Of leiðinlegt til birtingar (BJ)

Ég var búinn að skrifa pistill. Eða næstum búinn að því. Svo ætlaði ég að lesa hann yfir en komst þá að því að hann var svo leiðinlegur að ég gat ekki einu sinni klárað að lesa hann sjálfur. Nú hugsa dyggir lesendur örugglega: Sá hefur verið leiðinlegur ef hann komst ekki í gegnum síuna. Satt að segja virðist leiðindaþröskuldurinn á þessum pistlum almennt ekki vera mjög hár.

Ég man eftir því að Monty Python voru einu sinni með atriði um fyndnasta brandara í heimi. Hann var svo fyndinn að þeir sem lásu hann dóu úr hlátri. Í öryggisskyni var brandarinn skorinn niður í einstök orð og breskir flugumenn fóru með hann til Þýskalands til þess að vinna á óvininum. Einhver sá tvö orð og varð veikur af hlátri dögum saman.

Svona var pistillinn minn. Eina ástæðan til þess að ég lifði hann af sjálfur var að ég náði ekki að klára hann.

Einhver kynni að spyrja hvort þessi umræddi pistill hafi verið leiðinlegri en venjulegur leiðari í dagblaði. Ég verð að svara því að svo er ekki, en einmitt sú staðreynd að lesendum dagblaðanna fækkar stöðugt sannar mitt mál. Það eru þeir sem lesa leiðarana sem stöðugt týna tölunni.

Ef dagblöð hættu að birta leiðara sýna kannanir að jafnskjótt myndi lesendum fjölga á ný. Það er reyndar of djúpt í árinni tekið að segja að allir leiðaralesendur geispi golunni. Sumir flýja land. Hagstofan birti í dag nýja mannfjöldaspá sem er með mjög miklu óvissubili eftir því hvort dagblöðin fara á hausinn og leiðaralestur hætti eða ekki. Í öðru tilvikinu verða 58 ólæs börn eftir og 732 gamalmenni með alzheimer árið 2050. Fari blöðin á hausinn verða Íslendingar 87 milljónir þetta ár.

Ef menn trúa mér ekki hugsið þá um þetta: Vandlegir útreikningar leiða í ljós að í löndum þar sem engin íslensk dagblöð með leiðurum eru gefin út eru íbúar yfirleitt taldir í milljónum. Á Indlandi og í Kína er fólksfjöldinn meira að segja mældur í milljörðum. Engir íslenskir leiðarar þar. Þarf frekar vitnanna við?

Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum biðu allir eftir ofurleiðurum. En sú bið er eins og biðin eftir Godot. Hún tekur aldrei enda.

Sumir kunna að spyrja hvort það sé þá ekki afskaplega hættulegt starf að skrifa leiðara. Svarið er já og þess vegna er því yfirleitt skipt á nokkra. Til þess að minnka áhættuna enn er svo sami leiðarinn birtur dag eftir dag, viku eftir viku. Þetta er alveg óhætt vegna þess að langflest fólk veit ekki einu sinni hvar leiðarinn er í blaðinu, hvað þá að það lesi hann.

Ég má ekki ljóstra upp leyndarmáli leiðarahöfunda og bið því lesendur fyrir það. Í hverjum leiðara er að minnsta kosti einn brandari sem er svo lélegur að hann einn nægir til þess að gera útaf við veikgeðja gamalmenni. Auðvitað eru svo fúlir brandarar aðeins á færi fagmanna og ég bið lesendur að reyna ekki einu sinni sjálf að segja þá, hvað þá skrifa þá niður. Samt eru nokkrir punktar: Setjið inn orðaleiki og ef þið myndskreytið leiðarana hafið þá karla í pilsum og með brjóstahaldara. Það virkara alltaf.

En ef einhver er kominn svona langt er rétt að upplýsa það áður en það verður of seint: Þetta er leiðarinn sem ég ætlaði ekki að birta.

Blasir það ekki við hvers vegna hann er sagður leiðari?

PS. Ég man ekki hvers vegna ég birti mynd af okkur Páli Stefánssyni með þessum pistli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.