Það sem keisarans er (BJ)

Nú hefur einhver rifjað það upp rétt einu sinni að Halldór Laxness var tekinn fyrir skattsvik árið 1949. Sumar lummur er hægt að hita upp aftur og aftur og reyna að gera þær girnilegar. Nú er sagan sú að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hafi ætlað að koma höggi á pólitískan andstæðing sinn. Eflaust er það rétt, en átti Halldór að sleppa við að borga skatta vegna þess að hann var kommi en Bjarni sjálfstæðismaður?

Staðreyndir málsins samkvæmt ævisögu Halldórs eftir nafna hans Guðmundsson voru þessar: Bók Halldórs, Sjálfstætt fólk, var valin bók mánaðarins í Book of the Month Club árið 1947 og seldist vel að því að allar heimildir herma. Af tekjum hans erlendis var dreginn skattur, en hann taldi þær ekki fram hér á landi „og sennilega hefur hann vonast til að sleppa með það og þurfa ekki að greiða af þeim hér, en það fékk ekki staðist samkvæmt lögum“ segir Halldór Guðmundsson á bls. 540 í ævisögunni.

Lagðir voru skattar á hlut Halldórs eins og lög gera ráð fyrir, en svo var hann einnig ákærður og dæmdur fyrir að hafa ekki skilað gjaldeyri, því að þá voru höft í gangi, rétt eins og nú. Halldór Guðmundsson bendir réttilega á hve ósanngjarnt málið var þó að það hafi verið í samræmi við lög og reglur. Réttara væri að segja að málsmeðferðin var rétt en reglurnar ósanngjarnar.

Á endanum varð lítið úr refsingu fyrir þessi brot, Laxness var dæmdur í smávægilega sekt. Því má ekki gleyma að á þessum tíma var mikið skrifað um það, ekki síst í Þjóðviljann, hve ósanngjarnt það væri að heildsalar gætu haft peninga á bók úti í löndum, en gjaldeyrir var talinn gulls ígildi.

Hann rifjaði seinna upp ummæli Guðmundar Í. Guðmundssonar í málinu: „Er það rétt að þér hafið reynt að leyna því að bækur eftir yður hafi komið út í hundruðum þúsunda eintaka í Ameríku?“

Margir rifja þetta mál nú upp af mikilli heift í garð Bjarna. Því er fróðlegt að rifja upp samskipti þeirra Halldórs og Bjarna eftir þetta.

Árið 1955 bað Halldór um að Bjarna, sem þá var dómsmálaráðherra, yrði boðið til Stokkhólms í Nóbelsverðlaunaafhendinguna. Bjarni, sem eflaust hefur ekki verið mjög glaður yfir því að þessi mikli kommi fengi verðlaunin, fór ekki. Samt hefur þetta líklega orðið til þess að ísinn milli þeirra fór að bráðna.

Árið 1963 kom uppgjör Halldórs við kommúnismann út í Skáldatíma. Þá snerust vindar svo að kommúnistar urðu æfir, meðal annarra Þórbergur vinur hans, en lýðræðissinnar fögnuðu. Reyndar var með ólíkindum að Halldór skyldi þegja yfir því í 25 ár að Vera Hertz, barnsmóðir Benjamíns Eiríkssonar, var numin á brott af lögreglu Stalíns fyrir framan hann. Hún dó síðar í fangabúðum.

Sveinn Benediktsson, bróðir Bjarna og móðurbróðir minn, gaf okkur Sigurði bróður mínum hvorum sitt eintak af Skáldatíma. Eftir þetta voru allar bækur Halldórs keyptar heima hjá mér og hann í miklum metum.

Árið 1968 bað Bjarni Benediktsson ritstjóra Morgunblaðsins, Matthías Johannessen, að fara að Gljúfrasteini til þess að segja Halldóri að ef hann vildi sækjast eftir forsetaembættinu myndi Bjarni styðja hann. Halldór á þá að hafa svarað: „Er það gott djobb?“

Mér er mjög minnisstætt að þegar sýndar voru myndir í sjónvarpi frá útför Bjarna, Sigríðar og Bensa litla í Dómkirkjunni var fjölmenni fyrir utan. Í þeim hópi stóð Halldór Laxness. Þetta segir mér að misklíð Halldórs og Bjarna náði ekki út fyrir gröf og dauða.

Það er ástæðulaust að aðrir rjúfi nú þá sátt sem þeir sjálfir gerðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.