Að skjótast inn í ættir (BJ)

Sumir halda að þegar maður giftist sé það einfalt mál þar sem það sé nóg að finna sæmilega viðfeldinn maka og þar með sé hamingjan tryggð. Að vísu er ég viss um að það er miklu betri leið en giftast einhverjum fráhrindandi og leiðinlegum, en það eru ekki mikil vísindi. Hjónabandinu fylgir heill pakki sem menn verða að sætta sig við.

Ég giftist einum slíkum, líklega fleiri en einum, ekki vegna þess að ég stundi fjölkvæni en fjölskyldumynstrið er oftast flóknara en svo að allir séu í einu búnti. Vigdís mín á til dæmis bæði föður og móður sem eru óskyld, þannig að henni fylgja tvær ættir. Inn í þessa ætt skýst ég svo, ekki utanveltu hjónabandsins heldur einmitt í hjónabandinu.

Nú um helgina var ættarmót á Ingjaldssandi.

Ingjaldssandur hefur þann kost að fáir vita hvar hann er á landinu. Þess vegna var fólk þaðan áratugum saman einangrað frá umheiminum og var því eins og sérstakur þjóðflokkur þegar þau loks uppgötvuðust, rétt eins og stundum gerist í frumskógum í fjarlægum álfum.

Áður en lengra er haldið er rétt að fyrirbyggja allan misskilning um tengsl við Ingjaldsfíflið sem þekkt er úr Gísla sögu. Vísindamenn telja að sáralitlar líkur séu að sögur af því byggist á fornum minnum af Sandinum.

Ingjaldssandur er einangraður frá veröldinni með fjöllum, hafi og heiðum og  frásagnir af fyrsta landnámsmanninum þar, Ingjaldi Brúnasyni, eru svo óljósar að bæjarnafns er ekki getið. Bjarni mágur minn telur (og fleiri eru sama sinnis) að landnámsjörðin sé annað hvort Sæból eða Álfadalur. Hann á báðar, þannig að honum er nokk sama. Mér finnst Sæból líklegra, því að það er fallegt og sólríkt bæjarstæði.

Mér hefur dottið það í hug si svona að Brúna nafnið hjá föður Ingjalds sé enn lifandi með sínum hætti, því að karlmenn eru sambrýndir og brúnaþungir, en konur brúneygar og sumar dökkar á hörund.

Jón tengdapabbi var fæddur á Álfadal. Hann var sonur hjónanna Bjarna Ívarssonar og Jónu Guðmundsdóttur. Þau hafa áður komið við sögu en Gunnar föðurbróðir Vigdísar og yngsti bróðir Jóns sagði mér einu sinni að karlarnir í sveitinni hefðu kallað Bjarna búskussa. Gunnar var heldur betur upp með sér af þessari nafnbót, hélt að þetta hefði verið prófgráða sem Bjarni hefði hlotið í búfræðináminu á Hvanneyri.

Bjarni var skáld og honum lét betur að yrkja en slá og gefa skepnum. Hann lét því konu sína um bústörfin eins og hægt var.

Jón tengdapabbi tók föður sinn sér til fyrirmyndar í þessum efnum.

Ég ákvað svo að apa þetta eftir þeim feðgum og finnst sjálfsagt að virða ættarhefðir í þessu sem öðru.

Á ættarmóti gera menn sér margt til gamans. Þau frændsystkinin gerðu minningarlund um Jónu og Bjarna og girtu af heilan hektara sem þau ætla að fylla af trjám. Hektari er tíuþúsund fermetrar og ef það verður eitt tré á fermetra eru það tíu þúsund tré. Í gær voru sett niður þrjú hundruð tré, flest smávaxin þannig að ókunnugir sem litu þessa girðingu gætu haldið að þetta væri minningamelur. En eftir áttatíu ár verður þarna allt viði vaxið og allir munu undrast framsýni þeirra sem áttu hugmyndina að þessum lundi. Til þess að heiðurinn af því dreifist ekki of víða vil ég að það komi hér fram að ég átti hugmyndina að þessu (þetta er lygi, en ég bið lesendur að gleyma því).

Einhver kann að undrast að svo stóran lund skuli hafa þurft, en það er auðskilið. Hektari er hundrað metrar á kant og fjölskyldan er undir áhrifum frá Bangsímon sem var í Hundraðmetraskóginum eins og vel lesnir vita náttúrulega.

Á Núpi má sjá myndir af þeim Bjarna Ívarssyni á veggspjaldi frá fyrsta ári skólans. Þá var líka í skólanum Ingimar Jóhannesson, bróðursonur Jónu og nágranni minn á Laugarásveginum og góður vinur. Ingimar var tveimur árum yngri en Jóna og gerði sér leik að því á efri árum að segja við fólk: „Þetta man ég ekki, en skal spyrja hana föðursystur mína.“ Af því að Ingimar var á níræðisaldri fannst mörgum þetta greinilegt merki um að hann væri orðinn spinnegal, en ekkert var fjær sanni, enda föðursystir hans sprelllifandi. Ingimar var sonur Jóhannesar, elsta bróður Jónu, þess er drukknaði þegar hann fór nauðugur í ferð með Hannesi Hafstein, 10. október árið 1899. Hannes ætlaði þá að klekkja á landhelgisbrjótum enskum með þessum hörmulegu afleiðingum.

Guðmundur, faðir Jónu, átti a.m.k. tuttugu börn, og ég þykist muna að Ingimar hafi sagt Jónu að hann hafi í kirkjubókum fundið tvö í viðbót sem hafi dáið ung. Vigdís fann tuttugu núna, en mæðurnar voru þrjár.

Á þetta mót komu áttatíu manns, afkomendur, makar, börn og önnur viðhengi. Líklega hefðu getað komið um þrjátíu í viðbót. Svona breiða ættir hratt úr sér.

Segi kannski meira frá þessu góða fólki seinna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.