Íslenski kúrinn (BJ)

Svo bar til fyrir skemmstu að hélt ég yfir höfin í víking til berserkja þeirra sem þar ráða ríkjum. Hugðist ég segja þeim Evrópusambandsmönnum (en svo nefnast forráðamenn kola- og stálbandalagsins á vorum dögum) að utanstefnur vildi ég engar hafa. Helst hefði ég viljað stýra dýrum knerri, en lét mér að sinni nægja almenningssess með óðflugu, sem unglingarnir nefna þotu. Þegar ég nam forn spjöll þurftum við ekki að nema framandi tungur. Þá nægði að lesa Grágás og þegar ungir lærifeður fóru að kynna nýjar útlendar lögbækur eins og Jónsbók flökraði manni við. Sór ég þess dýran eið að aldrei skyldi ég falla í þann brunn að telja að nokkuð útlenskt gæti komið Íslendingum vel.

Ég var æfur yfir því hve mikil útlenska tíðkast í loftfarinu. Flugfélagið sjálft heitir framandi nafni og flugmaðurinn talaði líka tungum öðru hvoru. Þegar flugsnótin spurði hvort ég hefði spennt beltið svaraði ég: „Eigi veit ég það svo gjörla, en hitt veit ég að hert er ólin.“

Þegar við námum land tók ég hött minn og mal og stikaði stórum úr loftrennireiðinni. Létti ég ekki göngunni fyrr en ég hitti fyrir greiðasala og bað hann gistingar. Hann kvaðst fús að veita mér næturgreiða og samdist okkur um að ég þægi kost hjá honum meðan á dvöl minni stæði. Lagðist ég svo til rekkju og segir ekki fleira af þeim degi.

Í dögun vaknaði ég við fyrsta hanagal, spratt upp, herti snærisspottann um mittið og gekk til stofu. Þar sá ég að margir gesta snæddu árbít og voru fáir eins klæddir og ég, á þæfðum ullarbol. í belgvíðum brókum og á sauðskinnsskóm. Ég kunni illa við mig í þessari þyrpingu útlendinga, enda lítil von til þess að minn djúpi íslenski rómur heyrðist meðal þessara fjögurra tylfta framandi sveina. Því gerði ég húsfreyju skiljanlegt að ég vildi snæða einn. Eftir nokkra rekistefnu mér vísað í skot úti í horni, þar sem ekki heyrðist nema ómurinn af hinu framandi máli. Enginn vildi eg hornkarl vera en lét þó gott heita.

Færði hún mér svo brátt dögurð, en skemmst er frá því að segja að hann vakti mér velgju, því að þar voru á diski kornflögur (að vísu með mjólk, en alls ekki spenvolgri eins og ég er vanur) með ýmsum framandi ávöxtum. Þar blasti við mér bjúgaldin í hýði og niðursneitt glóaldin. Aðra kann ég ekki að nefna, en sérstæður þótti mér stór og mikill ávöxtur sem var grænn að utan en rauður að innan, í laginu svipaður sundursniðinni öðu.

„Vík frá mér saðning,“ sagði ég, því að útlendan viðbjóð læt ég ekki snerta varir mínar. Í íslenska kúrnum eru allir ávextir forboðnir.

Reyndi ég svo að koma konutetrinu í skilning um að ég vildi lifrarpylsu eða blóðmör (auðvitað ekki með útlendum sykri), en ekki átti hún slíkt lostæti. Hugkvæmdist mér þá að hún gæti átt súra hrútspunga. Með látbragði reyndi ég að skýra fyrir henni hvað átt væri við, en vildi þá ekki betur til en hún rétti mér eyrnafíkju væna og sveið mér mjög en hún arkaði á brott. Að stundu kom gestgjafinn sjálfur og virtist argur, en ég endurtók alla hina fyrri skýringu. Sótti þá að honum hlátur mikinn og kinkaði hann kolli til merkis um að hann skildi vel hvað ég meinti. Fór svo að hann færði mér disk fullan af pylsum.

