Vegalausir Tékkar (BJ)

Það var bankað á dyrnar. Fyrir utan voru tveir órakaðir menn sem manni leist miðlungi vel á, en við opnuðum samt. Það er alltaf opnað í sveitinni. Gætu þeir fengið vatn? Við reyndum að bjóða þeim hvítvín eða rauðvín, en þeir gáfu sig ekki, vildu bara vatn. Það var þá auðsótt.

Það kom í ljós að þeir voru tékkneskir ferðamenn á fyrsta degi ferðalags um Ísland. Annað töluðu þeir ekki við okkur og hurfu á brott. Við veltum því fyrir okkur hvað hefði leitt þá á okkar fund og hverskyns fírar þetta væru. Kannski hefði verið óráðlegt að opna fyrir þeim. Einhver sagði að það væri ljótt að tortryggja þessa veslings menn, sem hefðu leitað ásjár hjá okkur. Ég fékk samviskubit yfir að hafa hugsað svona. Svo bætti hann við: „Við skulum samt læsa bílunum okkar.“

Við vorum í Dyrhólaey, rétt utan friðlýsta svæðisins. Öðru hvoru brá skugga á gluggann af Umhverfisráðherra með lása og keðjur eða reyni löggu með klippurnar.

Hálfu hvítvínsglasi seinna var aftur bankað. Skyldu þeir vera búnir með vatnið? Kannski langaði þá í hvítvínið eftir allt.

Í þetta sinn voru þeir í meiri vanda. Hljóðkúturinn á bílnum þeirra var ónýtur. Ég kíkti út og sá að það var enginn vafi, rörið var í sundur. Bíllinn hafði séð betri tíma á ofanverðri tuttugustu öldinni. Þeir höfðu tekið á leigu bíl hjá einhverri bílaleigu sem ekkert okkar hafði heyrt nefnda.

Við lögðum til að þeir færu á verkstæði í Vík. Þeir gætu eflaust bjargað þessu. En það var sama hversu nákvæmlega því var lýst hvar þetta verkstæði væri og hve mikið starfsmenn þess voru lofaðir, þeir töldu rétt að við leystum vandann.

Á endanum hringdi einn okkar í Gídeons-bílaleiguna.

„Hér eru menn í vandræðum með bíl frá ykkur.“

„Vanta bíl?“

„Nei, okkur vantar ekki bíl, það eru vandræði með bíl frá ykkur.“

„Þig vanta bíl?“

„Hér er maður frá Tékklandi sem tók bíl hjá ykkur í dag og bíllinn er bilaður.“

„Ég tala með honum.“

„Nú þú talar tékknesku.“

„Já, já, við tala í dag.“

Feginn rétti hann símann til Tékkans sem skildi ekkert. Hann sagði nokkur orð í símann, en þá skildi konan  í Gídeon ekki neitt. Tékkinn hristi höfuðið yfir þessu skrítna fólki og rétti símann tilbaka.

Félagi minn spurði konuna á ensku hvort hún talaði pólsku (hverju hefðum við verið bættari með það?) en hún talaði bara íslenska.

Símtalið slitnaði á endanum.

Skömmu síðar hringdi síminn aftur og þessi kona talaði ekki bara íslensku heldur skildi hana líka þokkalega. Sá galli var á gjöf Njarðar að nú var Tékkinn farinn þannig að við urðum að lofa að finna hann (hvernig sem átti nú að fara að því, allir búnir með nokkur léttvínsglös, auk þess sem enginn vissi hvar þessir menn gistu. Loks mátti búast við mönnum með haglabyssur, klippur og hliðgrindur á stjái hér og þar).

Einhvern tíma fyrir miðnætti hringdi bílaleigan aftur og hafði þá fundið þessa óheppnu Tékka. Sem betur fer hafði teygst á brottför hjá okkur þannig að engin lög voru brotin.

Húsráðandi var farinn að flokka pillur í krús til þess að gleyma ekki að taka þær morguninn eftir. Við hliðina á pilluglösunum hafði hann koníaksfleyg og líkjörsflösku. Ekkert átti að gleymast næsta morgun.

Enda varð morguninn ógleymanlegur. Ég hef aldrei áður fengið æðarfuglsegg í morgunmat.


Þessi pistill hét áður: Í framlínunni (BJ)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.