Fyrir 36 árum kom ég Ísafirði í samband við umheiminn. Ég held að Ísfirðingar séu tiltölulega sáttir við mig, en ég er ekki viss um umheiminn. Sumarið 1975 bjó ég í tjaldi í einum afskekktasta firði landsins Hestfirði við að smíða brú yfir síðustu óbrúuðu hindrunina í Ísafjarðardjúpi, Hestfjarðarána.
Hestfjörður var kominn í eyði á þessum tíma. Líklega löngu kominn í eyði. Innar í firðinum voru rústir en við gáfum okkur lítinn tíma til þess að skoða þær. Á þessum árum voru brúarvinnuflokkar hluti að Vegagerðinni sjálfri. Þeir voru kenndir við verkstjórann. Okkar verkstjóri hét (og heitir enn) Ásgeir Kristinsson, ungur maður sem sjálfur hafði alist upp í brúarvinnuflokki með pabba sínum. Þeir voru frá Bíldudal.
Brúarvinnuflokkar urðu samfélög útaf fyrir sig með ákveðnum reglum og virðingarstigum. Oftast nutu þeir mestrar virðingar sem lengst höfðu unnið, en ekki var það þó einhlítt. Það var líka vænlegt að vera duglegur, ólíkt bæjarvinnunni þar sem ég vann í nokkrar vikur. Í okkar flokki hafa verið liðlega 20. Flestir voru skólastrákar, engar stelpur í þessum hópum nema í eldhúsinu. Við vorum annað hvort úr menntaskóla eða háskóla. Oft voru einn eða tveir smiðir með í hópnum, en það var ekki algilt. Stundum voru strákarnir sem lengst höfðu verið jafngildir smiðum.
Svo voru tveir gamlir karlar, Gunnar og Árni, báðir á sjötugsaldri. Gunnar var hress og kátur og talaði mikið við okkur, Árni var gamall sjóari og steig enn ölduna um leið og hann sagði okkur sögur af sjónum. Hann var með falskar tennur og það heyrðust undarleg hljóð þegar hann borðaði, svona eins og tungan festist við góminn í hverjum bita.
Loks voru Stokkseyringarnir þrír. Þeir voru hressir náungar, sérstaklega tveir sem mikið settu út á menntamennina. Við máttum ekki reka skakkan nagla án þess að það væri klifað á því að menntunin væri nú lítils virði þegar út í lífið væri komið.
Mér lynti vel við þessa fíra, ekki síst eftir að einn félagið okkar, mikill besservisser, hóf nám í félagsvísindum. Hann var á þessum árum mikill kommúnisti og skrifaðist á við félaga sína í Kommúnistasamtökunum, Marxistunum-Lenínistunum, hugsun Maó Tse Tungs, um díklektísta efnishyggju og hvort á Íslandi væri þróað kapítalískt þjóðfélag (þetta er alveg satt en var líka ótrúlegt þá). Stokkseyringarnir hlógu mikið að félagsvísindunum og töldu þau lítils virði. Ég sagði þá eitthvað á þá leið að félagsfræðingar væru góðir, sérstaklega nýttust þeir vel á bensínstöðvunum.
Eftir þetta vorum við Stokkseyringarnir miklir vinir. Það var ekki fyrr en þarna að ég frétti að verstu menn á Íslandi væru Eyrbekkingar. Eitt kvöld vorum við háskólamennirnir teknir í kennslustund í orðum, meðal annars hvort við vissum hvað kíll eða meis væru?
Hestfjarðarsumarið var þriðja sumarið mitt í brúarvinnu. Brúarvinna er ágæt, tiltölulega hreinleg og skemmtileg vinna. Á þessum árum skiptust allar brýr í þrennt. Sökkul, sem var oft undir vatni, grunnurinn undir brúnni. Meðan hann var byggður þurfti oft að veita ánum annað eða búa til stíflur með einhverjum hætti, á mínum árum mest með sandpokum. Þegar búið var að steypa sökkulinn tóku stólparnir við, oftast einn hvoru megin. Loks var brúargólfið smíðað. Smíðavinnan var snyrtileg og járnavinnan sem ég var oftast í var það líka. Þá var ég í því að beygja og klippa járn af ýmsum stærðum og gerðum. Við fengum langar stangir frá Reykjavík og þær voru svo lagaðar í réttar stærðir. Stærstu burðarjárnin komu sérsmíðuð. Í eyðifirði eins og Hestfirði var eins gott að allt væri í lagi. Þegar smíðin var langt á veg komin mætti til okkar verkfræðingur sem fann út að við hefðum fengið ranga járnasendingu. Hann reiknaði upp á nýtt og með einhverjum tilfæringum tókst að koma nægu járni í brúna. Ég man hvað hann var hreykinn af útreikningunum og má vera það. Brúin stendur enn.
Ég veit ekki hvort Hestfjörðurinn er allur í farsímasambandi núna, en þá var þar ekki sími af neinu tagi. Ef einhver þurfti að hringja voru tvær leiðir: Fara að Hvítanesi í Skötufirði, þar var sveitasími. Gallinn var sá að Hvítanes var í „öfuga átt“ því að þangað var ekkert annað að sækja. Svo fannst flokksstjóranum það líka óþarfi að vera ónáða fólkið þar að ástæðulausu. Hinn kosturinn var að fara til Ísafjarðar, en þá fór hálfur dagurinn í ferðina. Þess vegna hikuðu menn við að hringja í tíma og ótíma. Enda lítil ástæða til. Hvert úthald var ekki nema þrjár vikur.
