Þingmenn eru fyndnari en þeir líta út fyrir að vera

Ég velti því fyrir mér hvers vegna maður er ekki úthvíldur eftir langar helgar. Kannski ætlar maður sér að gera allt of margt og er þreyttur af því að ekkert gerðist. Kannski gerði maður eitthvað og líkaminn gerir uppreisn.

Ég gekk á Esju í fyrsta sinn í mánuð. Meira að segja í glampandi sólskini og nefið á mér varð eldrautt. Það var bara af göngunni, smakkaði ekki dropa af rauðvíni. Kannski hefur líkaminn gert uppreisn þess vegna.

Á sunnudaginn vaknaði ég klukkan sex um morgun. Ég er farinn að gera það á hverjum morgni þannig að það er varla í frásögur færandi. Í þetta sinn fór ég í tölvuna þó að mig langaði mest til þess að fara í göngutúr. Vildi samt ekki vekja Vigdísi sem er útkeyrð eftir stranga viku á Alþingi.

Það varð sögulegur viðburður. Eitt kvöldið kveikti ég á Alþingisrásinni til þess að athuga hvort Vigdís væri ekki örugglega að vinna. Þetta er mjög praktískt að hafa svona njósnamyndavél því hvað veit maður hvar fólk er ef maður getur ekki fylgst með því í beinni. Ég hef líka oft nýtt mér þetta þegar ég er með partý hér heima, sem er svo slitið jafnskyndilega og þingfundi og ég lagstur undir sæng eins og ungabarn þegar Vigdís kemur.

Viðburðurinn var ekki sá að Vigdís væri í sjónvarpinu heldur hitt að einmitt þessa mínútu kom Pétur Blöndal í pontu til þess að ræða fundarstjórn forseta. En fundarstjórnin var svo skemmtileg að Pétur kom ekki upp orði fyrir hlátri. Nú er það í sjálfu sér ekki í frásögur færandi því að Pétur er annálaður gleðipinni. Það sem vakti athygli mína var hins vegar framkoma Vigdísar.

Ég hef oft getað vitnað til þess þegar ég segi góða sögu, hreinlega fer á kostum þó að ég segi sjálfur frá, og Vigdísi stekkur ekki bros, að hún hafi enga kímnigáfu. Allir hafa kinkað kolli samúðarfullir, því að það hefur ekki farið framhjá neinum að það er sama hve stórkostleg kímni flýgur úr ræðustól þingsins. Vigdísi stekkur ekki bros fremur en þar sé sfinxinn sjálfur mættur, meitlaður í stein. Það heyrist ekki mannsins mál fyrir hlátri þingmanna en ekki kemur brosvipra hjá Vigdísi. Við hverju get ég þá búist, amatör á þessu sviði?

En þetta kvöld, þegar Pétur hló svo dátt, urðu þau undur og stórmerki að það kom ekki aðeins bros í annað munnvikið hjá Vigdísi heldur sá ég ekki betur en hún hreinlega skellti upp úr. Ég hef því stúderað upptöku af þessari hnyttnu ræðu Péturs til þess að læra af meistaranum. En á Youtube upptökunni fer texti yfir skjáinn: Members of Althingi are funnier than they look. Don’t try this at home!

En þetta var útúrdúr frá sunnudagsvafri mínu um vefinn. Um klukkan átta var ég farinn að kynna mér píanóferil Jacks Lemmons. Þá spilaði ég myndbrot þar sem hann lék undir söng einhverrar leikkonu sem söng: I’ve got a crush on you. Eftir hálfa mínútu heyri þrusk frá Vigdísi og hugsa með mér að þetta sé mjög rómantísk byrjun á deginum. Hún komi fram og ég sé þá einmitt að spila: I’ve got a crush on you. Hún var greinilega komin framúr og varla nema 3 sekúndur eða svo í að hún birtist með bros á vör á þessum fallega degi.

Í því að ég lít fram í dyragættina eins og af tilviljun (þetta var ég lengi búinn að æfa) heyri að Vigdís er komin að dyrunum og … skellir á þessa ljúfu tóna. Ég heyrði ekki meir.


Þessi pistill hét áður Með bros á vör (BJ)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.