Ekki líkaði mér það, en áttaði mig svo, benti á sperðlana og spurði: „SS?“ til að vera viss um að þetta væri alíslensk fæða.

Hann hikaði fyrst aðeins og hristi höfuðið, áttaði sig svo greinilega, sló saman hælum, rétti höndina beint fram og sagði: „Hæl.“ Skildi ég þá að þetta voru bjúgu frá Hæli í Gnúpverjahreppi og lét ég mér það vel líka, enda herramannsmatur.

Á mótið hélt ég eftir þessa máltíð. Þangað var tveggja roðskóa gangur og kíkti ég öðru hvoru í malinn til þess að sjá hvað kona mín hefði boðið mér upp á. Það var belgur af sméri, siginn fiskur og annað lostæti sem ég gæddi mér á með góðri lyst. Undarlegt fannst mér að sjá hve margir hlupu léttklæddir við fót, hver horrenglan af annarri sem augljóslega hafði aldrei heyrt af íslensku góðmeti.

Að þinginu loknu þenna dag gekk ég til kosts að vanda. Ekkert finnst mér betra að narta í á kvöldin en súrt rengi, en ekki vissi ég hvað það heitir á útlensku. Minnugur morgunfrúarinnar og viðbragða hennar, vildi ég ekki aftur beita látbragði, en rámaði þá í að Fransmenn nefna hvali móbídikk og þegar ég sagði það hýrnaði yfir þjóninum, sem var þó hýr fyrir, hann snaraði sér afsíðis og kom aftur með bók með mynd af hval framan á og Móbídikk skrifað á framandi tungu. Svo glaður var hann þegar hann kom með bókina að hann faðmaði mig að sér og kyssti bæði á kinnar og munn að sveitasið.

Leit ég nú á orðaskrá yfir algengan íslenskan mat sem ég hafði fengið frá minni ektakvinnu, en hún aftur flett upp í orðabók Blöndals. Fann þar að kæfa heitir suffocate (framb. súffókeit) rengi kalla innfæddir doubt (framb. dát), framburðarreglurnar fylgdu listanum góða. Sagði ég því „dát móbídikk“ eða sem rengi af hval, því að maður þarf að skýra málin vel fyrir útlendingum sem eru ekki jafngreindir og sannir Íslendingar. Vinur minn endurtók þetta nokkrum sinnum, en var greinilega brugðið við, því að hann hristi höfuðið ákaft og sagði: „Nó nó dát móbídikk, ræt móbídikk,“ og faðmaði mig enn og aftur. Svo fór hann sína leið og framreiddi glás sem í voru bein og kjöttægjur sem ég snæddi með bestu lyst.

Á ferðum mínum fann ég bakarí og allt í einu greip mig svo mikil þrá eftir brauði að ég leiddist þangað inn áður en ég mundi að hveiti er ræktað á akri djöfulsins og því ekki matur fyrir sanna Íslendinga. Kom mér þá snjallræði í hug, því ekki mundi ég betur en ég hefði séð sána akra í Landeyjum og nefndi „Þorvaldseyri“ um leið og ég benti á brauðið. Bakarinn tók strax við sér, greip brauðið og pakkaði því inn. „Torseyri, Torseyri“ sagði hann og rétti mér hleifinn með bros á vör. Þessa fáu daga sem ég var ytra tók hann mér ávallt með útbreiddan faðminn og afhenti mér íslenska brauðið.

Sumir halda að það sé erfitt að halda sér í formi, en það er ekki rétt. Það er ár og dagur síðan ég var síðast 120 kíló. Flestir sem sjá mig eru sammála um að ég samsvari mér vel, 165 sm og 110 kíló, rjóður og sællegur í kinnum með karlmannlegan róm, kunni vel rímur og spili undir á langspil. Konan mín situr heima á sínum stað, bakvið eldavélina á peysufötunum, og bíður eftir því að ég færi henni eitthvað í askana. Bókvitið fyllir þá ekki. Ekki útlensk speki að minnsta kosti.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.