Af strandstað? (BJ)

Ný ríkisstjórn framsóknar, VG og Samfylkingar hefur nú litið dagsins ljós. Hún lendir á hlaupum – harðahlaupum frá fyrri baráttumálum flokkanna þriggja sem að henni standa. Samt er alveg hægt að viðurkenna það að hún er um margt einstök. Gott væri ef henni tækist að koma mörgu góðu til leiðar en það blasir ekki við heldur minnir loforðalistinn meira á ályktun ópólitísks málfundarfélags en stefnufastrar ríkisstjórnar.

Áður en lengra er haldið verð ég þó að ljóstra því upp að fyrir um hálfum mánuði skrifaði ég grein sem heitir: „Tími Jóhönnu er kominn.“ Greinin mun birtast í Issues and Images, tímariti sem Heimur gefur út fyrir Útflutningsráð. Svona hef ég næma tilfinningu fyrir pólitíkinni. Á þeim tíma datt engum í hug að Jóhanna yrði forsætisráðherra (og reyndar ekki mér heldur).

Skoðum hvað gerst hefur:

Framsóknarflokkurinn sem hefur greinilega forystu í ríkisstjórninni og átti að henni frumkvæði lýsti því yfir eftir landsfund sinn að kjósa ætti í haust. Nokkrum dögum seinna var það aðalbaráttumál hans að kosið yrði í vor (það var eftir að fylgi hans var mælanlegt í skoðanakönnunum í fyrsta sinn í nokkur ár). Formaðurinn veit að það er ekkert bakvið aukninguna og því hætt við að hún hverfi jafnskjótt og hún birtist.

Snilld Framsóknar átti að vera að gera VG ábyrgt fyrir erfiðum ákvörðunum án þess að Framsóknarflokkurinn kæmi þar nærri. Hins vegar er valdabikarinn sætur og formaðurinn hefur nú ákveðið að taka þátt í þriggja manna yfirríkisstjórn og tekur þannig fulla ábyrgð á öllum gerðum stjórnarinnar.

VG lýsti því yfir þegar viðræðurnar hófust að aðalbaráttumál flokksins væri að breyta skilmálum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrst sagðist formaðurinn reyndar ætla að skila láninu aftur til þess að geta aukið hallann á ríkissjóði. Nú er stefna ríkisstjórnarinnar að hvika hvergi frá IMF-áætluninni.

Samfylkingin ætlaði að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn ef hann hafnaði aðild að Evrópusambandinu á landsfundi. Nú tekur hún upp samstarf við VG og segir ekkert um ES nema að aðild verði ákveðin af þjóðinni. Þetta er svakalegur sigur fyrir Samfylkinguna. Ætli hún hefði náð svona yfirlýsingu með Sjálfstæðismönnum?

Stjórnarmyndunarviðræður voru leiddar af Ingibjörgu Sólrúnu, Össuri og Steingrími. Sigmundur togaði í spottana þegar með þurfti. Jóhanna, forsætisráðherraefnið, kom ekki til fundar fyrr en búið var að leggja meginlínur. Foringjunum hefur þótt miklu skipta að hún vissi að hún væri bara forsætisráðherra en völdin lægju annars staðar.

Það fór að kvarnast úr ríkisstjórninni áður en hún er mynduð. Björg Thorarensen var örugglega á leiðinni í stjórn á föstudaginn var. Nú er komin önnur kona sem dómsmálaráðherra, kona sem eflaust er ágæt, en hefur líklega þá kosti helsta að vera kvenlögfræðingur sem ekki gift hæstaréttardómara. Björg er virtur fræðimaður, en hvernig datt mönnum í hug að það gengi upp að hjón væru dómsmálaráðherra og hæstaréttardómari?

Gylfi Magnússon er hinn vænsti maður og hefur bæði talað og skrifað skynsamlega um hagstjórnina og efnahagsmálin. Ég er ekki viss um að það sé rétt af honum að ganga inn í stjórn þríflokkanna. Hann sagði meðal annars í ræðu á Austurvelli:

„Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota. Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu.

Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttahönd og axli ábyrgð með  því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar  enn þá. Það glittir bara í löngutöng.

Allt þetta fólk má auðvitað starfa að uppbyggingunni en það má ekki og getur ekki stjórnað henni. Þeir sem strönduðu þjóðarskútunni eiga ekki að stýra henni af strandstað. Þeir geta ekki hvatt landa sína til dáða. Það hefur enginn trú á þeirra lausnum. Þeir mega hins vegar leggjastá  árarnar með öllum hinum. Á almennu farrými.“

Nú tekur Gylfi sér far með þessu sama fólki og hann taldi áður óhæft til þess að stýra þjóðarskútunni. Kannski býst hann ekki við því að skútan fari af strandstað.

Athyglisverð er upphrópun Steingríms um að nú hafi nýfrjálshyggjan kvatt Stjórnarráðið. Ég veit ekki nákvæmlega hvað felst í nýfrjálshyggjunni, en þeir voru ekki margir stjórnmálamennirnir sem tóku sérstöku ástfóstri við útrásarvíkingana sem svo voru nefndir. Davíð Oddsson setti vini sína í Landsbankann. Á öðrum hafði hann skömm eftir því sem best varð séð. Ingibjörg Sólrún hreifst af Jóni Ásgeiri og Jóni Ólafssyni í Borgarnesræðu. Framsóknarmenn fengu Búnaðarbankann. Eini kjörni fulltrúinn sem lýsti óblandinni ánægju með alla sem að útrásinni stóðu, skemmti sér með þeim, fór í kaffiboð þeirra og einkaflugvélar var fyrrum flokksbróðir Steingríms, Ólafur Ragnar Grímsson. Hann er enn við völd. Er Steingrímur að skjóta á Ólaf? Steingrímur sjálfur lýsti á sínum tíma ánægju með hverjir fengu Landsbankann. Ekki felst í ummælum hans sósíalísk sjálfsgagnrýni? Nei, það er löngu liðin tíð.

Stjórnin mun vonandi ekki gera mikið ógagn á þeim tólf vikum sem henni eru ætlaðar. Hættulegast er að hún reyni að verða „velferðarstjórn“ eins og Jóhanna lofaði. Það er alveg sama hvað mönnum finnst, nú eru ekki til peningar. Þeim mun fastari tökum sem ríkisfjármál eru tekin, þeim mun fyrr kemst þjóðin út úr vandanum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.