Söngur fuglanna þagnar (BJ)

Mér er þungt í sinni þessa daga. Allajafna eru bjartsýnin og gleðin mínar fylgikonur en þessa dagana er margt mótdrægt. Það er sérkennilegt að í garðinum kringum húsið heima hefur sífellt verið fuglasöngur. Meira að segja í svartasta skammdeginu hefur maður heyrt tístið inn um gluggann. En í haust hafa raustir fuglanna hljóðnað og inn um opinn gluggann heyrist ófagurt surg í bílvélum.

Þegar ljóst var að heimskreppa væri að skella á óttaðist ég það strax að hún leiddi til stjórnleysis, öfgaskoðana og ófriðar. Sumir litu á mig og töldu að ég hefði misst dómgreindina. En einmitt þetta var lærdómurinn af kreppunni á fjórða áratug aldarinnar. Eyðileggingarmátturinn er ólýsanlegur þegar hugarfarið verður eitrað.

Ég velti því fyrir mér hvort allt sem gerst hefur leiði til þess að Ísland verði verra land. Þjóð sem finnst það allt í lagi að kastað sé skyri og eggjum í lögregluþjóna er ekki með sjálfri sér.

Börn sem ráðast að Alþingishúsinu með eggjum og ávöxtum vantar virðingu fyrir helstu gildum frelsis og lýðræðis. Því að þinghúsið er fyrst og fremst sameiginlegt tákn baráttunnar fyrir því að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar setji henni lög en ekki einvaldur eða æstur múgur.

  • Það grynnkar ekki á skuldasúpu þjóðarinnar að mála stjórnarráðið rautt á hverjum degi.
  • Það eykur ekki hamingju fólks að slasa lögregluþjóna.
  • Það eflir ekki lýðræðið að ráðast að bíl forsætisráðherra.
  • Alþingismenn og ríkisstjórn eiga að komast óáreitt til vinnu.
  • Starfsfólk Seðlabankans er venjulegt fólk sem á að fá að halda sína árshátíð eins og aðrir.
  • Í bönkunum starfar fólk sem hefur tapað aleigunni í hlutabréfum og situr í skuldasúpunni rétt eins og aðrir. Það fólk á ekki skilið að fá ónot og skammir.
  • Þjóðfélagið verður ekki betra með því að ala á hatri, ofstæki og ofbeldi.

Þess vegna er ég leiður þessa dagana.

Auðvitað þarf að geta þess að það sýna ekki allir mótmælendur ofbeldi og yfirgang. Reyndar mjög fáir. En samt sem áður er nauðsynlegt að staldra við og segja strax: Ekki lengra. Bökkum og hugsum málið.

Ofbeldi sumra mótmælenda má skýra með ungum aldri þeirra, eiturlyfjanotkun, glæpafíkn eða geðveiki. Slíkt er auðvitað ekki afsökun en skýrir hvers vegna menn ganga um með kylfur og brjóta bílrúður, rífa upp gangstéttarhellur og lemja glugga eða lögregluþjóna.

En hvað skyldi skýra það þegar Hallgrímur Helgason, þekktur rithöfundur, lemur að utan bíl forsætisráðherra? Tímabundin sturlun? Það virkar sem vörn í bandarískum réttardramaþáttum.

Varla. Allir vita að rithöfundinum myndi aldrei detta í hug að berja bíl Jóns Ásgeirs, sem á þó örugglega mun meiri þátt í hruninu en forsætisráðherrann. Þvert á móti hefur Hallgrímur verið ötull stuðningsmaður útrásarvíkinganna. Það hentar þeim auðvitað vel að beina athyglinni annað og Baugsfeðgar eru örugglega ánægðir að hverfa úr sviðsljósinu.

Ég verð dapur yfir þessu.

Ein meginskýringin á því hvernig nú er komið er meðvirkni fjölmiðla. Blaðamenn gættu sín að ræða ekki mál sem voru óþægileg fyrir auðmenn. Sigmundur Ernir segist „frjáls undan oki auðjöfra“ eftir 22 ár á Stöð 2. Frelsið öðlaðist hann þegar hann var rekinn.

