10. september 2001

Við vöknuðum snemma enda stóð til að fara Sprengisand. Pabbi heimtaði að við færum alla fjallvegi af því að ég hafði fengið jeppann að láni hjá Vigdísi. Við gistum á Narfastöðum og átum morgunmat. Svo lögðum við í hann. Það var mánudagur.

Við vorum í tæplega vikulöngu ferðalagi feðgarnir. Mér datt það í hug að gaman væri að við færum austur á land saman að heimsækja Reyni föðurbróður minn. Pabbi þurfti að hugsa sig lengi um en svo féllst hann á þessa hugmynd. Við ókum suðurleiðina. Pabbi var með kortabók Máls og menningar á hnjánum og las fyrir mig bæjarnöfn þegar við fórum framhjá. Það er merkilegt að eins og mér þótti leiðinlegt þegar foreldrar mínir töluðu um hreppa og sveitabæi í gamla daga fannst mér gaman að þessu í þessari ferð með pabba.

Ætli við höfum ekki lagt af stað 5. september? Það er ekki ólíklegt, en ég færði ekki dagbók. Víða teygðum við úr okkur en fyrst stoppuðum við á safninu á Skógum og hittum Þórð safnstjóra. Hann spilaði á orgel amerískan slagara gamlan eftir Forster, en þekkti hvorki heiti né uppruna á laginu. En hvern einasta smáhlut á safninu þekkti hann og mundi vel eftir Jósep í Ormskoti, afabróður Vigdísar. Ég vissi ekki fyrr að Jósep var til.

Næst hittum við Þorbjörgu Jónsdóttur Schweitzer, gamla konu sem pabbi hafði kynnst í Þýskalandi í stríðinu. Þorbjörg var okkur óskyld, en alltaf fannst mér hún vera eins og ein úr fjölskyldunni. Um síðustu jól kom út ævisaga hennar eftir Magnús Bjarnfreðsson. Líklega hafa fáir lesið hana, en það var þarft framtak að gefa hana út. Þorbjörg bjó síðustu árin á elliheimilinu á Kirkjubæjarklaustri. Þetta var í síðasta sinn sem við sáum hana, en pabbi talaði við hana nokkrum dögum áður en hún dó, 98 ára minnir mig.

Við gistum í bændagistingu í Lóni. Það var ágætt, við höfðum lítið hús útaf fyrir okkur. Leiðbeiningar um umgengni voru á frumbyggja ensku, en okkur tókst að ráða fram úr því.

Á þessum árum var ég í stjórn Skeljungs og ekki við það komandi að taka bensín annars staðar, a.m.k. ekki hjá Esso. Skeljungur var hins vegar ekki með margar stöðvar á þessum slóðum og droparnir úr Freysnesi í Öræfum urðu því að duga vel.

Í Berufirði áðum við og þar tók ég ágæta mynd af pabba. Hann sat íhugull við borð á áningarstaðnum og horfði fram á við. Myndin er í æviminningum hans. Það er ekki að sjá á svipnum að þetta sé maður sem heimti að fara allar ófærur, en það var nú samt raunin. Fyrst vildi hann að við færum Öxi, en þar í miðjum hlíðum beið okkar stór bjarg sem vegargerðarmenn höfðu sprengt úr hlíðinni en áttu eftir að fjarlægja. Fyrir okkur var ekki annað að gera en bakka langar leiðir eftir þröngum veginum, einmitt það sem mér finnst svo gaman að gera þegar þverhnípi er á aðra hönd og klettaveggur á hina. En á endanum fannst útskot og ég sneri við. Ég held að pabbi hafi verið hálfhneykslaður á mér að keyra ekki á hnullunginn fyrst ég var á jeppa.

Við ókum Breiðdalinn og fórum upp á heiðina, eflaust að ósk pabba. Mér var sama, ég vissi að á Egilstöðum var Shell-stöð og tankurinn ætti að endast þangað. Allt í einu fór pabbi að tala um að gaman væri að fara Þórdalsheiði. Hana hefði hann farið í gamla daga og reyndar síðar ekið með Tóta, tengdasyni Reynis, og alltaf verið jafngaman.

Með augun á bensínnálinni sem nálgaðist núllið óðfluga spurði ég hvort ekki væri komið nóg af þessari heiði, en pabbi linnti ekki látum fyrr en ég gaf mig. Þetta er lengsti fjallvegur landsins í minningunni. Samt hugsaði ég með mér að ef ég næði upp á brún gæti ég látið bílinn renna niður hinum megin. Þetta var náttúrlega ábyrgðarhluti að fara með mann á níræðisaldri á fjallveg án þess að láta vita af sér.

