Á æskuheimili þeirra systra höfðu þær Íslandssöguna beinlínis fyrir augunum. Benedikt faðir þeirra var þingmaður í 23 ár. Hann var lengi forseti neðri deildar Alþingis, en árið 1930 þegar Hriflu-Jónas rak svila hans, Helga Tómasson geðlækni, frá Kleppi krafðist. Jónas þess að Benedikt lýsti yfir stuðningi við sig. Þegar hann neitaði kom Jónas í heimsókn á Skólavörðustig 11 þar sem fjölskyldan bjó. Þeir sátu tveir einir inni í stofu en Ólöf gægðist á skráargatið. Jónas lá á hnjánum fyrir framan föður hennar, steytti hnefann og kallaði: „Ég skal eyðileggja þig.“ Benedikt var felldur í forsetakjöri í þinginu og ári síðar fékk Jónas frænda Benedikts, kaupfélagsstjóra á Kópaskeri, til þess að bjóða sig fram gegn honum. Kaupfélagsstjórinn vann.
Guðrún og Ólöf voru yngstar systkina sinna en duglegastar við að tengja ættingjana saman. Báðar voru þær með afbrigðum frændræknar og afmælisdagur þeirra, 10. október, var eins konar ættarmót á ári hverju. Það var ekki síst vegna þeirra sem ættingjarnir þekkjast almennt miklu betur en títt er um skyldfólk nú á tímum. Ólöf fylgdist vel með skyldmennum sínum yngri og eldri og vildi veg þeirra sem mestan. Þó að þær systur teldu ekki eftir sér að segja ættingjum sínum til og ala þá upp vildu þær aldrei heyra orði á þá hallað af öðrum. Þar gilti vísuorðið frá Grími Thomsen: „Eltu varlega mínar geitur.“
Þær tvíburasystur voru líkar um margt, en Ólöf var talin ákveðnari og framagjarnari. Hún tók meiri þátt í félagsmálum og var kennari. Áratugum saman kenndi Ólöf við Menntaskólann í Reykjavík. Henni þótti vænt um skólann og vildi að nemendur og kennarar sýndu honum virðingu. Hún hélt lengi þeim sið að þéra nemendur og mörgum þótti hún strangur kennari. Á endanum gafst hún upp við þéringarnar en ég held að hún hafi almennt haldið góðum aga til síðustu kennslustundar. Guðni rektor Guðmundsson bað bæði hana og Jón Guðmundsson íslenskukennara að halda áfram tengslum við skólann eftir að þau létu formlega af störfum nálægt sjötugu. Líklega hefur hann viljað að eins margir árgangar og mögulegt var nytu þessara kennara sem tengdu saman nútíð og fortíð við þennan elsta skóla landsins.
Ólöf var tvígift. Seinni maður hennar var Páll Björnsson og þau voru gift í um 40 ár. Páll var afbragðsmaður af þekktri sjómannaætt í Reykjavík og var lengst af stýrimaður og skipstjóri. Með þeim hjónum var jafnræði og milli þeirra ríkti gagnkvæm virðing. Bæði voru þau hjálpleg mörgu fólki sem átti erfitt af einhverjum ástæðum. Páll lést fyrir rúmlega tuttugu árum, langt um aldur fram. Þau áttu tvær dætur saman en Páll gekk einnig í föðurstað dóttur Ólafar af fyrra hjónabandi. Elstu barnabörnin nutu líka uppeldis afa síns og ömmu og voru langdvölum á heimili þeirra. Páll var afar barngóður en Ólöf var strangari. Hún taldi það bestu leið til þess að koma börnum til manns. Hún gat þó vel brugðið fyrir sig kímni og oft kátt á hjalla þegar hún var með vinum og vandamönnum. Milli Ólafar og Páls og foreldra minna var mikil og traust vinátta og fjölskyldubönd náin.
Ólöf hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum. Þau hjón studdu alltaf Sjálfstæðisflokkinn og foringja hans. Sjálfgefið var að þau styddu Bjarna bróður Ólafar, en þau voru líka miklir stuðningsmenn Geirs Hallgrímssonar.
Ólöf hélt ágætri heilsu vel framyfir áttrætt. Samt óttaðist hún það að verða of gömul. Hún sagði einu sinni: „Að hugsa sér að maður sé orðinn áttræður.“ Eftir smá hik sagði hún svo: „Það er þó skárra en hitt.“ Síðustu árin voru erfið og henni var stirt um mál. Hún skildi sátt við, því að hennar tími var kominn.
Frænkum mínum og afkomendum þeirra sendi ég samúðarkveðjur. Merkileg kona og góð frænka hefur lokið sínu lífshlaupi.
2 comments