Ég hef verið að lesa ævisögu Lennons. Gamla uppáhalds bítilsins. Það var gaman en bókin var þung og olli mér öndunarerfiðleikum. Höfundurinn fer svolítið nákvæmlega yfir sumt sem einhver hefði talið aukatriði. Það er ekki fyrr en á blaðsíðu 269 sem Bítlarnir fara í stúdíó til þess að taka upp sína fyrstu plötu. Á blaðsíðu 614 ljúka þeir við sína síðustu skífu saman. Þá eru eftir 250 blaðsíður í viðbót. Þetta er að sumu leyti svolítil ryksugubók, þ.e. höfundurinn ryksugar upp allt sem hann finnur en vinnur ekkert sérstaklega mikið úr því. Íslenskir rithöfundar sem hafa notað svipuð vinnubrögð eru til dæmis Gylfi Gröndal og Gils Guðmundsson.
Þessi safnari heitir Philip Norman. Hann er upptekinn af kærustum Lennons og því hvort hann hafi haft tendens til karlmanna. Þetta er gömul tugga sem er tilkomin vegna þess að Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna, var hommi. Ég hefði alveg getað lifað góðu lífi áfram, án þess að heyra nákvæmlega um allar ástkonur Lennons og vita út í hörgul hvað þau dunduðu saman.
Ég fór hins vegar að rifja upp fyrstu upplifun Íslendinga af Bítlunum. Ég var átta ára þegar She loves you sló í gegn. Það sungu allir: Sí lovs jú, je, je, je. Líklega eitt af þeirra einfaldari lögum en það hljómaði endalaust í Lögum unga fólksins í útvarpinu.
Ég fletti því að gamni upp hvenær þeirra var fyrst getið í íslenskum blöðum og sé að 14. júní 1963 segir Alþýðublaðið frá því að lagið From me to you með the Beatles sé í 8. sæti á vinsældalistanum í Ósló. Tæplega mánuði seinna skrifar Svavar Gests í Lesbók Morgunblaðsins um smáskífu:
„The Beatles: From me to you/Thank you girl. —
„The Beatles“ eru fjórir, enskir piltar, sem leika og syngja. Fyrir nokkrum vikum komst platan þeirra „Please, please me“ í efsta sæti á vinsældalistanum í Englandi og á augabragði urðu þessir kornungu piltar frægir (í brezkum músikheimi). Margir spáðu því, að þeim, eins og svo mörgum öðrum músikstjörnum á þeirra aldri, mundi ekki takast að gera aðra plötu, sem ná mundi sömu vinsældum og fyrsta platan þeirra, en „Beatles“ voru ekki lengi að afsanna það. Meðan „Please, please me“ var á leið niður vinsældalistann var önnur platan þeirra, „From me to you“ á hraðri leið upp og er einmitt þessa dagana í efsta sætinu. Auk þess hafa þeir leikið tólf lög inn á 33 snúninga plötu, sem einmitt þessar vikurnar er bezt selda platan af því tagi í Bretlandi.