Fréttamenn tóku afstöðu með auðjöfrunum. Nú virðast þeir óttast skammir ef þeir stugga við skrílnum. Fréttamenn eiga að segja fréttir, en þeir geta vel staðið vörð um gömlu gildin. Þess vegna eiga fréttamenn og ritstjórar að fordæma yfirgang og ofbeldi. Þeir eiga að fordæma virðingarleysi fyrir lögreglunni og opinberum byggingum. Reynt var að kveikja í Alþingishúsinu. Auðvitað er það í óþökk alls þorra mótmælenda. En það hefði átt að stoppa menn strax og fyrsta egginu var kastað í húsið.

Leikreglurnar eiga að vera skýrar. Friðsamleg mótmæli felast ekki í því að skemma eignir, kveikja í bekkjum eða köplum eða hindra stjórnmálamenn í því að komast leiðar sinnar.

Lýðskrumið byrjar. Össuri Skarphéðinssyni fannst mótmælin innan eðlilegra marka. Þingmönnum VG fannst lögreglan sýna ofbeldi. Það gengur auðvitað ekki að þeir sem ættu að verja stofnanir lýðræðisins tali með þessum hætti. Undarlegust er afstaða Ögmundar Jónassonar sem er formaður BSRB, stéttarfélags lögreglumanna, sem ekki kemur til varnar sínum mönnum við skyldustörf.

Þetta er allt mjög dapurlegt.

Ekki hafa veikindi formanna flokkanna bætt ástandið. Ég var snortinn þegar ég sá fréttirnar á föstudagskvöld þar sem veikindi Geirs og Ingibjargar voru rakin.

Þegar ég heyrði viðbrögð Harðar Torfasonar leið mér beinlínis illa. Það var eins og honum fyndist að Geir hefði gert sér upp krabbamein til þess að eyðileggja mótmælin. Af tilviljun veit ég að svörin voru ekki svona vegna þess að Hörður hefði verið óundirbúinn. Hann hafði sýnt svipuð viðbrögð í símtali skömmu áður. Hvaðan kemur þessi mannvonska?

Það er sama hvaða skoðun menn hafa á stjórnmálamönnunum Ingibjörgu og Geir. Enginn sómakær maður getur annað en fundið til með þeim og fjölskyldum þeirra þegar svona stendur á.

En ástandið hefur ýft upp hatur þar sem samúðar er þörf. Dagfarsprútt fólk er orðið fullt af illsku. Peningar þjóðarinnar eru horfnir. Hjálpar það okkur að hatur, ofbeldi og yfirgangur eitri hugann?

Auðvitað eru friðsamleg mótmæli skiljanleg. Deyfð stjórnarflokkanna er hins vegar ofar mínum skilningi. Fyrir tveimur og hálfum mánuði setti ég í blaðagrein fram tillögurnar um leiðina út úr örvæntingunni. Þar hvatti ég til nokkurra brýnna ákvarðana. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna stjórnvöld gerðu þessa stefnu ekki strax að sinni. Það hefði sparað þjóðinni mikinn sársauka.

Greinin byrjaði svona: „Ofuraflið sem leysist úr læðingi þegar innibyrgð reiði brýst út getur valdið íslensku þjóðfélagi slíkum skaða að enginn hefur áður kynnst slíku hér á landi. Eyðileggingin gæti orðið gífurleg og sárin sem eftir sitja á þjóðarsálinni gróa seint.“

Við verðum samt ekki hamingjusamari á því að brjóta glugga, kveikja í eða berja lögregluþjóna.

Við eigum að sameinast um að byggja upp, ekki að eyðileggja. Allt heiðarlegt fólk á að sameinast um gömlu gildin, virðingu, manngæsku og heiðarleika.

Í dag fór ég út á svalir og lagði við hlustir. Í fjarska heyrðist veikburða tíst.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.