Labbandi labbakútar (BJ)

Sum orð eru kraftmikil, stutt og snjöll. Afl er eitt. Önnur bera með sér letina og slappleikann. Pabbi sagði mér frá því að í skátahandbókinni hefðu verið myndir af tveimur ungum piltum. Annar var með sígarettuna í munnvikinu, hokinn í herðum og gott ef hann sat ekki á kassa, fýlulegur á svip. Hinn var spengilegur, krafturinn og gleðin uppmáluð. Undir myndunum stóð: Sígarettubuxnavasahengilmæna og skáti. Ég veit ekki hvort þessar myndir urðu til þess að ég varð hvorugt, en fyrra orðið festist mér í minni. Hitt þekkti ég fyrir.

Ég hef haft gaman af fjallgöngum undanfarin ár og stundað þær af mismiklu kappi. Stundum er ferðinni ekki heitið á fjöll. Til dæmis gengum við yfir Fimmvörðuháls fyrir tveimur árum hjónin og í fyrra leiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur sem nú er kölluð Laugavegur.

Vegna þess að ég hef gaman af útivist finnst mér það dapurlegt að sífellt færri ganga. Þetta segi ég ekki bara vegna þess að Íslendingar verða feitari ár frá ári. Það getur gerst þrátt fyrir göngur.

Nei, nú eru Íslendingar hættir að ganga og farnir að labba. Fjölmargir labba Laugaveginn. Ekki bara þann sem liggur niður á Lækjartorg heldur líka hinn nýrri og meiri.

Labb og ganga er sitthvað.

Labb er hægur gangur eða rölt samkvæmt orðabókinni.

Margir tala um að labba á fjöll. Það er ekki kraftmikil hreyfing. Menn geta labbað fram og aftur. Kannski naut labbið fyrst vinsælda vegna þess að menn vildu ekki ganga í hægðum sínum.

Nú er labbið allsráðandi.

Eigum við að labba á Esjuna? sagði einhver. Ég þverneitaði og taldi það fyrir neðan mína virðingu. Einhverjir ætla meira að segja að labba á Hvannadalshnjúk.

Þegar ég gekk á hann með hópi fólks var það níu tíma púl. Við röltum af stað, stikuðum fyrsta spölinn en örkuðum svo upp brekkur og fetuðum þrönga skorninga. Stundum var brattinn svo mikill að við skriðum upp, en oft skeiðuðum við áfram. Einstaka ráfuðu af réttri leið, en fararstjórinn beindi þeim aftur á slóðina. Þegar við áðum þrömmuðu sumir fram og tilbaka sér til hita. Einn og einn plampaði niður í sprungu, en lét það ekki tefja sig. Síðasta tindinn klifum við örþreytt. Það voru stoltir göngugarpar sem stigu á tindinn.

Engir labbandi labbakútar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.