Hljóðfæraskipun „Beatles“ er hin sama og „Shadows“, sem nokkrum sinnum hefur verið minnzt á í þessum dálki, en „Beatles“ leggja allt eins mikið upp úr söngnum og það gerir herzlumuninn. Lögin semja þeir sjálfir, og bæði lögin á þessari plötu eru sérkennileg, þó ekki risti þau djúpt. Söngurinn er líka öðruvísi en maður á að venjast, allt að því hjáróma söngur, og eilítið falskur á köflum, en kannski eiga „The Beatles“ eftir að ná sömu vinsældum meðal táninganna á Íslandi, eins og í Bretlandi, já, og reyndar víðar. Plötur þeirra seljast eins og heitar lummur á Norðurlöndum, Þýzkalandi og víðar. essg.“
Þann 21. nóvember (daginn áður en Kennedy var myrtur) sama ár skrifaði Þjóðviljinn:
Bítilæðið í Bretlandi
Um fátt er nú meira rætt og ritað í Bretlandi, — ekki einu forsetaheimsókn — en þessa fjóra lubbalegu pilta sem eru á myndinni hér að ofan. Enginn veit eiginlega hvernig á frægð þeirra stendur, en þeir eru sagðir geta búið til meiri hávaða en nokkur annar hópur jafnfjölmennur. Þeir kalla sig „The Beatles“ (framborið Bítils) og helzta auðkenni þeirra auk háralagsins og annarlegs klæðaburðar er sagt það að hljóðin úr þeim séu svo ferleg að annað eins hafi ekki heyrzt á Bretlandi síðan loftvarnalúðrarnir þögnuðu í stríðslok. Það sem af er árinu hafa hljómplötur með þeim hljóðum sem þeir framleiða ýmist með rafmagnsgíturum eða eigin hálsum selzt í hálfri þriðju milljón eintaka í Bretlandi og má nú vænta þess hvað úr hverju að ómurinn af þeim söng berist hingað til lands, ef hann er þá ekki þegar farinn að glymja í eyrum íslenzkra útvarpshlustenda.
Gizkað er á að tekjur piltanna sem eru á aldrinum 21-23 ára muni á þessu ári nema sem svarar 12 milljónum íslenzkra króna. Þegar þeir gefa mönnum kost á að hlusta á sig flykkjast þúsundir manna að. Þannig 5.000 manns í Manchester einn daginn. 4.000 í Newcastle og 2.000 í sjálfu Palladium í London. Þeir komust á hátind frægðar sinnar í síðustu viku þegar þeir hálfærðu brezkt hefðarfólk á samkomu í „Leikhúsi prinsins af Wales“ í London að viðstaddri Elísabetu drottningarmóður og tengdasyni hennar, Snowden lávarði, sem þökkuðu þeim fyrir skemmtunina með handabandi. Lávarðurinn bauðst meira að segja til að ljósmynda þá. Meiri sómi hlotnast mönnum vart í Bretlandi.
En drottningin sjálf á von á sér og kemst ekki að heiman af þeim sökum. „This is Beatlemanla“, „Þetta er bítilæði“. sagði stórblaðið „Daily Mail“ í fyrirsögn og spurði jafnframt: „Hvar skyldi þetta allt enda?“
Saga Lennons endaði 8. desember árið 1980 og það féll í minn hlut að segja þjóðinni frá því að hann hefði verið skotinn, en ég var þá fréttaritari Ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum.
Mér datt það í hug að finna út hvaða plata Lennons væri best. Ég á þær allar í Ipodinum mínum og hef gefið öllum lögum hans stjörnur, frá einni upp í fimm. Ég bætti við nokkrum bítlaplötum. Á plötum Lennons sleppti ég lögum eftir Yoko Ono. Niðurstaðan er þessi:
Fimm stjörnu lög | Meðaleinkunn | |
Plastic Ono Band | 5 | 4,1 |
Walls and Bridges | 1 | 3,7 |
Double fantasy | 1 | 3,5 |
Mind games | 3 | 3,5 |
Imagine | 3 | 3,3 |
Some time in New York City | 0 | 3,0 |
Live in New York City | 0 | 2,8 |
Milk and Honey | 0 | 2,6 |
Rubber soul | 3 | 3,9 |
With the Beatles | 0 | 3,9 |
Magical Mystery Tour | 3 | 3,8 |
Sgt. Pepper’s | 2 | 3,8 |
Hvíta platan | 6 | 3,8 |
Let it be | 2 | 3,3 |
Ég varð svolítið hissa á þessu sjálfur, en svona er þetta bara. Ég hélt að Imagine yrði hærra á listanum en þar eru of mörg leiðinleg lög. Gamla platan, With the Beatles, kemst hátt vegna þess að þar eru engin léleg lög. Kannski var ég bara í góðu skapi þegar ég gaf henni einkunn.
Ég þarf að fara að hlusta á Plastic Ono Band aftur.