Flestir vorum við að suðvesturhorninu og flugið var helsti ferðamátinn. Að vísu voru tveir á bílum og þeir reyndu að fá einhverja með sé því að þá fékk bílstjórinn flugfarið greitt í sinn hlut. Ég nennti því aldrei og treysti þjónustu Flugfélagsins. Hún var ekki endilega jafntraust þá og núna. Einu sinni vorum við komnir til Ísafjarðar í blíðskaparveðri. En engin kom flugvélin og engar upplýsingar um hvers vegna ekki. Á endanum var sagt að það væri vegna veðurs í Reykjavík. Þetta gerði lítið til því að við nutum alls hins besta sem Ísafjörður hafði uppá að bjóða, fengum franskar og samlokur og einhver fór í ríkið. Það var allt hóflegt og engar kvartanir vegna óláta utanbæjarmanna í þetta sinn. Flugvélin kom svo seinnipartinn og við lentum í Reykjavík í sömu rjómablíðunni og hafði verið þar allan daginn.
Við eltum böll sem boðið var upp á hér og þar, en það var ekki um hverja helgi, nema kannski á Ísafirði. Einhvern tíma vorum við komin til Suðureyrar í partý og þar eins og víðar var einhver örlátur sem lét fleyginn ganga hringinn. Á heimleiðinni hafði einn háskólamaðurinn orð á því að við ekkert væri hann jafnhræddur og svona hópfleyga og skelfdist það mjög að smitast af kynsjúkdómum. Annar benti honum þá á að það væru aðrar smitleiðir og beinni, sem hann varaðist ekki með sama hætti. Var svo ekki meira rætt um kynsjúkdóma.
Einu sinni ætlaði ég að gista nótt á Ísafirði hjá félaga mínum úr Reykjavík sem var í símavinnuflokki. Hann var í skúr uppi í hlíðinni, ekki langt frá þar sem gagnamunninn er núna. Rúmið var laust því einn hafði átt erindi annað þessa nótt. En þegar ég kom til þess að vitja greiðans að ballinu loknu var félagi minn fyrir utan, hnugginn mjög. Þannig vildi til að annar símavinnumaður sem einnig gisti í sama skúr, hafði náð sér í kvenmann. „Þetta hefur aldrei gerst áður; mér datt ekki í hug að hann næði í dömu,“ sagði vinur minn eyðilagður, en útséð var með fletið. Ég átti þá þann kost einan að fara aftur inn í bæ og kanna hvort ég fyndi félaga mína sem þar kynnu að vera og ná mér þannig í far. Og viti menn. Á endanum rann ég á hljóðið frá aðaldjammi bæjarins, hitti þar félagana og komst á endanum inn í Hestfjörð aftur.
Eftirminnilegasta ballið var haldið inni í Ögri í samkomuhúsinu þar. Á laugardeginum kom Geiri spil með hljómsveit sína. Ekkert stoppaði þá félagana, hvorki vegleysur né óbrúaðar ár. Ballgólfið sjálft var ekki stórt enda fór ballið jafnt fram utan dyra og innan. Átti það bæði við þau pör sem vel náðu saman og ekki síður hina sem ekki komu á ballið til þess að ná sér í kvenmann heldur til þess að berja einhvern. Sem betur fer leyfðu þeir okkur aðkomumönnum ekki að njóta þess munaðar að verða fyrir krepptum hnefum.
Annars vorum við mest inni í Hestfirði í tæpar þrjár vikur, frá mánudegi fyrstu vikuna að fimmtudegi þá þriðju. Vinnan byrjaði klukkan sjö að morgni og lauk klukkan sjö að kvöldi, nema við værum í sérverkefnum.
Einu sinni hljóp á snærið hjá okkur. Árið áður hafði annar flokkur unnið við brúarsmíði í Skötufirði sem er næsti fjörður inni í djúpinu. Þar er brúin þannig að sæta þurfti sjávarföllum til þess að gera sökkla. Svo erfið fannst flokksstjóranum vistin að hann lét ekki bara vinna á vöktum eftir flóði og fjöru heldur unnu menn nánast hverja stund sem þeir stóðu uppi. Sagt var að mönnum á launaskrifstofunni hefði brugðið við að sjá yfirvinnureikningana eftir þessar fimm vikur. En ekki tókst betur til en að strax næsta sumar á eftir hafði sjórinn unnið svo á brúnni að mikið sá á smíðinni og skein víða í járn.
Við urðum því að bjarga verkinu með því að setja viðbótarlag af steypu utan á þá fyrri. Þetta var hörku vinna, því að allt var undir vatni á flóði. Allt varð því að vinna í vaktavinnu og á þessum tíma rann allt saman, dagur og nótt, því að við gerðum ekki annað en vinna í þrjá sólarhringa, þangað til flæddi að og þá vorum við keyrðir aftur inn í Hestfjörð, fengum að borða og sofnuðum svo útkeyrðir. Þetta gaf drjúgan aukapening svo allir voru glaðir.
Ekki áttu margir leið inn í Hestfjörðinn þetta sumar aðrir en Vegagerðarmenn. Þó man ég að þangað kom Sigurður Bjarnason frá Vigur og Baldur bróðir hans sem var hreppstjóri ef ég man rétt. Baldur lofaði verkið mikið og lofaði okkur reisugilli að verki loknu. „Og það er ekkert kosningaloforð,“ sagði hann. En ekkert fengum við gillið, sem þó var haldið löngu eftir að við vorum farnir og einhverjir feitir ýtukarlar fengu allar kræsingarnar.
Svo óku þarna um ungir læknar á nýjum jeppum. Mig minnir að einir tveir hafi fest sig í ánni og eyðilagt bílana.
„Þessir háskólamenn,“ sögðu Stokkseyringarnir.
PS Þessi pistill er skrifaður eftir pöntun.