Nú er ég hlessa (BJ)

Líklega er vefsvæði saksóknara Alþingis það vitlausasta sem komið hefur fram í  málinu gegn Geir H. Haarde hingað til. Til hvers í ósköpunum? Ætlar saksóknarinn að blogga á hverjum degi? Er peningunum vel varið í það? Svarið blasir reyndar við.

Saksóknarinn hefur lært af Baugsmálinu. Hann ætlar að reka málið í fjölmiðlum og setja þannig pressu á dómarana. Steingrímur og Atli með sín krókódílatár hafa eflaust verið með í ráðum.

Þeim finnst öllum  sjálfsagt að eyða meiri peningum sem ríkissjóður á hvort sem er ekki í þetta dapurlega mál. Það er athyglisvert að með pólitískum réttarhöldum af þessu tagi er hægt að klekkja á andstæðingnum án þess að fá hann dæmdan. Með því að halda málinu nógu lengi áfram hleðst upp málsvarnarkostnaður, auk þess sem sakborningurinn tapar dýrmætum tíma.

Reyndar bætir saksóknarinn sífellt í vitleysuna. Það er ekki nóg með að hann ætli að sjá um sóknina á vefsíðunni heldur býðst hann til þess að sjá um vörnina líka. Og forsætisráðherra hikar ekki við að blessa gjörninginn. Mér finnst þetta ekki ríma vel.

Ákæran sem gefin var út um daginn ætti ein og sér að nægja til þess að landsdómur hafnaði málinu. Í hana vantaði allan rökstuðning. Því miður bendir margt til þess að dómararnir séu hræddir við að taka afstöðu á málefnalegum forsendum en hlusti þess í stað á kviðdóm Eyjunnar. Saksóknarinn sem einfaldlega er ráðinn í verkefni virðist halda að hann gegni sérstöku embætti á vegum Alþingis. Þarf fólk ekkert að skilja áður en það er ráðið í slík verk? Eða fæst kannski bara svona fólk í subbudjobb?

Næg rök standa til þess að enda málið nú þegar. Hugaðir dómarar dæma að lögum. Hinir láta leiða sig dýpra út í fenið.

Í millitíðinni er vefsvæðið www.malsvorn.is góður vettvangur þeirra sem vilja styðja Geir Haarde móralskt og fjárhagslega og sporna þannig við óhæfum saksóknara í þeirri óhæfu sem felst í  fyrstu pólitísku réttarhöldum landsins.

– – –

Það var gott hjá Birni Bjarnasyni að rifja það upp hvernig stjórnmálamenn börðust gegn lögreglunni og ákæruvaldinu í Baugsmálinu. Sérstaklega Samfylkingin sem stillti sér upp við hlið flestra þeirra sem sættu rannsóknum.

Nú þarf að skrifa fleiri bækur. Til dæmis um einkavæðinguna, meðferðina á Eimskipafélaginu, hringekjuna með Sterling flugfélagið og margt fleira. Af nógu er að taka. Björn þarf ekki að skrifa þetta allt einn, en það er ekkert gagn að svona bókum ef menn eru á launum við að hagræða sannleikanum í þágu þeirra sem settu allt í rúst og munu gera það aftur ef tækifæri gefst.

– – –

Noregskonungasögur segja frá Þorkeli þunna sem var drýsil sem heimsótti menn konungs að nóttu. Þorkell sagði frá því að Starkaður kveldist mjög í víti því að hann hefði „ökklaeld“. Það fannst viðmælandanum ekki mikið þó að hann stæði í eldi upp að ökklum. Sjónarhornið breyttist þegar í ljós kom að einungis lappir Starkaðar stóðu upp úr eldinum.

– – –

Landnámabók greinir frá því að hingað til lands hafi írskir menn komið á undan þeim Ingólfi og Hallveigu. Þess vegna skil ég ekki í því að margir telja sig hafa uppgötvað eitthvað nýtt þegar rústir finnast frá tíma papanna. Slíkir fundir staðfesta Íslandssöguna en breyta henni ekki.

– – –

Mig dreymdi þetta í morgun: Einhver spurði: Heldurðu að guð hafi gert mistök þegar hann skapaði Þór Saari? Svarið var: Bara pínulítil mistök.

Svona er gaman hjá mér jafnt á nóttu sem degi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.