum. Mál sem hefði byrjað fyrir atbeina stjórnmálamanna sem öttu lögreglunni á saklausa athafnamenn hefði samt strax runnið út í sandinn. Rannsóknin vatt þvert á móti upp á sig og fjölmörg tortryggileg atriði komu í ljós. Málið gufaði þó upp að stórum hluta, en enginn mun nokkru sinni vita hvort það var vegna þess að rannsókn og málflutningi var ábótavant eða dómarar skildu ekki flókna fjármálagjörninga. Björn bendir á að Jón Ásgeir og Jóhannes töluðu um milljarða kostnað Baugs vegna málsins, ekki síst til þess að bæta ímyndina erlendis. Málið var þó alls ekki rekið gegn Baugi heldur starfmönnum hans sem taldir voru hafa misnotað aðstöðu sína. Þessu hefur ekki verið haldið á lofti.
Niðurstöður
Rosabaugur er lipurlega skrifuð bók. Hún er lýsing Björns á því sem gerðist. Eins og hér kemur fram að framan sleppir Björn ýmsu sem máli skiptir. Ekki er þó hægt að segja að þau atriði sem sleppt er séu málstað hans almennt óhagstæð. Margir geta eflaust hugsað sér að skrifa bók til þess að svara Birni. Enginn Baugspennanna virðist þó líklegur til þess að geta skrifað trúverðuga bók um efnið. Snjall rithöfundur gæti rakið gang málsins sem spennusögu. Það hefur svo sannarlega söguþráð sem spennusagnahöfundur gæti gert sér mat úr.
Bókinni er skipt í 64 stutta kafla og það er góð aðferð. Björn heldur athygli lesenda vel og ritdómari las bókina á þremur dögum. Margar blaðaúrklippur fylgja á myndum. Það er galli að við flestar þeirra vantar texta um það hvaðan þær koma og hvenær þær birtust, þó að oftast komi það fram í texta. Mikið er af tilvísunum neðanmáls, en þær hefðu þó þurft að vera talsvert fleiri. Nokkuð er um að Björn fari fram og aftur í tíma og þá ekki alltaf gott að átta sig á því í hvaða samhengi ummæli eru sett fram. Endurtekningar eru nokkrar. Frágangur er annars vandaður og snyrtilegur. Ein ritvilla fannst á bls. 391 þar sem Jón Ásgeir segir að fall Glitnis væri ekki hægt að rekja til lána til Glitnis. Sums staðar er farið hratt yfir sögu. Jón Gerald nánast dettur af himnum ofan inn í frásögnina. Víðar mátti gera ráð fyrir því að ekki muni allir samhengi hlutanna.
Verjendur Baugsmanna fjölluðu mikið um málið í fjölmiðlum. Það er óvenjulegt á Íslandi en ekki einsdæmi. Ekki er ástæða til þess að amast við því að lögmenn tali máli sinna skjólstæðinga. Til þess eru þeir ráðnir. Þeim ber þó að halda sig við staðreyndir. Björn bendir á dæmi þar sem farið virðist á svig við þær í málflutningi fyrir dómstól götunnar. Ekki þarf að efa að slíkur málflutningur utan dómsala getur verið mjög áhrifaríkur og má þar minna á mál þeirra sem fóru með ofbeldi að starfsmönnum alþingis haustið 2008.
Rosabaugur yfir Íslandi er gagnleg bók fyrir þá sem vilja skilja Baugsmálið og þau vinnubrögð sem þar var beitt. Hún er örugglega ekki síðasta orðið um þetta mál. Bók af þessu tagi þyrfti einnig að skrifa um önnur mál í aðdraganda hrunsins, til dæmis einkavæðingu bankanna og afleiðingar hennar. Mörgum mun sárna yfirferð Björns og telja á sig hallað. Enginn getur sakað hann um að sigla undir fölsku flaggi eða láta eins og hann sé hlutlaus áhorfandi. Verstar eru bækur um sögulegt efni þar sem hlutdrægir menn látast vera öllum óháðir. Í Baugsmálinu voru margir slíkir og í framtíðinni má búast við því að þessum vinnubrögðum verði beitt aftur. Rosabaugur er víti til varnaðar.
Birtist í Vísbendingu 30.5. 2011.