Ég biðst kannski afsökunar seinna (BJ)

Almenningur gerir kröfu um það að stjórnmála flokkarnir geri upp við fortíðina. Framsókn hefur skipt um formann á nokkurra mánaða fresti undanfarin ár. Þeir hafa ekki sett fram skýra framtíðarsýn en munu við næstu kosningar hafa lagt öllum gömlu þingmönnunum. Samfylkingin ætlar að bjóða upp á sama lið og áður og telur sig hafa nóg að gert með því að ýta Björgvini, Ágústi Ólafi og Þórunni út. Jón Baldvin býður enn á ný upp á sig sem ferskan valkost.

Samt virðast flestir sammála um að Sjálfstæðismenn eigi í mestum vanda. Flokkurinn kemur úr 18 ára valdatíð og ástandið er ekki björgulegt í þjóðfélaginu. Á heimasíðunni sést slagorðið: Nýir tímar – á traustum grunni. Ég er ekki viss um að það sé nothæft í komandi kosningum.

Formaður flokksins vill bíða eftir því hvað komi út úr rannsókn á bankahruninu áður en hann biðst afsökunar, sem hann segist svosem geta gert hafi hann gert eitthvað rangt. Ég veit ekki hvað hann heldur að komi út úr rannsóknarskýrslum. Ég á ekki von á að hann hafi drýgt neina glæpi. En það er ekki þar með sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki gert neitt rangt.

Í nýlegum skoðanakönnunum sveiflast flokkurinn í kringum 30% og er aftur orðinn stærstur eftir að hafa verið nálægt 20% þegar verst lét. Flokksmenn sjálfir eru ekki sérlega hreyknir af frammistöðunni en vita ekki vel hvernig þeir eiga að snúa sér. Þeir spyrja sig: Að hve miklu leyti er ástandið á Íslandi Sjálfstæðisflokknum að kenna?

Enginn efast um að meginástæðurnar fyrir hruninu eru tvær: Fjárhagskreppa um heim allan og gáleysislegur rekstur bankanna. Um fyrra atriðið gátu Sjálfstæðismenn engu ráðið. En hvað um rekstur bankanna? Vefþjóðviljinn hefur birt heilsíðuauglýsingar um allar þær reglugerðir og reglur sem um bankana gilda. Getur verið að þeim hafi öllum verið fylgt og samt hafi þeir lent í vanda?

Ef marka má fréttir um bankana að undanförnu virðist greinilegt að þeir hafi lánað himinháar fjárhæðir til „vildarvina“ oft fyrirtækja sem tengjast eigendum, stundum í gegnum skattaparadísir. Miðað við það að stórfyrirtæki geti ekki greitt nema brot af lánum virðast tryggingar ekki hafa verið í góðu lagi og þess ekki gætt að tekjustreymi á móti lánagreiðslum væri eðlilegt. Auðvitað voru lánin veitt í blússandi góðæri og nú er versta kreppa eftir heimstyrjöldina, en samt virðist áhætta af einstökum lánveitingum hafa verið gífurleg.

En á hverju bar Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð?

Jú. Hann ákvað hverjir fengju að kaupa Búnaðarbankann og Landsbankann. Hann ákvað að selja bankana til kjölfestufjárfesta sem svo fóru með bankana sem sína einkaeign og veittu lán til sinna fyrirtækja um heim allan. Þess í stað hefði flokkurinn átt að reisa skorður við eignarhlut einstakra aðila.

Þessu eiga sjálfstæðismenn að biðjast afsökunar á.

Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á peningastefnu Seðlabankans með sín verðbólgumarkmið. Lög um Seðlabankann voru samþykkt samhljóða á Alþingi þannig að flokkurinn ber ekki ábyrgð einn. Þegar verðbólgan og vextirnir dansa í kringum 20% er ekki hægt að láta eins og stefnan hafi verið rétt. Fyrirtæki og heimili eru á hnjánum eftir þessa meðferð.

Þessu eiga sjálfstæðismenn að biðjast afsökunar á.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur kæft niður alla umræðu um að Íslendingar ættu að tengjast öðrum myntum. Sérstaklega hefur flokkurinn og forystumenn hans brugðist í Evrópuumræðunni. Hávaxtastefna Seðlabankans ýtti heimilum og fyrirtækjum út í miklar erlendar lántökur sem svo þurrkuðu upp stóran hluta eigna landsmanna þegar krónan féll. Þetta hlaut að gerast þegar krónan var allt of hátt skráð. Vegna háu vaxtanna.

Þessu eiga sjálfstæðismenn að biðjast afsökunar á.

Bankarnir færðu peninga almennings yfir í sjóði sem keyptu skuldabréf af eigendum bankanna og fyrirtækjum þeirra. Sjóðirnir töpuðu gífurlegum fjárhæðum sem skattborgarar þurftu að bæta að hluta og gert var svo lítið bæri á. Eftirlit með þessum sjóðum virðist ekkert hafa verið. Fjármálaeftirlitið var reyndar undir Framsókn og Samfylkingu en Sjálfstæðisflokkurinn var með þessum flokkum í ríkisstjórn og ber líka ábyrgð.

Þessu eiga sjálfstæðismenn að biðjast afsökunar á.

Enginn venjulegur Íslendingur vissi að Icesave-brall Landsbankans væri í boði og á ábyrgð íslensku þjóðarinnar. Hins vegar var ráðamönnum fullkunnugt um það. Þessi afglöp eru líklega stærstu mistök stjórnmálamanna hér landi hin síðustu ár. Samfylkingarmenn sátu við stjórnvöl á því máli með Sjálfstæðisflokknum. Það dregur ekkert úr ábyrgð þess síðarnefnda.

Þessu eiga sjálfstæðismenn að biðjast afsökunar á.

Listinn gæti verið miklu lengri.

Það þarf ekki að bíða eftir neinni skýrslu frá rannsóknarnefndum. Sjálfstæðismenn eiga sjálfir að horfast í augu við fortíðina, fara yfir mistökin og biðja þjóðina afsökunar á þeim.

Þeir verða líka að setja fram sannfærandi stefnu til framtíðar. Flokkurinn þarf ekki að ekki að finna sér ný grunngildi. Frelsi og heiðarleiki eru góð gildi til framtíðar og þeim þarf ekki að biðjast afsökunar á. En þau verða að fara saman.

Þá öðlast flokkurinn trúverðugleika á ný. Þjóðin þarf stjórnmálamenn sem hún getur treyst því að leiði hana inn í farsæla framtíð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.