Það er erfitt að skýra það fyrir þeim sem ekki veiðir hvað er gaman að standa tímunum saman úti í á, kaldur og hrakinn, án nokkurrar sýnilegrar umbunar. Þá sjaldan einhver hreyfing finnst er eins víst að flugan sé föst í botni eða hafi krækst í fljótandi slý. Fiskarnir hafa alla ána til þess að synda um í meðan veiðimaðurinn er bundinn við það að kasta út pínulítilli flugu sem varla sést með berum augum, að minnsta kosti ekki hjá fólki á sextugsaldri.
Fyrir rúmlega 20 árum fór ég við fjórða mann í fínustu laxveiðiá landsins. Ég ætla ekki að nefna hana á nafn, en Eric Clapton veiðir í henni á hverju sumri. Við höfðum gert okkur klára og gengum yfir brú á leiðinni að okkar veiðisvæði. Félagi minn benti mér ofan í vatnið: „Sérðu, þarna eru fjórir.“
Ég horfði ofan í hylinn og sá gárur. Þó að það væri mér þvert um geð varð ég að játa að ég sá ekkert líf. Félaginn hló og sagði að auðvitað yrði ég að vera með sólgleraugu. Ég var með gleraugu í vasanum, þó að það væri rigning, því að ég hafði skilið að þau voru til þess að hlífa augunum.
Gleraugun voru komin á nefið og hróðugur rýndi ég í vatnið.
Ég sá svartar gárur.
Félaginn sem var að jafnaði hinn vinsamlegasti hristi höfuðið: „Ertu ekki með Polaroid-gleraugu?“
Ég vissi auðvitað ekki annað um Polaroid en að það var myndavél sem maður gat fengið myndir úr á svipstundu. Það var ekki laust við að ég væri paranoid, en alls ekki polaroid.
Það var ljóst að ég var mikill amatör á þessu sviði og á því stigi málsins var mér nokk sama. Ég hafði aldrei veitt lax og átti erfitt með að skilja gamanið við þetta sport. Á þessum tíma renndi ég maðki, sem ég bið lesendur að fara ekki með lengra, því að það þykir ekki fín veiðiaðferð.
Í þessum túr veiddi ég heldur engan lax.
Eftir þetta fór ég að fara í veiðitúra. Þó að ég veiddi ekki neitt var gaman að fara upp á félagsskapinn. Eða svo sagði maður að minnsta kosti. Þetta er svona eins og þeir sem ekki náðu í neina stelpu á böllum í gamla daga sögðu: Það er alltaf gaman að hlusta á hljómsveitina.
Mörgum árum seinna fékk ég fyrsta laxinn. Hann sleit öngulinn af línunni. Hnúturinn skiptir nefnilega líka máli. Mig langaði ekkert að veiða þann fisk. Leiðsögumaðurinn nánast beindi önglinum upp í varnarlausan fiskinn.
Það eru mörg ár síðan þetta var og ég á núna alls kyns græjur og get ekki farið í veiðitúr án þess að kaupa slatta af flugum, línur, tauma og einhverja nýja græju. Ég spekúlera í merkjum og þekki einar tvær flugur með nafni. Mér fannst gaman að fá hugmyndir um nýjar flugur frá fagmönnum. Þess vegna varð ég glaður að fá eftirfarandi póst frá vini mínum um daginn:
„Spáin er sólrík svo það eru bjartar flugur, Silver sheep longtail og Black and blue longtail ef menn vilja skipta Sun ray út. Annars er ég með ofurfluguna Viagra sem verður spennandi að prufa.“
Ég mætti galvaskur í veiðibúðina og fann umsvifalaust Silver sheep, Black and blue og Sun ray. En hvergi fann ég ofurfluguna. Þrisvar fór ég yfir fluguhilluna til þess að leita en án árangurs. Ég leit í kringum mig og afgreiðslumaðurinn sá að ég var í vandræðum og kom til mín og spurði hvort hann gæti hjálpað. Ég ræskti mig og spurði:
„Ertu nokkuð með, … það er að segja ertu með … “
Ég leit við og sá vinkonu mína við búðarborðið.
„… ertu með Sun ray?“
Jú hann átti hana og leiddi mig að boxinu sem ég var nýbúinn að skófla úr. Ég bætti tveimur í safnið. Velti þeim reyndar lengi, strauk hvert hár og bar þær upp að ljósinu til þess að virðast prófessjónal, en var í raun bara að vinna tíma.
Loksins var vinkonan horfin og ég þreif í afgreiðslumanninn.
„Áttu Viagra?“
Viðbrögðin voru ekki uppörvandi.
„Er það ekki helst í apótekum?“
—
Það er viðauki við söguna.
Í veiðitúrnum var kona sem sagði frá því að hún hefði verið í veiðibúð og séð þessa fallegu flugu sem hún spurði um.
Afgreiðslumaðurinn svaraði: „Já þeir ná honum upp með þessari. Hún heitir Viagra.“
Allar konurnar hlógu.
Mér fannst þetta ekkert mjög fyndið.