Vel á minnst. Við ættum náttúrlega að hringja í einhvern og láta vita af okkur. En það var vitavonlaust, engin símstöð náði upp á þessa afskekktu heiði. Pabbi sagði mér að til forna hefði þetta verið aðalþjóðleið milli Héraðs og fjarða, en það var mér lítil huggun, það var ólíklegt að við rækjumst á hestalest á leið til Alþingis.

Bensínmælirinn var við núllið. Síðustu metrarnir á yfir varpið voru drjúgir, en það hafðist samt. En vegurinn niður var ekki einhalla. Þvert á móti lá hann með ýmsu móti, sem var alls ekki gott fyrir taugarnar, þó að almennt lægi hann norður (eða norðaustur) og niður. Ég sagði pabba auðvitað ekki frá bensíninu, því að ekki ætlaði ég að valda öldruðum manni áhyggjum og hafði í huga að búa ætti öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Þarna fannst mér reyndar að það ætti að breyta þessu slagorði í að miðaldra ættu að eiga áhyggjulausa ævi, en því var ekki að heilsa.

Inn á veginn í Reyðarfirði komumst við og síðustu millimetrana á Shell-stöðina fórum við á gufunni. Hún átti eftir að koma seinna við sögu.

Á Norðfirði var okkur tekið með kostum og kynjum að vanda. Ekki höfðum við verið lengi þar þegar þeir bræður vildu fara á Borgarfjörð eystri. Það var auðsótt enda liggur þangað beinn og breiður vegur, en ekki vorum við fyrrkomnir þangað en þeir feðgar ræddu um það hvað ferðin á Hvítserk árið 1958 (eða var það 59) hefði verið skemmtileg og við yrðum að sjá hann aftur.

Nú var það auðsótt, því að ég var með í þeirri ferð og vildi gjarnan rifja upp gamlar minningar (ég var þriggja ára í fyrri ferðinni). Gönguferð á Hvítserk var frestað að sinni, en við héldum ferðinni áfram í Húsavík, en þar eru nokkur hús og kirkja minnir mig. Þangað lá blautur og lélegur vegur, en við létum það ekki stoppa okkur.

„Er ekki rétt að við förum alla leið í Loðmundarfjörð“, sagði pabbi og við héldum áfram. Símsamband var löngu horfið og ég veit ekki til að nokkur maður hafi vitað hvert við ætluðum. Leitarflokkar hefðu eflaust í mesta lagi farið upp í Oddsskarð og gefist upp við leitina þar.

Ég játti því auðvitað þegar ég heyrði að þangað höfðu þeir hvorugur farið. Á leiðinni sagði Reynir frændi: „Það fór þá aldrei svo að ég kæmist ekki í Loðmundarfjörð“. Svo bætti hann við. „Ég segi þetta svona eins og Bjarni Vilhelms (afi Alberts G.) sem setti í beinhákarl og sagði: ‘Það fór aldrei svo að maður veiddi ekki beinhákarl’. Og í því sleit hákarlinn færið.“

Mér varð um og ó, því að sums staðar var vegurinn sundurskorinn og á stöku stað miklar aurbleytur. En inn í fjarðarbotn komumst við og fórum í kirkjuna á Klyppsstað. Reynir fann það út að þar hefði afi Eysteins Jónssonar verið síðastur prestur. Pabba finnst litið til um það, en sagði að það væri þá ekki nema von að kirkjan hefði lagst af.

Loðmundarfjörður er bestur til þess að segja að maður hafi komið þangað. Og best ef maður nær að segja frá því að maður hafi komist þaðan. Það tókst okkur. Þeir bræður fóru svo í aðra ferð í Loðmundarfjörð tveimur árum seinna og unnu sér inn viskífleyg með björgunarstörfum, en það er önnur saga.

Á leiðinni tilbaka stoppaði ég í Shellskálanum á Reyðarfirði, þeim sama og hafði bjargað okkur eftir Þórdalsheiðina. Þar fyllti ég tankinn af Shell V-power bensíni, sem þá þótti það allra fínasta og ég vildi ekki bjóða þeim bræðrum upp á neitt afdalabensín. Fyrir fullan tank var ég beðinn að borga 800 krónur.

Það fannst mér ólíklegt, því að á tanknum stóð að lítrinn kostaði 110 krónur, ellefu krónum meira en sláttuvélabensínið sem pöpullinn tók. Ég sagði að þetta gæti ekki verið, ég hefði fyllt tankinn eftir langa svaðilför um fjarlægar víkur og firði. En allt kom fyrir ekki, bensínsnótin neitaði að taka meira en 800 krónur fyrir. Þeim bræðrum fannst ég sækja það fullstíft að fá að borga meira og gripu hvor undir sinn handlegg og drógu mig út, áður en ég væri farinn að vekja athygli fyrir uppsteyt.

Ekki veit ég hvort búið er að laga þetta, en það vekur athygli mína að Reynir frændi ekur enn í dag á Reyðarfjörð, 50 kílómetra ferð, til þess að fylla tankinn.

En nú var góðri heimsókn hjá Reyni lokið og við á leið á Sprengisand. Ég reyndi að malda í móinn: „Allra veðra von, þekkti ekki veginn, enginn á ferð, við ekki með búnað ef eitthvað kæmi uppá.“ Pabbi sagðist vera alvanur úr ferðum með Guðmundi Jónassyni (ég lét vera að minna hann á að það hefði verið 50 árum áður) og mér væri þetta vorkunnarlaust.

Við héldum uppteknum hætti og skoðuðum það sem markvert var á leiðinni. Það var fátt. Fyrst stoppuðum við hjá Aldeyjarfossi í Skjálfandafljóti, fallegum fossi í upphafi Sprengisandsleiðar. Næst bar ekkert til tíðinda, nema ég var í stöðugu símsambandi við Reyni og brýndi hann að senda leitarflokk eftir okkur ef hann hefði ekki heyrt í okkur í þrjá tíma. „Ha, sagðirðu þrjá daga?“ spurði hann í því að við ókum út úr símgeislanum og ég var með hnút í maganum.

Ár voru vatnslitlar þangað til við nálguðumst Nýjadal. Pabbi var búinn að lesa sig til um það að þar væri aðalfarartálminn. Öðru hvoru mættum við bílum á norðurleið, en þeir hafa varla verið nema fjórir, fimm.

Loks komum við að á. Ég var ekki með stígvél eða græjur, en taldi mig sjá glögglega hvar hinir hefðu ekið. Það gekk greiðlega.

Það var stutt í næstu á. Þá sáum við til sæluhússins og ég hugaði með mér að við hlytum að minnsta kosti að komast þangað með einhverju móti. Hér sá ég engin bílför og við feðgar ræddum hvar best væri að leggja í ána. Mér sýndist að gott væri að fara ofarlega, en pabbi taldi það af og frá og sagði auðvitað færum við neðst, sem við og gerðum.

Greiðlega gekk að aka út í, en fljótlega var vatnið komið upp á mið dekk og dýpkaði stöðugt. Ég velti því fyrir mér hvort það væri talstöð í sæluhúsinu, teppi og ofnar til þess að þurrka okkur eftir volkið. Dekkin voru alveg komin á kaf og vatn farið að seytla meðfram hurðum.

„Hvað geri ég ef flæðir yfir húddið?“ hugsaði ég. Það voru enn fimm sentímetrar í það. „Hvenær fer bíllinn að fljóta?“

Þá fór landið að rísa og bíllinn með. Loks náðum við á bakkann hinum megin og pabbi sagði: „Þetta var ekki neitt.“

Skálinn virtist vandlega lokaður og hlerar negldir fyrir glugga, þannig að líklega hefðum við orðið úti á þröskuldinum. Við mættum engum bíl eftir þetta.

Eftir langa stund ókum við framá skilti sem sagði Fögrufossar og þangað fannst okkur tilvalið að aka. Þá vorum við komnir vel af alfaraleið, þannig að ef eitthvað hefði komið fyrir hefði enginn fundið okkur vikum saman. En fossarnir báru nafn með rentu.

Um leið og við komum aftur í símfæri tilkynnti ég Reyni það að við værum komnir að Sigöldu. „Nú, fóruð þið Sprengisand,“ svaraði hann.

Alltaf síðan hef ég verið pabba þakklátur að hafa látið mig fara þessar ófærur. Þetta voru frábærir dagar og ég gat ekki beðið eftir því að segja vini mínum ferðasöguna í hádeginu daginn eftir.

Við sátum á veitingahúsi við Rauðarárstíg og ég lýsti afrekum okkar fjálglega. Nú voru allar mínar úrtölur gleymdar en mikil áhersla á áræði mitt og dirfsku.

Rétt fyrir eitt hringdi síminn. Það var Vigdís sem sagði: „Það flaug flugvél á World Trade Center.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.